24.10.1947
Sameinað þing: 14. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í D-deild Alþingistíðinda. (3459)

29. mál, áfengisnautn

Flm. (Sigfús Sigurhjartarson) :

Herra forseti. Ég hef ásamt fimm öðrum hv. þm. leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 30 um ráðstafanir til að draga úr áfengisnautn. Þær eru tvíþættar. Annars vegar að fela ríkisstj. að láta l. nr. 26 frá 1943, um héraðabönn, koma til framkvæmda eigi síðar en l. jan. 1948. Hinn þáttur till. er að fela ríkisstj. að gefa út reglugerð um skömmtun áfengis. — Á síðasta Alþ. voru fluttar tvær þáltill. um þetta, sem þessi þáltill. er um, af sömu flm. Önnur þeirra var á þskj. 127, en hin á þskj. 70. Báðar voru till. ræddar í sameinuðu þingi og báðum var þeim vísað til allshn. Nál. kom að vísu um aðra þeirra, en umr. varð ekki lokið, og hvorug till. var afgreidd frá þinginu. Allir flm., sem að þessum þáltill. stóðu á síðasta þingi, urðu sammála um að endurflytja þær nú sem eina þáltill.

Ég sé ekki ástæðu til að gera grein fyrir þáltill. þessari meir á þessu stigi málsins, því að grg. er prentuð með þáltill. Ég legg til, að till. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn.