23.10.1947
Sameinað þing: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (3444)

26. mál, læknisbústaður í Flateyjarhéraði

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Út af ræðu hæstv. ráðh. vil ég benda á, að þetta mál er sérstaklega flutt til þess að fá allan kostnaðinn greiddan úr ríkissjóði, sem er á móti gildandi l. Í l. er ákveðið, að héraðið skuli greiða 3/5, en ríkissjóður 2/5, en í þessu tilfelli er algerlega útilokað, að héraðið geti staðið undir sínum hluta, en óhjákvæmilegt að leysa þörf héraðsins, því að þessir menn, sem þarna búa, eiga að sækja yfir 5–6 tíma ferð á sjó, auk þess sem þarf að fara á landi sums staðar til þess að ná í þann lækni, sem nú gegnir störfum í héraðinu. Í þriðja lagi hefur brugðizt von um, að heilbrigðisstjórnin veitti héraðinu þjónustu, og hefur þar strandað á því, að enginn læknisbústaður var í héraðinu. Þess vegna verður að finna einhver ráð til að veita héraðinu þjónustu, og ef það er ekki hægt með öðru en að byggja læknisbústað, þá verður að gera það, en ef bústaðurinn er kominn, þá tel ég, að hægt væri með ýmsu móti að veita héraðinu þjónustu, m. a. með því að fá læknanema frá háskólanum, sem eiga frí hluta af árinu.

Þetta er í raun og veru ekki nýtt mál hér á þingi, því að þegar l., sem gilda í þessu efni, var breytt, þá var því mjög haldið fram af mér, að óhjákvæmilegt væri ekki aðeins, að ríkissjóður ætti læknisbústaðina, heldur einnig lyfjabirgðir, svo að menn gætu komið þangað og gegnt héraðinu um stundarsakir án þess að fá veitingu. Það eru ekki mörg læknishéruð, sem svo er ástatt um, en þó nokkur. Nú er svo ástatt, að menn verða að sækja lækninn yfir þveran Breiðafjörð, hvernig sem veður er, til Stykkishólms og eiga á hættu, að hann sé í embættiserindum í víðlendu héraði heima hjá sér. Íbúar þessa læknishéraðs hafa beðið með kröfu sína, af því að heilbrigðisstjórnin hélt fram, að af því að svo margir læknanemar væru staddir utan lands vegna stríðsins, væri skortur á læknum, en úr því mundi verða bætt, þegar þeir kæmu heim. En það, sem nú strandar á, er það, að ekkert skýli er til yfir lækninn.

Þá er einnig þess að gæta, að síðan l. um læknisbústaði var breytt, hefur verið gengið inn á þá breyt. að byggja yfir alla presta landsins, m. a. var byrjað á því að byggja í Reykjavík tvö eða þrjú prestsseturshús. Ég skal ekkert um það ræða, hvort það hafi verið rétt stefna, en ef það hefur verið réttlætismál að byggja yfir alla presta í sveitum og kaupstöðum, þá er erfitt fyrir ríkið að standa á móti því að byggja yfir læknana, auk þess sem farið er nú að byggja yfir héraðsdómara. Það hlýtur þá að vera alveg eins rétt, að ríkið byggi yfir læknana að fullu og öllu. En það er vegna þess, að ekki er hægt að bíða eftir slíkri breyt., að ég hef flutt þetta mál hér. Mun ég kalla til fjvn. ráðh. og landlækni og fá upplýsingar hjá þeim um þetta mál allt, áður en það verður afgreitt.