17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (3466)

29. mál, áfengisnautn

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Það er nokkuð langt síðan mál þetta var til umræðu, en það er jafngott fyrir því. Ég flutti þá brtt. (Má ég spyrja forseta, hvort afbrigði séu leyfð?) Þegar málið var hér fyrst til umræðu, var því haldið fram, að ekki væri hægt að þrengja svo eins og hér er gert að risnu þeirri, sem þeir hafa haft bæði forseti, stjórnarráðið og ráðherra. Á þessu stigi málsins er ástæða til að minnast á till., sem ég flutti hér. Í till. fór ég fram á, að Alþ. lýsti óánægju sinni og bannaði. að þegnunum væri mismunað í ýmsum atriðum, og nefndi sérstaklega kaup á tóbaki, áfengi og bílum. En nú hefur málið fengið þá afgreiðslu hjá allshn., að ekki er hægt að minnast á nema áfengið. Samt sem áður ætla ég að minnast lítillega á hitt. Ég sé, að hæstv. forsrh. er hér, svo að hann getur komið fram með skýringar á því, sem hér kemur fram. Ég vil minna á það, að ráðh. hafa nú undanfarið fengið bíla tollalaust og álagningarlaust. Ég veit ekki fyrir víst, hversu lengi þetta hefur átt sér stað, en ég hygg að minnsta kosti síðan 1942. Nú hefur þetta gengið upp og niður, og Þjóðviljinn deilir á Ólaf Thors fyrir að hafa fengið ráðherrabíl tolllausan, eftir að hann fór úr stjórn. Ég veit ekki, hvort þetta er rétt, en hitt er víst, að ráðherrar kommúnista fengu báðir sína tolllausu bíla. Og er þetta gott dæmi þess, hvernig þetta dæmi lukkast, því að þegar flokkar fara að brigzla hver öðrum um þetta, er auðséð, að þeir telja, að borgararnir séu á móti þessu. Ég vil nú spyrja hæstv. forsrh., hvort hann vilji ekki leggja til við sína stjórn, þegar hún fer frá eftir margra ára stjórn, að hún hætti þessu og borgi toll af sínum bílum.

Ég mun nú ekki tala um tóbakið að sinni, enda hefur það minni þýðingu en vínið. Ég sé nú, að hæstv. dómsmrh. er kominn í d.

Ég mun nú víkja að till. Þó að hún lúti að því, að utanrrh. og forseti lýðveldisins hafi risnu með niðursettu verði, tel ég það rangt. En þar sem fjölmenn n. komst ekki lengra en að bæði ráðh. og forseti hefðu þetta, sé ég ekki ástæðu til að halda lengra, en tala um vínið. Ég hefði heldur kosið, að þessir tveir menn, sem risnu hafa fyrir ríkið, hefðu reikningshald yfir það og fengju síðan borgaða sína nauðsynlegu risnu, og með forsetann er það svo, að hann fær risnu borgaða eftir reikningi. Hitt veit ég, að er rétt hjá hæstv. utanrrh., að sé vín til stórveizlu keypt með gangverði, verði það mjög há upphæð. En ef borgurum landsins er sagt satt frá, geri ég ekki ráð fyrir, að erfitt verði að láta fólk skilja, að ekki beri öðrum en forseta og utanrrh. að hafa vínveitingar í veizlum. En nú er það svo, að borgarar landsins eru ekki á móti víni, og þar sem menn langar í vín, er ekki hægt að halda veizlur án áfengis.

