26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3494)

34. mál, eignarnám lóða vegna Menntaskólans í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þm. S-Þ. um það, hvernig hafi verið varið fé því, sem veitt hafi verið til byggingar menntaskóla í Reykjavík, er því til að svara, að nokkuð miklum hluta af fyrri fjárveitingunni, 300 þús. krónum, var varið til að kaupa erfðalóðarréttindi í landi Laugarness, en það fé, sem þá var eftir, hefur ekki verið lagt út, en fjmrn. gaf fyrirheit um, að það yrði greitt, þegar ráðizt yrði í framkvæmdir. Aftur á móti hefur ekkert verið notað af fjárveitingu þessa árs, og geri ég mér vonir um, að hún verði lögð til hliðar, þar sem ekki hefur orðið úr neinum framkvæmdum í þessum efnum á árinu. Eins og mönnum mun kunnugt, hefur Reykjavíkurbær og ýmsir aðrir aðilar hér í bæ viljað fá þessa lóð við Laugarnes og nota hana á annan hátt, og hefur bænum verið gefinn kostur á að fá lóðina, ef hann vildi láta af hendi stað, sem gæti verið frambúðarstaður fyrir menntaskólabyggingu, og hefur bæjarstj. fallizt á að vísa á stað í þessu skyni, sem er nálægt golfvellinum, í skiptum fyrir Laugarneslóðina. Er ráðuneytið út af fyrir sig á þeirri skoðun, að vinna beri að því að skipta á þessum lóðum.

Í þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að tekin verði upp sú stefna að taka eignarnámi lóðirnar í grennd við menntaskólann með það fyrir augum, að framtíðarbygging skólans verði þar. Ég vil ekki fara út í að ræða þetta mál ýtarlega með þessa umr., þar sem það fer til n., og er þá sjálfsagt, að n. athugi öll gögn og upplýsingar í málinu. Ég vil benda á það strax, að ég tel tvennt mæla því í gegn að hafa skólann þar, sem hann er nú. Báðar eru þessar ástæður mjög þýðingarmiklar, og voru þær m. a. þess valdandi, að rektor skólans, form. n., sem athugaði þetta mál, var á þeirri skoðun að byggja skólann annars staðar. Fyrri ástæðan er sú, að það er sýnilegt, að til þess að fá nægilega miklar lóðir undir skólann og rífa hús af þeim verður að leggja út milljónir króna. Hin ástæðan er sú, að staðurinn er þannig settur, að það hljóta alltaf að verða veruleg þrengsli um skólann, jafnvel þótt þessar milljónir yrðu lagðar út til þess að ná nefndum lóðum. Þetta eru meginástæðurnar fyrir því, að talið er nauðsynlegt að flytja skólann á annan stað. Það, sem aftur á móti mælir með því að hafa skólann þarna, er aðallega tvennt. Í fyrsta lagi verður skólinn um nokkra framtíð meira í miðpunktinum, ef hann stendur þarna áfram, og í öðru lagi hefur skólinn verið þarna, og þessar ástæður verða menn að virða og meta. Það hefur verið stefnt í þá átt fram að þessu af ráðuneytinu í samráði við byggingarn. skólans, að réttara mundi vera að stefna að því að flytja skólann, og þarna hafa ráðið m. a. þær tvær ástæður, sem ég áðan nefndi. Það má sjálfsagt segja, að hér komi til greina margt bæði með og móti, en ég mun ekki fara út í það á þessu stigi. Ég álít nauðsynlegt, að hv. þm. kynni sér þau gögn og umsagnir, sem fyrir liggja um málið frá báðum aðilum, og þær skoðanir, sem fram koma, áður .en þeir taka afstöðu um málið.