17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (3468)

29. mál, áfengisnautn

Gísli Jónsson:

. Herra forseti. Ég hef því miður ekki getað verið við þessar umr. vegna anna við afgreiðslu fjárl., en hefði þó gjarnan viljað heyra rök með og móti þessu máli.

Ég vil, áður en þetta mál fær fulla afgreiðslu, beina þeirri fyrirspurn til hv. form. allshn., hvort n. hefur ekki rætt þetta mál við embættismann, sem nefnist áfengisvarnaráðunautur ríkisins. Ég vil einnig heyra frá hæstv. ráðh., hvort hann veit, hvernig starfi þessa embættismanns er háttað nú. Það eina, sem ég veit, er það, hvað þessi maður fær í laun ár frá ári, og þau eru ekki lítil. En hvenær sem rætt er um áfengismál, kemur ekkert frá þessum manni, hvorki álit né till. Hann ætti þó að vera formaðurinn í sókninni í þessum málum. Er þetta bara styrkur til hans, og mætti ekki spara þarna eitthvað á móti því tekjutapi, sem verða mundi, ef hætt væri að hafa þessa vöru til sölu? Ég vil gjarnan fá að heyra um þetta atriði.

Í sambandi við afgreiðslu frá n. vil ég leyfa mér að benda á, að ég á ákaflega erfitt með að skilja afgreiðslu hennar á þessu máli. Þessu máli er vísað til stj. til að benda henni á, hvað hún eigi að gera. En hefur ekki verið bent á að skora á stj. að setja sérstaka n. manna til að gera till. í málinu? Ég held, að því fé væri ekki illa varið, sem færi til að kosta undirbúning undir þá sókn, sem verður að hefja í þessu máli, því að það er engin lausn að gera það, sem hér hefur verið stungið upp á. Það er búið að reyna þessar leiðir. Við höfum reynt skömmtunarleiðina. Hún endaði með smán. Aðflutningsbannið fór á sömu leið. Það má segja, að það sé á valdi ríkisstj., hvort hún flytur inn vín eða ekki, því að það má enginn flytja inn áfengi nema hún, en sú hugmynd hefur liðið skipbrot. Um héraðabönnin þarf ekki að ræða, því að það er alkunnugt, að þau héruð, sem hafa ekki áfengisútsölu, eru sízt betri en hin. Í fyrra var upplýst af hv. 3. landsk., að strandferðabátur, sem hefur styrk á þriðja hundrað þúsund, Fagranes, gerði lítið annað en flytja áfengi frá Ísafirði. Ég býst við, að þótt áfengisútsalan á Ísafirði yrði lögð niður, mundi hann vera látinn flytja áfengið frá Rvík í staðinn. Það þýðir því ekki að tala um héraðabönn. Þau eru út af fyrir sig engin lausn á þessu máli. Svo lengi sem einhvers staðar er opin vínútsala„ hafa menn einhver ráð með að ná í áfengið. Það þýðir því ekki að ætla sér að leysa málið með því að samþykkja till. um héraðabann.

