24.10.1947
Sameinað þing: 14. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (3425)

19. mál, benzínskömmtun og söluskattur af benzíni til einkabifreiða

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 19 ásamt hv. þm. N-Ísf. um fyrirkomulag á benzínskömmtun og um söluskatt af benzíni til einkabifreiða.

Benzínskömmtun var tekin upp um s. l. mánaðamót, og mun mörgum hafa fundizt skammturinn vera nokkuð krappur, ekki sízt atvinnubifreiðastjórum, og einnig til þeirra bifreiða, sem notaðar eru í þágu framleiðslunnar. Ég býst við, að þar verði um undanþágu að ræða. Þessi þáltill. er ekki fyrst og fremst til þess að fá aukinn skammt bifreiðum til handa, heldur fyrst og fremst til þess að afla ríkissjóði tekna með léttu móti.

Benzínskömmtunin er, eins og önnur skömmtun hér, til komin í þeim tilgangi að spara erlendan gjaldeyri. Ég vil heldur ekki loka augunum fyrir þeirri miklu þörf, sem er að spara gjaldeyrinn á þessum tímum. En það er nú hægt með svo mörgu móti, og getur margt komið þar til greina.

Undanfarin missiri hefur verið flutt mikið inn af bifreiðum, og munu bifreiðar í landinu vera um 10 þús. og bifhjól um 6 hundruð, og þar af mun helmingur vera fólksbifreiðar. Þegar svo dregnar eru frá atvinnubifreiðar og lækna- og sjúkrabifreiðar og jeppabifreiðar, sem notaðar eru í þágu landbúnaðarins, þá munu aðrar einkabifreiðar vera um 3500 eða því sem næst.

Þær tekjur, sem ríkissjóður hefur af benzíni með því verði, sem á því er, munu vera sem næst 26.5 eyrir af lítra, og er það drjúgur peningur með þeim benzínaustri, sem verið hefur undanfarið. Og það er vissulega nógu hár skattur fyrir þá, sem nota bifreiðarnar í þágu framleiðslunnar. En það, sem fyrir okkur flm. vakir, er að láta benzín til atvinnubifreiða með óbreyttu verði, en hækkunin, sem við leggjum hér til, verði aðeins látin ná til einkabifreiða, og eins og ég áður tók fram, er till. fyrst og fremst flutt til þess að afla ríkissjóði tekna með léttu móti.

Það segir nú kannske einhver, að það sé hlutverk ríkisstj. að koma með till. til tekjuöflunar, en það má þá segja til afsökunar því, að við flm. flytjum þessa þáltill., að það er í raun og veru hlutverk allra okkar þm. að koma með till. í þá átt, ef við teljum þær vera til bóta. Við flm. álítum, að ríkissjóði veiti ekki af nú að fá nýjar og auknar tekjur. Ég veit ekki, hvernig hagur ríkissjóðs er í dag, en við vitum, að á ríkissjóði hvíla þungir baggar, sem hann verður að standa undir, og ég býst við, að hagur hans sé ekki svo góður nú, að hann gæti ekki þegið það fé, sem honum stendur hér til boða. Það er vitað, að í sambandi við skömmtunina og takmörkun á innflutningi hljóta tekjuvonir ríkissjóðs að rýrna að verulegu leyti, og er því meiri þörf nýrra tekjuöflunarleiða.

Það eru tveir tekjustofnar, sem ríkissjóð munar mikið um, sem eru fyrir sölu á áfengi og tóbaki. Mér er sagt, að ríkissjóður muni á þessu ári fá í hreinar tekjur af sölu tóbaks og áfengis ekki minna en 50 millj. kr. Þetta er mikil upphæð hjá ekki stærri þjóð en við erum. Íslendingar. Og það er staðreynd, sem vert er að gera sér ljósa, að ríkissjóður, eins og er, er mjög háður því, hvernig tekst að koma eitri og deyfilyfjum í þjóðina. Ég býst við, að það verði erfitt að afla ríkissjóði nægilegra tekna án þess að vera að einhverju leyti upp á þessa tekjustofna komnir. En ég hygg, að bæði hæstv. ríkisstj. og aðrir vildu gjarnan, að hægt væri að koma málunum þannig fyrir, að ríkissjóður væri ekki í eins ríkum mæli háður því, hvernig til tekst um sölu á þessum eitur- og deyfilyfjum til þjóðarinnar.

