26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (3493)

34. mál, eignarnám lóða vegna Menntaskólans í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Á þingi í fyrra flutti ég sams konar till. og þá, sem hér liggur fyrir, en þá varð ekkert úr framkvæmd hennar og málið ekki afgreitt frá þinginu. Nú eru aðstæður hins vegar að ýmsu leyti breyttar, og geri ég ráð fyrir því, að þessu máli verði meira sinnt nú heldur en þá var gert.

Í tíð fyrrverandi ríkisstj. var hafinn mikill undirbúningur af hálfu þáverandi menntmrh. um það að færa menntaskólann út úr bænum, og er frá því sagt í grg. þessarar till. Sá staður, sem fyrrverandi ríkisstj. hafði augastað á, fékkst ekki, þegar til kom. Að vísu munu aðrir staðir hafa verið fáanlegir, en þá var annað komið til, þ. e. fjárhagslegir erfiðleikar ríkisins á að reisa stórar byggingar, og er óhætt að segja, að ekki líti út fyrir, að þar verði undinn að bráður bugur. — Nú eru uppi um þetta mál tvær kenningar. Önnur er sú að leggja niður hin gömlu heimkynni menntaskólans hér og byggja, annan stærri og vel útbúinn að öllu leyti utanvert við bæinn, hin er sú að endurbæta gamla menntaskólann og gera ráð fyrir byggingu annars skóla utan við bæinn, þegar kringumstæður leyfa, og það álít ég einu færu leiðina, eins og sakir standa. Það er ekki hægt að mótmæla því, að við þurfum að reisa fleiri og stærri skóla heldur en þá, sem fyrir eru, þar sem bærinn er í stöðugum vexti, en hins vegar geta allir líka verið sammála um það, að engar líkur eru til, að þetta verði gert, þar sem stjórn byggingar- og fjárhagsmála hefur nú tekið fyrir allar nýjar byggingar, a. m. k. í þeim tilfellum, þegar hægt er að komast af með þær gömlu. Hygg ég mörg rök mæla með því, að gamla skólahúsið verði ekki lagt niður, heldur notað framvegis fyrir þessa skólastarfsemi. Eru við þessa byggingu bundnar margar sögulegar minningar og óneitanlega mikið hagræði að því að hafa skólann í miðjum bænum. Áður hafa og verið færð rök að því, hve mikill kostnaður væri að því bæði fyrir nemendur og kennara skólans, ef þeir þyrftu að fara með strætisvögnum til og frá skóla, sem byggður væri utanvert við bæinn. Færi ég það fram sem röksemd í þessu máli, að þótt dýrt sé að kaupa lóðir bak við menntaskólann upp að Þingholtsstræti, mundi sú upphæð vinnast fljótlega upp með þeim auknu útgjöldum kennara og nemenda í fargjöld til og frá skólanum, ef reistur yrði fjarri þeim stað, sem hann er nú á. Þá er það að ýmsu leyti óhentugt, þótt það hafi verið gert sem bráðabirgðaúrræði, að ætla rektor skólans bústað langt frá sjálfum skólanum, og er mér kunnugt um, að hann hefur óskað mjög eftir því að fá að búa í gamla landlæknishúsinu, sem stendur rétt við menntaskólann, og yrði þetta mjög hentugt fyrir forstöðumenn skólans í framtíðinni. Ég hygg því, að við verðum að hallast að því ráði að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um eignarnám á lóðum þeim og húsum, sem næst menntaskólanum standa, og kaupa þannig smátt og smátt til þess að bæta úr þörfum skólans. Ég vil sérstaklega benda á, að leikfimihús skólans er algerlega ófullnægjandi, bæði gamalt og illa hirt, þannig að eitt af því, sem er óhjákvæmilegt, er að byggja sæmilegt leikfimihús. Þá vil ég minnast á annað atriði, sem sýnir, hversu húsnæðisástandið er erfitt varðandi starfrækslu skólans. Fyrir löngu síðan var bygging reist bak við skólann, sem kölluð var „fjósið“. Þetta var aldrei vönduð bygging, og þegar ég hafði með kennslumál að gera fyrir nokkrum árum, var hætt að kenna í „fjósinu“, en nú eru þrengslin í skólanum orðin svo mikil, að farið er að kenna þarna á ný, en þetta hús ber auðvitað alltaf þess merki, að það var aldrei ætlað fyrir mannabústaði. Ég hygg því, að eðlilegasta lausnin til úrbóta á húsnæðisvandræðum skólans eins og sakir standa sé sú að laga gamla skólann og láta framtíðina um það, hvenær verður farið að byggja á þeim lóðum, sem talað hefur verið um að fá undir nýjan skóla. Þá vildi ég fá vitneskju um það hjá hæstv. ríkisstj., hvað liði þessum byggingarmálum, hvað liði því fé, sem veitt hefur verið til skólans 2 undanfarin ár, og hvers konar heimtur eru á því, sem bundið var inn hjá Kleppi. Legg ég svo til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.