22.10.1947
Sameinað þing: 12. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (3408)

11. mál, mælingar í Þjórsá

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Þessi till. er flutt til þess að fá fram upplýsingar um þær mælingar og rannsóknir, sem framkvæmdar hafa verið af hálfu erlends félags í Þjórsá nú undanfarið og nú er talið að sé lokið við.

Ég flutti í vor, þegar frv. um fjárhagsráð var hér til umr., brtt. við l. um fjárhagsráð, þar sem meðal annars var farið fram á, að rannsökuð yrði og undirbúin, ef rannsókn leiddi í ljós, að það væri heppilegt, virkjun Þjórsár á næsta áratug. Ég birti sem fylgiskjal með mínu minnihlutaáliti við 2. umr. um 1. um fjárhagsráð ýtarlegt skjal frá rafmagnseftirliti ríkisins og raforkumálastjóra um þær mælingar, sem fram hafa farið í Þjórsá um það leyti sem fyrra stríð hófst, sem hafa leitt í ljós, að þarna er um að ræða ekki aðeins eitthvert stærsta vatnsfall, heldur eitthvert hið allra hentugasta, ef stórvirkjun ætti að eiga sér stað.

Þessar till. mínar voru allar felldar, og ég álít það mjög miður farið, því að með þeim var gerð grein fyrir því, að hverju fjárhagsráð skyldi vinna og í hvaða átt það skyldi stefna, en nú virðist það hafa gefizt upp við allt, sem þyrfti að vinna á sviði stórframkvæmda hér á Íslandi, — en látum það vera. Hitt er aðalatriðið frá mínu sjónarmiði, að Íslendingar fari að gera það upp við sig, hver eigi að verða höfuðstefna þeirra í atvinnumálum framvegis.

Ég færði þá þau rök fyrir mínu máli, að við hefðum á því tímabili, sem nú væri að líða, lagt höfuðáherzlu á eflingu sjávarútvegsins, en hitt væri gefið, að við gætum ekki til frambúðar unað við það eitt, ekki sízt ef ekki ætti að efla sjávarútveginn eins og nýbyggingarráð hafði gert ráð fyrir, og ég færði þess vegna fram þessa hugmynd, að reynt yrði að koma upp stóriðju hér og hagnýta til þess fyrst og fremst raforkuna og benti á Þjórsá til dæmis um þær rannsóknir, sem þyrfti að framkvæma.

Ég held, að það sé alveg gefið, að ef við ættum að reyna að koma upp stóriðju hér hjá okkur á grundvelli mikilla og stórra raforkuvéla, þá yrði að taka ákvörðun um það strax, þó að stóriðjan ætti ekki að vera komin í framkvæmd fyrr en eftir 10 ár, og það er vegna þess hvað lítið fjármagn við höfum. Við yrðum að einbeita fjármagninu að þessum framkvæmdum um langan tíma, og við yrðum að hafa langan tíma til að afla tækja erlendis, — þess vegna verðum við að taka slíkar ákvarðanir löngu fyrir fram og haga atvinnupólitík, gjaldeyrispólitík og verzlunarpólitík okkar í samræmi við það. Allar þessar till. mínar voru felldar. Á sama tíma á það sér stað, að erlent hlutafélag er að láta rannsaka, hvað mikla orku sé hægt að fá í Þjórsá og hvernig virkjunarskilyrði séu þar. Enn fremur vitum við, að Þjórsá mun vera að einhverju leyti í eign félags, sem ekki er nema að litlu leyti íslenzkt, þó að Alþ. hafi það alltaf á sínu valdi að ráða virkjunum í okkar landi.

Nú hefur það heyrzt, og það er tilefnið til þessarar þáltill. minnar nú, að erlendu hlutafélagi, sem áhuga hefur sýnt fyrir Þjórsá, þyki líklegt, að þar sé hægt að koma upp stórvirkjun. Við vitum, hvers konar gífurlegt kapphlaup er í heiminum um allar orkulindir. Við vitum t. d. um baráttuna um olíuna og t. d. kolin, sem er einhver harðasta barátta, sem fram fer um auðlindir heimsins, vegna þess að vísindamenn sjá fram á, að mjög mikið af þeirri orku, sem notuð hefur verið undanfarið, muni þrjóta áður en margar aldir líða, og þess vegna mun kapphlaupið um það að ná einhverjum tökum á orkulindunum, t. d. fossaaflinu og hveraorkunni hjá okkur, vaxa alveg gífurlega, og það hefur heyrzt, að verkfræðingafélagið, sem mælir Þjórsá nú, geri það að undirlagi brezks auðfélags. En hins vegar mun alveg sérstaklega hafa verið á það minnzt, að til mála kæmi, ef slíkt félag hugsaði til virkjunar, að það fengi hráefni frá Kanada til þess að vinna úr því aluminium.

Norðmenn hafa verið að reisa hjá sér stórvirkjun á þessu sviði, og af hálfu erlends auðfélags hefur verið gengið afar hart að norsku stj. til þess að reyna að ná tökum á slíkri stóriðju. En Norðmönnum tókst að tryggja þjóðinni sjálfri þennan rekstur, sem þeir eru að koma upp á grundvelli sinnar vatnsorku, og þeir eru að undirbúa aluminíumframleiðslu.