Benzínið verður ekki fengið nema með erlendum gjaldeyri, og lítrinn mun nú kosta í innkaupi um 17 aura, og það er vitanlegt, að með auknum skammti til bifreiða þarf meiri erlendan gjaldeyri.

Það er ekki tekið fram í þessari þáltill. eða grg., hvernig hugsað er að framkvæma sölu á þessum aukaskammti, en það er vitanlega hægt með mörgu móti. En sennilega væri eðlilegast, að olíufélögin seldu benzín á sama verði, 68 aura, en gefnir væru svo út sérstakir benzínmiðar, sem giltu fyrir það benzín, sem selt væri með hinu háa verði, og þeir miðar væru seldir hjá lögreglustjórum.

Það er talað um það hér í grg. fyrir þáltill. að selja benzínið á 2 kr. pr. lítra, en það er vitanlega hæstv. ríkisstj. að ákveða það, hvort hún hefur það verð hærra eða lægra, ef út í það yrði farið að athuga, hvað heppilegast þætti í þessu efni. En 2 kr. finnst okkur flm. ekki vera nein fjarstæða. Og þegar þess er gætt, að benzínlítrinn kostar 68 aura nú, þá koma þar 132 aurar til viðbótar, og gætu þá þeir, sem vildu fá aukaskammt, fengið miða hjá lögreglustjóra, og hver miði kostaði 132 aura. Þá er í grg. gerð grein fyrir tekjum, sem líklegt þykir, að ríkissjóður fengi af þessum ráðstöfunum. Það er þar gert ráð fyrir að aukning benzínsölu mundi verða um 500–600 þús. lítra á mánuði, og er þetta vitanlega áætlun, sem ekki er hægt að segja ákveðið um, hvort stenzt. En ei miðað er við þá tölu einkabifreiða, sem ég áðan nefndi, þá er þetta ekki óeðlileg ágizkun. Og ég get búizt við, að á meðan peningaveltan er eins og hún er í dag, þá gæti eyðslan orðið meiri og tekjurnar þá eftir því. En sé miðað við 500–600 þús. lítra eyðslu á mánuði, þá kostar það um 100 þús. kr. í erlendum gjaldeyri á mánuði. Ef hið hækkaða verð yrði 2 kr. pr. lítra á 600 þús. lítrum, má gera ráð fyrir auknum tekjum af sölunni, er næmu allt að 900 þús. til 1 millj. kr. á mánuði, eða 10–11 millj. kr. á ári.

Nú mun einhver segja, að þessi áætlun standist ekki vegna þess, að þetta sé of hátt áætlað, en hlutfallstölurnar breytast ekki fyrir því milli gjaldeyriseyðslu og tekna ríkissjóðs, og gera má ráð fyrir, að álagningin verði undir öllum kringumstæðum um 1000%.

Ég veit ekki nákvæmlega, hve mikil álagning er á áfengi og tóbaki, en mér þykir líklegt, að hún sé svipuð og hún yrði á benzíni með þeirri álagningu, sem við flm. leggjum hér til, að hún verði. Ég held þá, að það sé heilbrigðara að gefa fólki kost á að kaupa benzín til skemmtiferða og annarra nota af frjálsum vilja heldur en að troða upp á það, eins og nú er gert, áfengi og tóbaki, sem er öllum óneitanlega til mikils tjóns.

Ef einhver kemur hér fram með þá skoðun, að gjaldeyrisástæðurnar leyfi ekki aukna benzíneyðslu og þessi þáltill. sé þess vegna ófyrirsynju, þá vil ég segja það, að það er þá betra að reyna að draga eitthvað úr innflutningi tóbaks og áfengis sem því nemur og leyfa meiri notkun á benzíni, því að ríkissjóður í báðum tilfellum græðir álíka mikið, en hitt verður hollara fyrir þjóðfélagið að leyfa fólkinu að nota benzín sér til skemmtunar og oft til gagns heldur en eins mikið tóbak og áfengi og nú á sér stað.

Ég tel því rétt að samþykkja þessa þáltill., þó að sú skoðun kæmi fram, að gjaldeyrisástæðurnar leyfðu það ekki, því að það mætti þá spara þann lið, sem ég áður hef nefnt.

Ég legg til, að þessari þáltill. verði vísað til hv. fjvn. Það hefur verið regla að vísa till., sem útgjöld hafa í för með sér, til þeirrar n., en ekki hinum, sem hafa tekjuvonir, en ég álít, að þessi till. til þál. sé betur komin hjá hv. fjvn. heldur en hjá hv. allshn. Ég legg til, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.