22.01.1948
Neðri deild: 44. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

51. mál, tekjuskattsviðauki 1948

Einar Olgeirsson:

Ég vil ekki tefja þetta mál, en finnst ekki rétt, að það fari ekki til n. Ég tel, að það hefði mátt athuga þetta mál í n. og athuga, hvort ekki mætti gera á því breyt. Hér er verið að leggja skatt á menn fyrir tekjur ársins 1947, sem þeir eiga að greiða af tekjum sínum 1948, og það er gengið út frá því, að þær tekjur, sem menn hafa 1948, verði minni en tekjurnar á árinu 1947. Það hefði verið sanngjarnt, að ríkisstj., af því að hún gerði ráðstafanir til þess að lækka tekjur á þeim, sem lægst eru launaðir, en lét auðmennina halda sínum tekjum, þá hefði verið ástæða til þess, að tekjuskattsviðaukinn hefði frekar verið lækkaður á þeim, sem lægstar hafa tekjur, en hækkaður á hinum. Það er óréttmætt af ríkinu að ætlast til þess, að endilega þurfi strax að hækka á þeim lægst launuðu, þegar þeir hafa minni tekjur í ár en í fyrra. Hins vegar er ég á því, að taka þurfi þá fúlgu, sem þarf að ná, með þeim tekjuskattsviðauka, sem ætlazt er til með þessum l. Ég mundi, ef þetta mál hefði farið til n., hafa komið með brtt. í þessa átt, en eins og mönnum er kunnugt, fá menn of lítinn tíma til þess að koma með brtt., því að þetta þarf útreikning. Ég sé því ekki, að ég fái tíma til að koma með brtt., úr því að það á að keyra málið í gegn.