27.10.1947
Sameinað þing: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (3415)

18. mál, viðbótarvirkjun í Soginu og Laxá

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Með þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, er farið fram á, að ríkisstj. geri ráðstafanir til þess, að viðbótarvirkjanir verði gerðar í Soginu og Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu og að þessum virkjunum verði lokið svo fljótt sem verða má og eigi síðar en á árinu 1949. Eins og hv. þdm. er kunnugt, mun það vera um það bil helmingur landsmanna, sem á að fá raforku frá fyrrgreindum stöðvum, í fyrsta lagi til heimilisnota og í öðru lagi til þess hluta iðnaðar, sem rekinn er með rafmagnsorku. Það er því auðsætt, að það er geysiþýðingarmikið fyrir meginhluta landsmanna, að orkuver þessi séu fær um að veita þá orku, sem þörf er á á hverjum tíma. Eins og nú standa sakir, er orkuframleiðsla þeirra hins vegar ófullnægjandi, og raunar hafinn undirbúningur að stækkun stöðvanna og þar með viðurkennd hin mikla þörf, sem er á stækkun þessara orkuvera. Það er kunnugt, að höfuðborg landsins, Reykjavík, sem fær rafmagn frá Soginu, hefur þegar þörf fyrir meiri raforku en hægt er að framleiða, og til viðbótar hafa svo verið byggðar orkuveitur út frá Soginu til sveitanna hér fyrir austan fjall. Hafa þær ýmist verið tengdar við Sogsvirkjunina eða verða tengdar á næstunni, en vegna orkuleysis Sogsstöðvarinnar hefur nú orðið að loka hluta úr sólarhringnum fyrir strauminn til þeirra veitna, sem þegar hafa verið tengdar. Það er því ótvírætt, að vikuframleiðsla Sogsvirkjunarinnar er nú of lítil. Enn má gera ráð fyrir því, að raforkunotkunin hér fari vaxandi í nánustu framtíð, þannig að orkuvöntunin verði stórum meiri, er lengra líður, og það þegar á næstu árum. Það ríður því mikið á því, að þeirri viðbótarvirkjun, sem þegar er hafin við Sogið, verði hraðað sem mest og allt verði gert til þess, að framkvæmdin taki sem allra stytztan tíma.

Um Laxárvirkjunina er alveg sömu sögu að segja. Næststærsti bær landsins, Akureyri, fær alla sína orku þaðan, og það er staðreynd, að orkuþörfin þar er meiri en fullnægt verði nú. Auk þess er ýmist verið að tengja nýjar veitur við virkjunina eða ákveða að byggja fleiri, þannig að orkuþörfin er orðin miklu meiri en Laxárstöðin geti fullnægt, bæði hvað snertir Akureyri og héruðin í kring. Um þá stöð er því eins og með Sogsstöðina, að fyrir því liggja ótvíræðar sannanir, að stækkunar er þörf, og sú þörf er þegar viðurkennd með því að hefja undirbúning að stækkun, enda þótt ekki sé enn ákveðið, hvernig þeirri stækkun skuli hagað eða hvaða aðili skuli framkvæma hana. Ég vildi geta þess hér um Laxárvirkjunina, að þörfin á stækkun hefur ekki aðeins verið viðurkennd af Akureyrarbæ, heldur einnig af hæstv. ríkisstj. og Alþ., því að þetta mál var hér á dagskrá í lok síðasta þings og var ríkisstj. þá með þáltill. heimilað að hefja undirbúning að stækkun virkjunarinnar og að festa kaup á efni og vélum í því skyni. Nú er það svo, að þessi heimild hefur ekki verið notuð, en í rauninni má vera, að ekki sé hægt að ásaka hæstv. ríkisstj. fyrir það, þar sem nauðsynlegum undirbúningsrannsóknum, t. d. um, hvaða vélar skyldi nota, var ekki lokið fyrr en í sumar. En nú, þegar þetta liggur fyrir, þá má ákveða, hvaða aðili skuli hafa framkvæmdina með höndum og hefja verkið, og tilgangurinn með þessari till. er að ýta á eftir því, að heimildin verði notuð og allar ráðstafanir gerðar til þess að viðbótarvirkjuninni verði lokið á sem stytztum tíma.

