10.10.1947
Sameinað þing: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (3394)

9. mál, markaðsleit í Bandaríkjunum

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Það málefni, sem flm. sá, sem nú hefur lokið ræðu sinni, ber hér fram, er mjög athyglisvert.

Það er nú svo, að tilraunir til markaðsleita fara oft fram og á ýmsa vegu, en í sjálfu sér er sú ein markaðsleit raunhæf, sem beitir öllum heiðarlegum brögðum til að koma á markaðinn þeirri vöru, sem bæði að verði og gæðum stenzt samanburð við sams konar vöru keppendanna. Ég heyrði, að hv. flm. er mér sammála um þetta grundvallaratriði í þessu máli.

Það eru nú um 10 ár síðan við vorum þátttakendur í New York sýningunni svokölluðu, og sýndist á þeim tíma sitt hverjum um það, hversu örugg aðferð það væri til markaðsleitar, en ég man, að því var haldið á lofti, að slík þátttaka mundi opna íslenzkum afurðum veginn á markaði Bandaríkjanna. Ég vil ekki fullyrða, að eitthvert gagn hafi ekki orðið fyrir okkur að þessari sýningu, en ég hef ekki heyrt færðar sönnur á, að þátttaka okkar í New York sýningunni hafi borið raunverulegan ávöxt. Það er sennilega erfitt að sanna slíkt. Hitt veit ég, að útgjöld í þessu skyni voru mikil, bæði frá ýmsum stofnunum og líka frá Alþ., og veit ég ekki til, að enn þá hafi verið birtir reikningar um New York sýninguna. Hvað háir þeir voru, veit ég ekki, en ég var þá á þeirri skoðun, að það væri vafasamt, hvort það borgaði sig að taka þátt í jafnkostnaðarsamri sýningu.

Bandaríkin eru það land, þar sem einna bezt aðstaða er til að selja hraðfrystan fisk, og þessi aðstaða gerir það að verkum, að ef önnur skilyrði væru fyrir hendi, ætti að vera ágætt að selja hraðfrystan fisk þar. Það er vitað, að það, sem gerir svo erfiða sölu á hraðfrysta fiskinum, er, hve erfitt er að flytja hann og geyma. Verzlunarfulltrúi Sovétríkjanna hefur sagt mér, að aðalerfiðleikarnir þar væru í sambandi við flutningana, þegar þarf að flytja fiskinn langa leið eftir fljótum. Það eru miklir örðugleikar í sambandi við þennan fisk, sem ekki gera sig svipað því gildandi, þegar um saltfisk og þurrfisk er að ræða. Það er því nauðsynlegt, að við reynum eftir mætti að rannsaka möguleika á því að koma þessari framleiðslu okkar á markað, bæði í Evrópulöndum og eins fyrir vestan, eftir því, sem við verður komið. En af því að sérstaklega háttar til með Bandaríkjamarkaðinn, vil ég benda þeirri nefnd, sem fer með þetta mál, á það, að við afgreiðslu þess er nauðsynlegt að leita ráða eða heyra álit sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, því eins og hv. flm. tók fram, hafa þau fram til þessa haft viðleitni til þess að selja fiskinn á þessum markaði, og það má segja, að á takmörkuðu sviði séu þegar í gangi skipulagðar tilraunir í Bandaríkjunum í þessu efni, en þó má ekki skilja mín orð þannig, að ég telji það nægja til þess, sem þessi till. fer fram á, því skiptar skoðanir geta verið um það, hvort rétt sé í málið farið.

Ég hef talað tvisvar við þann duglega mann, sem hraðfrystihúsin hafa fyrir vestan, og ég hef rætt við hann aðferðirnar til að koma þessari vöru út. Mér skilst, að hann hafi þá aðferð, að sölumiðstöðin hafi umboðsmenn í ýmsum borgum — ég má segja, að hann sagði 14 borgum, — sem hafa það hlutverk að koma fiskinum út, og aðspurður hefur umboðsmaðurinn haldið því fram, að þetta væri bezta aðferðin. Ég veit, að margir eru þeirrar skoðunar, að það mætti hafa þetta öðruvísi, en ég vil að svo komnu máli ekki leggja neinn dóm á það, hvort sú skoðun er rétt eða skoðun umboðsmannsins. Ég veit bara það, að sá maður mun leggja sig allan fram við það verk, sem hann tekur sér fyrir hendur, sú reynsla er fengin af honum hér.

Flm. lagði áherzlu á, að það þyrfti að hafa nokkra menn, sem kæmu þessari vöru út. Það má rétt vera, en einkum þarf varan að vera samkeppnisfær, bæði hvað verð og gæði snertir. En Jón Gunnarsson, fyrrverandi forstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, hefur gert aðfinnslur við fiskinn nokkrum sinnum — ekki verið ánægður með fráganginn á honum, — en það á máske rót sína að rekja til þess, að þegar sölumiðstöðin hefur verið að senda slatta með stórum skipum, sem hafa legið í Reykjavík og fara ekki á hafnirnar, hefur þurft að senda fiskinn með bifreiðum til Reykjavíkur, og ef illa hefur staðið á, hafa bifreiðarnar stundum þurft að bíða við skipshlið, svo að frostið hefur linazt í fiskinum. En það er skiljanlegt, að þegar skipin geta hlaðið á hinum ýmsu stöðum, eins og skip Eimskipafélagsins hafa gert og skip sölumiðstöðvarinnar mun gera, þá er hægt að koma fiskinum óskemmdum um borð. En þrátt fyrir þessar aðfinnslur fullyrðir umboðsmaðurinn, að sér hafi tekizt að selja íslenzkan fisk dálítið hærra verði en annan fisk, sem á boðstólum er, og getur verið, að það, hve hann hefur þurft að hyllast til að hafa verðið hátt, hafi valdið því, að hann hefur ekki selt meira. Ég geri ekki ráð fyrir, að hann hafi reynt að selja við því verði, sem fiskábyrgðarl. segja fyrir um, því að þá hefði ekkert af honum selzt.

Annað skilyrði fyrir því að vinna svona markað er það, að varan sé alltaf til, — og er það viðurkennt af öllum, sem selja nauðsynjavöru, — að ekki komi dauðir kaflar, að neytendur, sem vilja íslenzka fiskinn, grípi ekki allt í einu í tómt. Það er vitaskuld hættulegt og getur ónýtt kannske margra mánaða — ef ekki ára — brautryðjendastarf sölumannanna, og það var þetta sjónarmið ekki síður en önnur, sem olli því, að stj. féllst á, að Vatnajökull færi vestur með þennan farm, sem selzt þó vafalaust með miklu tjóni miðað við fiskábyrgðarl., — þetta sjónarmið, að láta ekki fiskinn vanta nú á þessum tíma. því að það er einmitt um hausttímann og vetrartímann, sem fiskneyzlan er mest. Ef t. d. í þeim 14 borgum, sem ég veit eftir upplýsingum frá umboðsmanninum, að íslenzki fiskurinn hefur verið á boðstólum í undanfarið, — ef þær yrðu allar vörulausar núna og fram undir áramótin, mundi vitaskuld mikið af þeirri vinnu, sem umboðsmaður sölumiðstöðvarinnar hefur lagt í að fá söluna upp, fara til ónýtis. Það standa líka vonir til, að fiskverðið í Bandaríkjunum hækki núna að haustinu til í sambandi við aðrar matvælahækkanir, en vitaskuld þarf ekki að búast við, að sú hækkun verði neitt nálægt því, sem við þurfum til þess að geta fengið þann mismun, sem verður á markaðsverði þar og því verði, sem hér er heimtað.

Ég vildi aðeins láta þessa athugasemd fylgja þessari till., án þess að fara frekar út í það, sem flm. minntist á og ég er honum alveg sammála um, að höfuðvandinn á því að koma þessari vöru okkar á markað er sá, að við erum svo dýrseldir, allt of dýrseldir. En það var sérstaklega þetta, sem ég vildi benda n. á, að kynna sér þá byrjun að skipulagsbundnum tilraunum til að selja hraðfrystan fisk í Bandaríkjunum, sem sölumiðstöðin hefur haft með höndum. og ef unnt væri, þegar tillögur yrðu afgreiddar, að taka tillit til þeirrar reynslu, sem þegar er fengin. Ef komizt yrði að þeirri niðurstöðu, að verið væri á réttri braut, ættu opinberar aðgerðir að miðast við þann grundvöll, sem lagður hefur verið, en að ekki sé stefnt í aðra átt með þær aðgerðir, án þess að styðjast við þá reynslu, sem þegar er fengin og nú hefur verið keypt alldýru verði.

Hitt getum við sjálfsagt allir verið sammála um. og það segir maður manni, þegar talað er við kunnuga menn um þetta, sem sé þetta, að ef við næðum að standa föstum fótum með þessa ágætu framleiðslu okkar á Ameríkumarkaðinum, yrði það ákaflega mikill styrkur fyrir hana, — en þessi framleiðsla skipar nú mjög þýðingarmikið rúm í framleiðslukerfi þjóðarinnar. Og þetta þurfum við að gera, án þess að við vanrækjum á nokkru öðru sviði þá markaði, sem þegar hafa unnizt, þó að þeir séu kannske, sumir hverjir. dálítið tímabundnir, — að við reynum að halda í þá markaði, þar sem fiskurinn hefur verið vel meðtekinn, og freistum þess jafnframt að fá nýja kaupendur, líka í Evrópulöndunum.