Ég er hér með brtt., og ef hún yrði samþ., væri hægt að komast nær takmarkinu. Og menn verða að viðurkenna, að meðan vín er haft með höndum í opinberum veizlum, er hentugast að hafa það aðeins hjá þessum tveimur mönnum. Ég álít, að allshn. sé ekki mjög dugleg, þótt í n. séu duglegir menn, og að hún hefði getað gert betur en að leggja til, að undanþáguhringurinn væri þrengdur, og mun hún ætla að taka vínið af forsetum, þinginu, forstjóra Á. V. R. og stjórnarráðinu, en vill vera holl ráðherrunum og leyfa þeim vínið sem áður. En þar sem hv. frsm., hv. 1. þm. Árn., er hér viðstaddur, vil ég segja honum eina sögu um það, hversu lítil virðing það er fyrir stjórnarráðið að hafa þessa undanþágu. — Það mun hafa verið fyrir 2 árum, að starfsfólk í stjórnarráðinu var í veizlu austur í Valhöll á Þingvöllum, og voru menn orðnir drukknir. Þá var það að 2 menn, kunnir að góðu, fóru að berjast eins og hrútar á gólfinu. Þetta voru engan veginn ósmekklegustu drykkjulætin, en aðeins tekið hér sem dæmi um það, hversu heppilegt slíkt sé á einum helzta stað landsins, þar sem Íslendingar og útlendingar hittast einkum. Ég tel ekki, að starfsfólk í stjórnarráðinu sé drykkfelldara en gengur og gerist, en get þessa einungis vegna þess, að það er eina stofnunin, sem fengið hefur þessi hlunnindi. — Ég álít því, að n. geri rétt í því að steypa yfir þetta.

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til forseta, að ef þessi till. næði ekki afgreiðslu nú eða yrði felld, hvort hann vildi, að þessum veizlum yrði haldið áfram í sinni stjórnartíð.

Það hefur verið mikið talað um undanþágu forsetanna og mikið rætt um það í blöðunum. Nú er það ekki svo, að forsetar séu verri menn en aðrir. En af pólitískum ástæðum hefur það vakið meira umtal en hjá öðrum. Og einkanlega þeirra vegna vil ég, að þessari till. sé hraðað sem mest í gegnum þingið. Og ef það tekst ekki, vona ég, að forsetar sjái sóma sinn í því að hætta að nota þessa undanþágu.

En það varð skoðanamunur milli mín og allshn. í því, sem viðvék risnu ráðherranna. Því var haldið fram, að allir 6 ráðh. hefðu risnu og þyrftu þess samkvæmt íslenzkri venju, og þyrftu því að hafa þessa undanþágu. Þessu var ekki þannig háttað þau 5 ár, sem ég var í stjórn. Við höfðum enga risnu, hvorki vín né fé. En við tókum stundum hádegisverð með gestum, sem voru í landinu, og var það þá borgað sérstaklega, en án undanþágu. Og sem form. utanrmn. borðaði ég stundum með sendiherrunum, þegar þeir komu heim, og var þá vín í veizlunum og var það þá borgað eftir reikningi. Gæti slíkur kostnaður hjá þeim, sem ekki hafa skyldurisnu, orðið svo lítill, að hann gæti komið undir liðinn óviss útgjöld. — Ég álít, að draga beri skarpa línu á milli núverandi skipulags, að forsrh. hafi risnuna, og að öll risnuskylda verði lögð í hendur utanrrh. og forsrh. undanþeginn því að hafa hana á hendi, og það því fremur sem hann er nú hættur að búa í forsætisráðherrabústaðnum, en þar mátti við koma nokkurri risnu, en búast má við, að utanrrh., búi þar a. m. k. stundum, þótt ekki sé svo nú. Ef því verður svo breytt, sýnir bæði þing og stjórn, að það óskar ekki eftir neinu slíku af forsrh. í þessum efnum. — Í þessu sambandi má benda á það, að þeir Stauning og Per Albin Hansson bjuggu í litlum húsum í útjaðri borganna og gátu þar af leiðandi ekki haldið veizlur heima hjá sér, en héldu þær á gistihúsum í borginni. Af þessu má sjá, að engin rök eru fyrir því, að þessi undanþága þurfi að ná til, allra ráðh., heldur aðeins til utanrrh., sem hefði þá forsætisráðherrabústaðinn til umráða. — En hvað er svo unnið með því að taka þessa undanþágu af ráðh.? Þeir liggja nú sem stendur undir umtali fyrir það, að sagt er, að þeir sækist eftir að fá vín með undanþágum. Skipulagið gefur tilefni til slíks. Ég hygg því langfarsælast fyrir þessa stjórn, sem stýrir á erfiðum tímum og vill láta gott af sér leiða, að afnema þetta. Þá held ég, að hún gerði fátt betra en ef hún segði: Við kærum okkur ekkert um undanþágur með bíla og áfengi. — Það er óþægilegt fyrir ráðh., sem standa næst forseta að mannvirðingu, að hægt sé að segja um þá, að þeir hefji sig yfir skattalögin með svo lítilfjörlegum hlutum sem áfengi, tóbaki og bílum.