10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (3463)

29. mál, áfengisnautn

Frsm. minni hl. (Sigfús Sigurhjartarson) :

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. frsm. meiri hl. allshn. (JörB) um það, að lítil þörf sé á að hefja langar umr. um þetta mál, svo mjög sem það er þaulrætt bæði utan og innan þingsins. Ég get þó ekki komizt hjá að fara nokkrum almennum orðum um þær till., sem fyrir liggja, m. a. vegna þess, að mér þótti rétt, þegar málið var í fyrstu lagt fyrir hæstv. Alþ., að spara ræðuhöld, og hafði því mjög stutta framsögu í málinu.

Eins og hv. þm. er ljóst, er um tvö atriði að ræða í þáltill. á þskj. 30. Í fyrsta lagi er lagt til, að ríkisstj. sé falið að láta l. nr. 26 frá 1943, um héraðabönn, koma til framkvæmda eigi síðar –stendur hér í till. — en 1. jan. 1948, sem að sjálfsögðu yrði að breytast í framkvæmd, ef till. yrði samþ., af því að nokkur tími er liðinn síðan hún var borin fram. Í þessu sambandi vil ég aðeins minna hæstv. Alþ. á þá staðreynd, að héraðabönn á Íslandi eru ákveðin í gildandi l. Það er m. ö. o. lögboðið, að ekki skuli hafa áfengisútsölur í neinu héraði landsins nema samkvæmt ákvörðun meiri hl. kjósenda innan héraða. Nú er hægt að deila óendanlega um það, hvort þessi löggjöf er heppileg eða óheppileg, og skal ég ekki enn einu sinni skorast undan að taka þátt í umr. um það efni við þessar umr., en mun ekki fara út í slíkt að fyrra bragði. Vil ég aðeins minna á það, að l. um héraðsbönn eru enn í gildi, og er 2. gr. þeirra svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú telur ríkisstjórnin, að lög þessi kunni að brjóta í bága við milliríkjasamninga, og skal hún þá gera þær ráðstafanir, er hún álítur nauðsynlegar til þess að samrýma þá samninga ákvæðum laganna. Að því loknu öðlast lögin gildi, enda birtir ríkisstjórnin um það tilkynningu.“

Þær grunsemdir voru sem sé uppi, þegar l. um héraðabönn voru sett, að svo kynni að fara, að fróðir menn álitu, að l. brytu í bága við milliríkjasamninga, en Alþ. gaf ríkisstj. skýr fyrirmæli um það, að ef hún kæmist að þeirri niðurstöðu, skyldi hún breyta þeim samningum til samræmingar við l. og síðar auglýsa, að l. kæmu til framkvæmda. Nú eru liðin 5 ár síðan þetta gerðist, og er vissa fengin fyrir því, að allar ríkisstj., sem setið hafa að völdum síðan, hafa a. m. k. samanlagt haft nægan tíma til þess að gera upp við sjálfar sig þessi atriði, sem sé í fyrsta lagi, hvort l. brjóti í bága við milliríkjasamninga, og ef svo væri, þá að gera á þeim samningum nauðsynlegar breytingar. Ég vil undirstrika það, að svona getur þetta ekki öllu lengur gengið, og er annaðhvort tveggja að gera að framkvæma þessi l. eða að fella þau úr gildi. Er því rétt, að vilji þ. komi, fram í þessum efnum og ákveði og sjái um, hvað gera skuli, og tel ég, að hér þurfi ekki lengur umhugsunar við.

Í öðru lagi er lagt til í þessari þáltill., að gefin verði út reglugerð um skömmtun áfengis. Ég get sagt það hér, sem ég hef sagt áður á Alþ., að ég hef haft og hef enn takmarkaða trú á skömmtun áfengis, en verð að viðurkenna þá staðreynd, að þann tíma, sem skömmtun áfengis var reynd snemma á stríðsárunum, kom í ljós, þrátt fyrir hversu ófullkomin hún var, að hún dró allmikið úr áfengisneyzlunni. Sú skömmtun var tekin upp af sérstökum ástæðum og undir sérstökum kringumstæðum, og það er staðreynd, að hún dró verulega úr sölu áfengis. Ég hygg líka, að þegar svo gegndarlaus sala áfengis á sér stað eins og nú, geti ekki hjá því farið, að skynsamlega framkvæmd skömmtun á áfengi mundi draga úr sölu þess og neyzlu. Tel ég nauðsynlegt, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að slíkt megi verða, og ég hika ekki við að fullyrða, að slík yrði reyndin á, ef áfengisskömmtun yrði upp tekin, þótt ég sé mjög í vafa um gildi hennar þegar til lengdar lætur.