Það mætti kannske ætla, að ekki væri sérstök þörf afskipta Alþ. á þessu stigi málsins vegna þeirrar heimildar, sem ríkisstj. hefur þegar fengið, og vegna þess að Reykjavíkurbær hefur ákveðið að hefja stækkun á Sogsvirkjuninni. En þó að undirbúningur sé hafinn, skiptir það, eins og áður er sagt, geysimiklu máli, að verkið taki ekki langan tíma. Ef framkvæmdin er tafin, geta orðið miklir erfiðleikar á því að útvega efni, t. d. nauðsynlegar vélar. Slík útvegun getur tekið langan tíma, og er því nauðsynlegt að byrja á verkinu sem fyrst. Ég hef fengið upplýsingar um, að vegna þeirra gjaldeyrisörðugleika, sem nú eru að vissu leyti fyrir hendi og hæstv. ríkisstj. hefur gert mjög mikið úr, þá sé ekki ennþá fengið nauðsynlegt gjaldeyrisleyfi til þess, að hægt sé að gera samning við þann erlenda verkfræðing, sem áformað var að fá til þess að gera áætlanir og uppdrætti um viðbót Sogsvirkjunarinnar. Í því tilfelli getur ekki verið um mjög háa upphæð að ræða, og þó að nokkrir gjaldeyrisörðugleikar séu fyrir hendi, þá nær það ekki nokkurri átt að láta það stöðva svona framkvæmdir, sem eru til brýnna nauðsynja fyrir þjóðina og beinlínis koma til með að skapa gjaldeyri. En þetta atriði og önnur, sem frekar smávægileg virðast, geta haft áhrif á undirbúningsstarfið og orðið þess valdandi, að byrjun verksins dragist of lengi og framkvæmdin verði ekki eins góð og skyldi. Kunnugir menn óttast, að ef dráttur yrði á málinu, t. d. með útvegun gjaldeyrisleyfa, þá geti það haft alvarlegar afleiðingar, eins og t. d. ef ekki væri sem fyrst hægt að gera samning við þann erlenda verkfræðing, er ég minntist á áðan, en hann er mjög eftirsóttur og hætt við, að hann ráði sig annars staðar, ef ekki takast samningar við hann sem fyrst. Slíkt atriði og ótal mörg önnur, sem til greina koma, geta haft geysimikla þýðingu, og má ekkert slíkt sem það að fá ekki nauðsynleg gjaldeyrisleyfi standa í vegi fyrir góðum og skjótum undirbúningi.

Varðandi viðbótarvirkjunina í Laxá hefur raforkumálastjóri sótt um fjárfestingarleyfi fyrir þessa viðbót miðað við það, að verkið stæði í tvö ár, 1948 og 1949, en síðast þegar ég vissi, var leyfið ekki fengið. Ég vil vona, að ekki þurfi þó að standa á slíku leyfi, því að það þarf að liggja fyrir, strax og gengið hefur verið frá uppdrætti yfir viðbótina, svo að þeir, sem vilja bjóða í verkið, þurfi ekki að vera neitt hikandi.

Það er tilgangurinn með þessari till., að Alþ., sem engan veginn getur talið sér þetta mál óviðkomandi, láti málið þegar í stað til sín taka og láti uppi vilja sinn um það, að ekki skuli standa á, að undirbúningurinn gangi sem bezt og að öllum hindrunum verði þar rutt úr vegi. Ég vænti þess, að hv. Alþ. sé sama sinnis og s. 1. vor og muni því með samþykkt þessarar till. veita ríkisstj. nauðsynlegt aðhald til þess, að leyfi fáist til kaupa á nauðsynlegum vélum og allt verði gert til þess, að verkinu verið lokið á sem allra stytztum tíma. Við höfum takmarkað tímann í till. þannig, að virkjununum skuli lokið ekki síðar en 1949, og liggja fyrir upplýsingar frá sérfræðingum, að það sé vel mögulegt, en þó því aðeins, að ekki verði neinn óeðlilegur dráttur á leyfisveitingum. Þessi till. er líka flutt til þess, að ríkisstj. undirbúi málið svo, að ekki þurfi að standa á þessum umræddu leyfum og verkinu geti orðið lokið á tilteknum tíma.

Ég legg svo til. að þessu máli verði vísað til fjvn.