Í þeim till., sem ég flutti í fyrra, var sérstaklega farið fram á, að rannsakaðir yrðu möguleikar á því að flytja inn erlent hráefni til að vinna úr aluminíum hér heima. Nú er vitað, að það er óhugsandi nema iðjuverið, sem reist er í sambandi við það, sé svo stórt, að það sé tiltölulega stórt á alþjóða mælikvarða. Það er óhugsandi að vera samkeppnisfær í heiminum með aluminíum á annan hátt en þann, að það fyrirtæki, sem vinnur slíkt aluminíum hér heima, sé svo stórt, að það geti skaffað ódýra orku. Við yrðum að ráðast í að taka stærstu fossana í Þjórsá, Urriðafoss eða fossana við Búrfell til þess að virkja. Vitanlega yrði kostnaður við slíkt gífurlegur, máske yfir 100 millj. kr. við Urriðafoss og mörg hundruð millj. við Búrfell, og ef ætti að byggja slíkt iðjuver, þá yrði það fyrirtæki risavaxið á okkar mælikvarða og jafnvel á erlendan mælikvarða. Slíkt mundi sem sé þýða, að við yrðum að einbeita fjármagni okkar í þessu skyni til margra ára, t. d. 5–10 ára, einbeita gjaldeyri okkar og öllu fjármagni þjóðarinnar, ef við ættum að eiga slíkt fyrirtæki einir og lánalaust. Ég drep hér á erlend lán af þeim sökum, að ég álít það höfuðskilyrði, ef við förum út í stóriðju, að við þurfum engin erlend lán að taka. Ef við þyrftum að taka erlend lán til þess, eins og hæstv. viðskmrh. minntist hér á fyrir nokkru, líkt og í sambandi við Sogsvirkjunina, og greiða 4–6%a vexti, þá þýðir það, að gróðinn af slíkum fyrirtækjum fer út úr landinu og við verðum að leggja því meiri skatta á okkur og framleiðsluafurðirnar, er mundi oft leiða til þess á hinn bóginn, að þær yrðu ekki samkeppnishæfar. Þess vegna þarf í þessu máli að leggja ákveðnar línur löngu fyrirfram, skipuleggja þjóðarbúskapinn með það fyrir augum og haga honum með sérstöku tilliti til þess, að við verðum færir um að leysa þetta sérstaka og mikla viðfangsefni af hendi.

Ég flutti þessa till. í vor til þess að vekja athygli á því í tíma, hve framkvæmdir í þessu efni þurfa langan undirbúning, og vara við því, sem oft hefur átt sér stað, að ráðast í miklar framkvæmdir án fyrirhyggju. En frestun undirbúnings fram á síðustu stund gæti leitt til þess, að við þættumst ekki eiga annars úrkosta en taka erlend lán eða gefast upp ella. En hvort tveggja er óþarfi, aðeins ef við gætum þess að skipuleggja þjóðarbúskapinn í tíma og haga öllum fjármálum okkar með það fyrir augum að vinna stórvirki, og þá er það kleift.

Þess vegna þykir mér nokkur ástæða til að óttast það, að útlendu félagi hefur verið leyft að rannsaka Þjórsá. Ég býst við, að sú rannsókn hafi byrjað í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. En ég er hræddur um, ef tilboð bærist frá erlendu félagi um að reisa hér gífurlega stóra rafstöð eða orkuver, veita atvinnu í sambandi við það og selja síðan rafmagn með verði, sem vafalaust yrði vægt, þá er ég hræddur um, eins og ég sagði áðan, að hægt væri að agitera hér upp stemmningu fyrir því, ef ekki er með forsjálni sýnt fram á, að við erum færir um að gera þetta sjálfir með því að skipuleggja þjóðarbúskapinn með það fyrir augum. Ég hef því lagt fram þetta mál í því skyni að fá opinberlega fram, hvað ýtarlegar rannsóknir hafa verið gerðar og hvað þær hafa leitt í ljós. Ég geng sem sé út frá því, að ríkisstjórnin láti ekki fara fram mælingar á Þjórsá eða öðrum orkulindum landsins án þess að tryggja sér jafnframt að fá að vita árangurinn af þeim rannsóknum, og í öðru lagi að íslenzkir sérfræðingar og trúnaðarmenn fái að öllu leyti að fylgjast með, svo að sú þekking, sem þannig aflast, sé um leið orðin eign íslenzku þjóðarinnar. Og ég álít einmitt gott, ef Alþ. gæti fengið að vita um niðurstöður þessara rannsókna á þessu þingi, svo að það geti gert þær ráðstafanir, sem það telur rétt að gera, í krafti þeirrar þekkingar, sem komin er í ljós. Ég vona, að engir samningar séu hafnir við hið erlenda félag, og tilgangur minn er sá að fá yfirlýsingu um, að slíkir samningar hafi ekki verið gerðir, og ég vona að þeir verði aldrei teknir upp. En ástæðan til þess, að ég minnist á samninga í till. minni, er sú, að samkv. reynslu álít ég það óhjákvæmilegt, að Alþ. láti það álit sitt í ljós, að það vilji ekki slíka samninga og vilji fylgjast með því, hvort byrjað er á nokkrum samningum. Það er vitað, að af samningagerð ríkisstj. við volduga erlenda aðila um sérleyfi hér á landi kynni að stafa sú hætta, að stjórnin leiddist út í að ganga of langt í samningagerðinni og leggja síðan samninginn fyrir Alþ., og þingmenn, er styddu stjórnina, fyndu sig þá bundna við hana og gengju lengra en þeir hefðu nokkurn tíma ella gert. Fordæmanna þarf ekki langt að leita, og því hef ég sett þetta um samningana inn í ósk mína eða skýrslubeiðni til ríkisstjórnarinnar.

Ég vona, að hæstv. atvmrh. gefi nú skýrslu um þetta mál, ef unnt er á þessu stigi þess, og væri þá hægt að ræða það nánar hér á Alþ., og vænti ég þess, að þær umræður gætu orðið að töluverðu gagni og til einhverrar uppbótar á þeirri óheppilegu afgreiðslu, sem frv. um stóriðju í sambandi við fjárhagsráð fékk hér, í fyrra.