Þá er og annað atriði, sem veldur því, að ég er fylgjandi samþykkt þessarar þáltill., og það er, að þeir menn, sem áhuga hafa fyrir héraðabönnum og kunnugastir eru á þeim svæðum, þar sem helzt kæmi til mála að loka áfengisútsölum, hafa látið í ljós þá skoðun sína, að ef skömmtun yrði upp tekin jafnhliða lokun vínútsölu, væri áreiðanlega hægara um að ná árangri að lokum. Ég hef fallizt fyllilega á þessar röksemdir, og þær vega nokkuð mikið á metaskálunum hjá mér og valda því, að ég get eindregið mælt með samþykkt þessarar till. eins og nú standa sakir.

Sá mjög svo undarlegi háttur hefur nú verið hafður á af hv. meiri hl. allshn. að taka til meðferðar í brtt. sínum við þáltill. á þskj. 30 önnur þingmál. Ég hygg, að þetta sé með fádæmum, ef ekki einsdæmum, og efa ég mjög, að þetta geti heitið þingleg meðferð. En eigi að síður veldur þetta því, að ég kemst ekki hjá að minnast nokkuð á tvær af þeim till., sem sé um afnám sérréttinda í áfengiskaupum og um afnám vínveitinga á kostnað ríkisins. Ég vík fyrst máli mínu að till. um afnám sérréttinda í áfengiskaupum. Ég skal viðurkenna, að þetta er ekkert sérstakt bindindismál, og geri ekki ráð fyrir því, að samþykkt þeirrar till. mundi orka neinu um bindindissemina í landinu yfirleitt, en hitt sýnist mér augljóst, að það er illa viðeigandi, að vissir opinberir starfsmenn séu launaðir á þann hátt að njóta þeirra fríðinda að fá áfengi keypt frá opinberri verzlun við margfalt lægra verði en almenningur. Sé það svo að áliti Alþ., að þessir menn þurfi að halda uppi risnu, er eina leiðin sú, að það hafi kjark í sér til að veita hlutaðeigandi mönnum fé til að standa straum af slíkri risnu, því að eins og þessu er nú fyrir komið, er þetta ekki annað en feluleikur og það í alla staði óviðeigandi feluleikur og við búið, að það fari í vöxt, að þessir embættismenn verði látnir fá fleiri vörutegundir við ódýrara verði en aðrir frá fleiri og fleiri stöðum. Hefur og verið á það bent, að vissir opinberir starfsmenn eigi aðgang að ódýrara tóbaki, ódýrari bílum o. fl., og ég verð að segja það, að um þetta allt eigi að fara á eina lund og afnema öll slík fríðindi. Hv. meiri hl. er sammála. mér um, að rétt sé að afnema þennan sið, en þó ekki að öllu leyti, því að hann vill, að honum sé haldið áfram hvað snertir ríkisstj. og forseta Íslands. Get ég ekki fallizt á slíka undantekningu og sýnist, að hér eigi eitt yfir alla að ganga og að þessi fríðindi eigi að afnema með öllu. Ég endurtek það, að þurfi ríkisstj. og forseti Íslands á því að halda að nota þessa vöru í risnuskyni, eigi að horfast í augu við að greiða hana því verði, sem almenningur verður að greiða fyrir hana, og veita fé til þess. Hvað forsetann snertir, skiptir þetta engu máli, því að ég veit ekki betur en að honum sé greiddur allur risnukostnaður samkvæmt reikningi.