Það er ákaflega mikilsvert atriði, hvernig hægt væri að bæta ríkissjóði það tekjutap, sem hann yrði fyrir, ef hætt væri að selja áfengi, og það er raunverulega kjarni málsins, því að það er þess vegna, sem hver ríkisstjórn hefur tilhneigingu til að auka söluna, til þess að fá meiri tekjur. Það hefur verið rætt í Ed. um að finna ráð við þessu, ekki hvernig á að bæta tekjumissinn, heldur hvernig eigi að stöðva drykkjuskapinn. Það hefur verið talað um að setja hluta af ágóða áfengissölunnar til ákveðinnar starfsemi, sem er þó ekki fljótvirkari en svo, að það á að byrja á að byggja 4–5 millj. kr. höll. Svona er alvöruleysið mikið hér á landi. Enginn vill taka föstum tökum á málinu. En það sorglegasta er, að menn vilja ekki líta við því frv., sem hefði getað orðið liður í þessari sókn, en það er ölfrv. Það hefði verið hægt að nota það sem lið í sókninni gegn ofnautn áfengra drykkja og um leið að bæta ríkissjóði upp þann tekjumissi, sem orðið hefði vegna minnkandi sölu sterkra drykkja. En hvernig hefur þessu máli verið tekið? Bindindismenn úti um allt land hafa sent mótmæli gegn því að reyna þessa leið. Það hefur rignt yfir Alþ. mótmælum víðs vegar af landinu til að dæma þessa tilraun til dauða fyrirfram. Ég fyrir mitt leyti var alveg viss um, að það var möguleiki á að sameina þetta tvennt, að minnka áfengisneyzlu í landinu og á sama tíma halda uppi starfsemi til tekna fyrir ríkissjóð með ölframleiðslu og minnka innflutning sterkra drykkja og útsölu á þeim á hverjum tíma. En það hefur ekki verið hægt að tala um þetta mál fyrir ofstæki þeirra manna, sem alltaf berja sér á brjóst og segja: Við erum þeir einu, sem vitum, hvað rétt er að gera í þessum málum. (PO: Eru það nokkrir aðrir en þeir?). En hvað sem líður siðferðisvottorðum hæstv. dómsmrh. í þessu máli, efast ég um, að hann unni þessu máli meir en ég. En ég hef aldrei verið sá ofstækismaður, að ég hafi ekki viljað líta á allar leiðir, sem leitt geti að ákveðnu marki. Ég hef séð aðflutningsbannið hrynja og fleiri ráðstafanir, sem átt hafa að draga úr áfengisneyzlu. Samt sem áður vilja ýmsir reyna aftur þessa hluti, án þess að taka tillit til staðreyndanna, sem er lífið sjálft. Ég skil ekki enn — án þess að ölfrv. sé á dagskrá —, að það sé undir neinum kringumstæðum hægt að drekka sig daglega fullan af 4% öli. En ég skil hitt, að ef ölið væri sett inn og sterku drykkirnir dregnir út, væri hægt að minnka ofnautn á áfengi stórkostlega, án þess að tekjur ríkissjóðs þyrftu að líða við það. En það hefur enginn viljað tala um þá lausn fyrir hreinu ofstæki. Og sannleikurinn er sá, að þegar maður les þessa till. hér og athugar afgreiðslu hennar í allshn., er sýnilegt, að þessir menn meina ekki nokkurn skapaðan hlut með nál., sem annaðhvort stafar af hræðslu við að segja eitthvað, sem ekki kemur sér vel hjá ríkisstj., sem þeir styðja, eða þá meina þeir allt annað en þeir segja í nál. Þeir þora ekki að taka á málinu. Ég tala nú ekki um, þegar maður kemur að 2. tölul. Þá skil ég nú bara ekki, hvað sá liður á að þýða hér í þáltill. Það, sem þar er, er ekki annað en að segja, að allt skuli vera í þessum efnum eins og það er nú. Þar er sagt, að það eigi ekki að halda þessu áfram, sem þar er um að ræða, þó að óbreyttri þeirri venju, sem gilt hefur áður um þetta efni gagnvart æðstu stjórnarvöldum landsins, þeim er fara með framkvæmdarvaldið. En hvað er það annað en að halda áfram á sömu braut og verið hefur? Það hefur víst enginn búizt við því, að hv. allshn. mundi skora á ríkisstj. að skerða þessi hlunnindi fyrir sérstaka menn. Nei. Enda vill hún undirstrika, að þessi hlunnindi fyrir sérstaka menn séu ekki skert, heldur skuli allt standa í þessum efnum eins og það er nú. Allshn. virðist ekki þora að taka á þessum málum, sem kannske er af einskæru fylgi við hæstv. ríkisstj., og ég býst við, að svo sé.

Það gæti verið, að það eina, sem árangur verður af í þessari þáltill. og flutningi hennar, að c-liðurinn í brtt. allshn. hafi kannske haft nokkurn árangur, ef hann hefur orðið til þess, að gerð hefur verið sú herferð gegn leynivínsölu í bænum, sem blöðin geta um, að gerð hafi verið. Og sé svo, þá hefur þó nokkur árangur orðið af flutningi hennar. — Annars held ég, satt að segja, að hæstv. dómsmrh. hafi svo mikinn áhuga fyrir þessu máli, að hann hafi e. t. v. um lengri tíma gert ráðstafanir til þess að uppræta leynivínsöluna. Og mér er kunnugt um, að hann hefur haft áhuga á að fá enn sterkari lagaákvæði í sambandi við það, þó að það hafi drukknað í önnum, svona rétt fyrir þingslitin.

Ég held, að ég treysti mér tæplega til að vera með þessari grautargerð, sem hér er soðin upp. Ég tel þetta engan áfanga í þessu stóra máli. Það verður að skipuleggja sóknina gegn ofdrykkjunni þannig að reyna að breyta áliti þjóðarinnar, byrja á því, svo að það sé útilokað, að menn geti leyft sér að hafa æðstu menntastofnun þjóðarinnar, eins og háskólann, opinn annaðhvort einu sinni eða tvisvar á ári fyrir skemmtunum, sem fá önnur eins blaðaummæli og birt hafa verið um þær skemmtanir, sem þar hafa farið fram. Þarna er það virki Bakkusar, sem þarf fyrst að sprengja. Það er óverjandi í menningarlandi, að um þá stofnun, sem þjóðin lítur mest upp til og foreldra dreymir um, að börn sín geti orðið að mönnum í, skuli vera skrifað um það á hverju árl. að skemmtanir fari þar þannig fram, að þar séu bæði unglingar og eldra fólk á kolfylliríi. Ég er ekki að segja, að svo sé. En hvaða tilefni er þá til þessara skrifa? Og þessu verður sem fyrst að breyta. Og það verður að byrja á því að breyta almenningsálitinu í þessum efnum. Það liggur miklu nær en að skammta áfengi, sem hefur sýnt sig, að ekki hefur dugað hingað til. Það er nú látið óátalið, að þeir menn, sem eiga að vera leiðandi menn þjóðarinnar, og menn, sem eiga að mennta unglingana, geri ekki skyldu sína í þessum málum. Þar á fyrst að ráðast á garðinn til að reyna að bæta úr. Og í trausti þess, að hæstv. dómsmrh. beiti sínum miklu áhrifum í þá átt, að það verði gert, mun ég ekki hafa mikil afskipti af þessu máli, sem hér liggur fyrir, eins og afgreiðsla þess er hér í þinginu.