22.10.1947
Sameinað þing: 12. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (3409)

11. mál, mælingar í Þjórsá

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Það er sjálfsagt, að ég gefi þær upplýsingar, sem hægt er að gefa á þessu stigi málsins, en þær verða þó mjög takmarkaðar, því að það er langt frá því, að mælingum sé enn lokið, þó að hv. 2. þm. Reykv. gæti þess til, þær eru víst ekki meira en hálfnaðar eða tæplega það.

Það er rétt að rifja lítið eitt upp gang þessa máls, þó að ég gerði það lauslega í vor, en hann er sá, að vorið 1946 mun erlent félag hafa snúið sér til þáv. ríkisstjórnar og óskað eftir að fá að athuga Þjórsá og virkjunarmöguleika. þar. Þáv. ríkisstj. mun hafa gefið leyfi til þess og greitt fyrir þessum mönnum, en vitanlega án loforðs um framhaldsrannsókn eða nokkur réttindi í þessum efnum. Eftir að ég tók við embætti atvmrh., kom að nýju beiðni frá ensku verkfræðingafirma um að fá að halda áfram þessum mælingum. Um þessa beiðni var rætt í ríkisstj., og féllst hún á að heimila framhaldsrannsókn, og samkv. því veitti ég þetta leyfi. Hitt var tekið skýrt fram, að leyfið veitti engan ádrátt um nein réttindi að rannsókn lokinni, og íslenzkum sérfræðingum og trúnaðarmönnum skyldi vera gefinn kostur á að fylgjast með öllum rannsóknum og mælingum, svo að íslenzkum aðilum yrðu jafnóðum kunnar allar niðurstöður rannsóknanna. Jakob Gíslasyni raforkumálastjóra og Geir G. Zoëga vegamálastjóra var einkum falið að vera trúnaðarmenn ríkisstj. í þessu efni, eins og þeir höfðu verið áður, og enn þá var það undirstrikað að enginn ádráttur væri gefinn um neins konar réttindi til starfa að rannsókn lokinni.

Í sumar hafa verið gerðar vatnsrennslisrannsóknir í Þjórsá, en eitt sumar kemur þar ekki að fullu gagni. þessar rannsóknir verður að gera á öllum tímum árs eða árið um kring. Og nú hafa verkfræðingarnir samið við bónda fyrir austan um, að hann fylgist með vatnshæðinni í Þjórsá og geri þar nauðsynlegar mælingar í vetur, svo að hægt sé að fylgjast með vatnsmagninu allt árið. Virkjunarmælingarnar eru aðallega gerðar hjá Urriðafossi og Búrfelli, og að miklu leyti er eftir að vinna úr þeim mælingum, sem þegar hafa verið gerðar. En íslenzkir trúnaðarmenn, sem fylgzt hafa með mælingunum, hafa látið uppi, að þær falli saman við fyrri mælingar, sem gerðar hafa verið og eru í íslenzkra manna höndum. Ég hef rætt þetta mál sérstaklega við raforkumálastjóra síðan þessi þáltill. kom fram, og hann telur, að hinir útlendu verkfræðingar hafi haldið það að láta íslenzka trúnaðarmenn fylgjast með því, sem gert er og leitt í ljós, en málið er enn þá á rannsóknarstigi og engar fastar niðurstöður fyrir hendi. Ég hef því miður ekki getað rætt við vegamálastjóra, því að hann hefur verið mikið veikur að undanförnu, en ég veit, að hann hefur fylgzt með þeim mælingum, sem gerðar hafa verið, og þeim niðurstöðum, sem þær hafa leitt til á þessu stigi málsins. Ég hef einnig óskað eftir, að raforkuráð fylgdist vel með í þessu efni, en í því eiga sæti 5 fulltrúar, og er Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri formaður þess. Ég hef rætt málið við ráðið, og það hefur málið einnig með höndum til athugunar, hvernig taka beri á því að lokum, því að það er hverju orði sannara, sem hv. flm. sagði, að það er stórkostlegt vandamál fyrir íslenzku þjóðina smáa og félitla, hvernig taka á á slíku máli. Það getur orðið lyftistöng, ef rétt er á haldið, en það gæti líka orðið sú hætta, að slíkar framkvæmdir gleyptu þjóðfélagið. Það er því sjálfsagt að kveðja til alla trúnaðaraðila í þessu máli, og þó að ég telji mig ekki geta rætt þetta ýtarlega hér, þá vil ég skýra frá því, að tillögur hafa þegar komið fram í raforkuráði um það, hvernig réttast sé að taka á þessum hlutum, en ég tel mig þó tæplega hafa rétt til að skýra frá þeim tillögum hér að efninu til á þessu stigi málsins. En vegna þess hve þetta mál er þýðingarmikið og vegna þess að ég hef aðeins skýrt frá broti af þeirri þekkingu, sem er í höndum viðkomandi aðila, legg ég til, að umr. verði frestað og málinu vísað til nefndar, er fengi öll plögg og gögn til athugunar, sem eitthvað er hægt að græða á, og gæti hún þá rætt við viðkomandi trúnaðarmenn, t. d. raforkuráð, til þess að Alþ. geti nú og ætíð fylgzt með því, sem gerist í málinu. Því að ég er því fyllilega sammála, að hér sé um slíkt hagsmuna- og vandamál að ræða, að nauðsynlegt sé, að allir beztu menn séu til kvaddir að ráða hinum haldbeztu ráðum.

Ég hygg, að það hafi nú komið skýrt fram í ræðu minni, sem ég vil nú að lokum segja, að það er svo langt frá því, að samningar hafi hér verið gerðir við nokkurt erlent félag, að sá fyrirvari hefur einmitt verið gerður, að rannsóknaleyfið veiti engan rétt til framkvæmda að rannsókn lokinni. Það liggur því opið fyrir Alþ. að taka sínar ákvarðanir í þessu máli.