Hvað hina till. snertir, gegnir þar allt öðru máli, því að þar er um mjög þýðingarmikið bindindismál að ræða. Sé það svo, að valdhafarnir, ríkisstj. og Alþ., óski þess í raun og sannleika, sem ég vil ekki efa, að úr áfengisneyzlu dragi í landinu, sýnist mér, að einna myndarlegasta átakið, sem þessir aðilar gætu gert, væri að gefa sjálfir hið góða fordæmið og afnema drykkjusiðina úr samkvæmum sínum. Það eru orð að sönnu: Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það. Mér kemur ekki til hugar að halda því fram, að áfengisnotkun sé meira misnotuð í opinberum samkvæmum en öðrum, nema síður sé. Ég hef reynt að fylgjast með þessu, og ég tel síður en svo, að ríkið fari í þessum efnum verr að ráði sínu en fjölmargir aðrir aðilar. Þess vegna er afstaða mín til, þessa máls mótuð af því einu, að ég tel, að ríkisvaldið eigi í þessum efnum að gefa hið góða fordæmi.

Skal ég svo láta útrætt um efnishlið þessara till. og mun þá víkja nokkrum orðum að þeirri afgreiðslu, sem hv. meiri hl. vill hafa á málinu. Afgreiðslan, sem hann óskar eftir, er sú að vísa málinu til ríkisstj. Hún á síðan að athuga ýmsar leiðir og leggja till. sínar fyrir Alþ., þegar unnt er, — ekki endilega næsta Alþ., heldur eitthvert Alþ., þegar ríkisstj. telur sér henta. Ég verð nú að segja það, að frá árinu 1930 hef ég átt viðskipti við allar þær ríkisstj., sem að völdum hafa setið, einmitt um áfengismál, að undantekinni núv. ríkisstj., og rætt við þær um þessi mál fyrir hönd bindindisstarfseminnar í landinu og Stórstúku Íslands. Get ég lýst yfir því, að afstaða þeirra allra í þessum málum hefur verið nákvæmlega sú sama. Þær hafa sem sé sagt: Þetta er alvarlegt vandamál og eitthvað þarf að gera til þess að draga úr áfengisneyzlunni. En síðan hafa þær ekki bent á neinar leiðir eða gert neinar ráðstafanir til úrlausnar þessu mikla vandamáli. Þá er annað sameiginlegt með þeim öllum; þær hafa sagt: Áfengissalan er svo veigamikill þáttur í rekstri ríkisbúsins, að það er annað en gaman að draga þennan tekjustofn saman og vinna að minnkun á áfengissölunni, því að hún gefur okkur svo miklar tekjur. — Nú skal ég segja það, að traust mitt til núv. hæstv. ríkisstj. er ákaflega takmarkað, en afstaða mín í þessum efnum er nákvæmlega hin sama til annarra ríkisstj. ég hef hvorki fyrr né nú treyst nokkurri ríkisstj. til að vinna að úrlausn þessara mála og veit fyrir víst, að það mun engan árangur bera að fela henni þau til meðferðar. Ég ætla því, að hv. þm. megi af þessu vera ljóst, að ég get ekki fylgt því að vísa málinu til hæstv. ríkisstj., og ég veit, að hv. þm. hafa rætt þessi mál það mikið, að þeir munu fyllilega hafa gert málið upp við sig. Ég get ekki heldur komizt hjá að minna á það, að ekki svo fáir þeirra hv. þm., sem hér eiga sæti á þ., hafa óhikað sagt skoðun sína á þessu máli. Áður en síðast var gengið til kosninga, voru margir hv. þm. spurðir um afstöðu sína í þessum málum, og gáfu margir þeirra svör þar að lútandi. Hygg ég, að þeim væri nú hollt að endurskoða hug sinn um, hvað þeir sögðu þá. Ég ætla líka að minna á það, að árið 1946 voru mættir hér fulltrúar frá bæjarstjórnum víðs vegar að af landinu til þess að ræða áfengismálin. Þessir fulltrúar gengu á fund þáv. ríkisstj. og báru fram við hana ýmsar óskir, m. a. um að loka áfengisútsölunum á Siglufirði og í Vestmannaeyjum vissan tíma ársins, og jafnframt lögðu þeir sérstaka áherzlu á, að ríkisstj. léti l. um héraðabönn koma til framkvæmda. En þegar sýnt þótti, að þessar viðræður við ríkisstj. mundu lítið gagn gera, var það ráð tekið, að farið var til þm., sem þá voru staddir hér í bænum á stuttum þingfundi, og var þeim boðið upp á að undirskrifa svo hljóðandi till., sem margir þeirra skrifuðu undir:

„Við undirritaðir alþm. óskum hér með að mæla með eftirfarandi tillögum, sem fulltrúar tilnefndir af bæjarstjórnum, bæjarráðum eða bæjarstjórum lögðu fyrir ríkisstj. 15. þ. m.:

1. Að áfengisútsölunum á Siglufirði og Akureyri verði lokað nú þegar og til 1. okt., eða þar til síldveiði er að fullu lokið og aðkomufólk farið frá Siglufirði. Lokunin verði framkvæmd samkvæmt beinni fyrirskipun ríkisstjórnarinnar.

2. Að áfengisútsölunni í Vestmannaeyjum verði lokað á komandi vetrarvertíð, og áfengisútsölunni á Ísafirði frá 15. sept. til 15. nóv. n. k.

3. Að ríkisstjórnin gefi sem allra fyrst út tilkynningu um það, að lögin um héraðabönn öðlist gildi.“

Nú ætla ég ekki að lesa upp, hvaða hv. þm. undirrituðu þessar till., en þeir voru mikill meiri hl. þm. Ýmsir höfðu þó fyrirvara um 3. lið, þ. e. um héraðaböndin, en ég vil sérstaklega taka það fram, að hv. frsm. meiri hl. var ekki í þeirra hópi, sem undirrituðu með fyrirvara, heldur undirritaði hann skilyrðislaust þessa áskorun um að láta l. héraðabönn koma til framkvæmda. Og ef svo væri, að þessir hv. þm. væru búnir að gleyma þessu plaggi, sem þeir hafa sjálfir undirritað, gæti ég sýnt þeim það.

Ég á þá aðeins eftir að minnast á eitt atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem var þungamiðjan og mergurinn málsins í ræðu hans, en það var þetta: Það má ekki gera ráðstafanir til þess að draga skyndilega úr áfengissölunni vegna afkomu ríkissjóðs. Ég bið bara guð að hjálpa ykkur! Ég sé nú, að margir hv. þm. brosa, en það ættu þeir ekki að gera, því að þetta sjónarmið er algerlega ósæmilegt. Ég ætla ekki — fremur venju — að fara að útskýra það með sterkum litum, hvað íslenzka þjóðin uppsker af notkun og sölu áfengis. Við þekkjum allir það margfalda böl og þá meinsemd, sem áfengið er rót að, og það er vafamál, hvernig lokareikningarnir standa, ef tekjur og útgjöld ríkissjóðs verða beinlínis gerð upp vegna áfengisnotkunarinnar. Ég vil benda hv. þm. á þá staðreynd, að hverjum þeim eyri, sem varið er til áfengiskaupa, er á glæ kastað — og verra en það. Og er ríkið þannig á vegi statt, að það þurfi að fá þegnana til þess að kasta peningum í sjóinn eða verra en það til þess að geta innheimt tekjur í ríkissjóð? Ég ætla hins vegar, að þegnarnir séu betri skattþegnar og kostnaður ríkisins af lögregluliði, hegningarhúsum, sjúkramálum o. fl. væri stórfellt minni, ef unnt væri að minnka til muna sölu áfengis.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar, en vænti, að þ. láti ekki undir höfuð leggjast að sýna vilja sinn og lit í þessu máli og að atkvgr. skeri þar úr, því að það er ekki sæmandi að humma málið fram af sér. Og í trausti þess, að hæstv. forseti greiði skörulega fyrir málinu, skal ég stytta mál mitt og lofa að takmarka ræður mínar, nema sérstakt tilefni gefist, en tel aðalatriðið að fá vilja þingsins fram í þessu máli.