17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (3473)

29. mál, áfengisnautn

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Auk þeirrar till., sem hér er nú til umr., liggja fyrir þessu þingi fleiri till. um áfengismál, t. d. till. um afnám sérréttinda í áfengiskaupum, sem er ekki á dagskrá þessa fundar, og önnur, um afnám vínveitinga á kostnað ríkisins, sem er 9. mál á dagskrá fundarins. Ég er meðflm. að öllum þessum till. og átti jafnvel öðrum fremur þátt í því, að þessar till. eru í fleira en einu lagi, vegna þess að hér var um nokkuð óskyld atriði að ræða, þó að þau væru varðandi sama málið í raun og veru. Nú hefur hv. allshn. fundið tilhneigingu hjá sér til að tengja saman tvær þessara till. og hefur lýst yfir því, að hún muni ekki skila áliti um hinar till., sem hjá henni liggja til athugunar um þessi mál. Á þskj. 319, þar sem er brtt. frá meiri hl. allshn., er tekið upp að nokkru leyti efnið úr till. um afnám sérréttinda í áfengiskaupum. En þar sem þessi till. er þannig, að hæstv. forseti telur, að tæplega muni vera hægt að bera hana upp í tvennu lagi, þá ætla ég að leggja hér fram brtt. um þetta atriði við sjálfa till. á þskj. 30, sem mundi þá koma til atkvgr., ef brtt. hv. meiri hl. n. yrðu felldar. Þó að ég hafi talið óheppilegt að ríma þetta saman í eina ályktun, vil ég ganga til móts við meiri hl. n., fyrst hann hefur áhuga á, að þetta verði samferða. Ég vil því leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við tillögugreinina bætist:

Enn fremur ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að koma á þeirri skipan, að engir fái keypt áfengi undir útsöluverði.“

Ég ætlast til, að þetta bætist við till. á þskj. 30, svo framarlega að brtt. meiri hl. allshn. verði felld.

Ég ætla ekki að taka þátt í þeim umr., sem hér hafa farið fram um þetta málefni, tel ekki ástæðu til þess.