23.10.1947
Sameinað þing: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (3443)

26. mál, læknisbústaður í Flateyjarhéraði

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil aðeins segja örfá orð, áður en till. fer til fjvn., því að ég geri ráð fyrir, að henni verði vísað þangað að till. hv. flm.

Eins og menn vita, er á hverju ári veitt í fjárl. fé til læknisbústaða og sjúkraskýla. Er gert ráð fyrir, að þetta fé sé notað til að reisa læknisbústaði og sjúkraskýli gegn framlagi frá héruðunum sjálfum, og ef ég man rétt, þá er hlutfallið 3/5 og 2/5.

Nú hefur verið reynt að hafa þá stefnu að veita þetta fé þangað, sem þörfin er brýnust og minnstar líkur til, að læknirinn sjálfur hafi bolmagn til að leysa sín húsnæðismál, og annað þess háttar kemur til greina, því að ekki er hægt að sinna öllum óskum. Hins vegar er það svo, að þingið hefur ekki ákveðið það, í hvaða bústaði féð skyldi leggja, en hefur þó fylgzt með, hvað gerzt hefur: Þetta vil ég benda á og svo annað. Það stendur í grg. fyrir þessari till., að héraðið muni enga fjárhagslega möguleika hafa til að leggja fram neinn hluta, svo að sýnilega vakir það fyrir hv. flm., að bústaðurinn sé byggður án framlags heiman frá. Ég vil benda Alþ. á, að ef farið verður út á þessa braut, ég skal ekki um það dæma á þessu stigi, hvort það er fært, þá er enginn vafi á því, að margir mundu telja, að þeir ættu líka að njóta þessara hlunninda. Þess vegna er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því í n. og þinginu, hvort út á þessa braut skuli leggja. Ég vil styðja þá till., að þáltill. fari til fjvn., því að þar á hún heima, og í raun og veru hefði verið heppilegra að taka þetta málefni til meðferðar í sambandi við fjárl. en að flytja um það sérstaka þáltill., þó að það ætti ekki að gera svo mikið til, þar sem till. fer til fjvn. Ég vil skora á þá n. að athuga málið í sambandi við fjárl., þegar þar að kemur, og er reiðubúinn að ræða málið við n. og gefa upplýsingar um, hvernig því fé, sem veitt hefur verið í þessu skyni, hefur verið varið, og enn fremur umsóknir, sem fyrir liggja, svo að n. geti fengið sem bezt yfirlit yfir málið, áður en það er afgr.