26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í D-deild Alþingistíðinda. (3495)

34. mál, eignarnám lóða vegna Menntaskólans í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Ég verð nú að segja, að ég hafði gert ráð fyrir því, að einhverjar nýjar athuganir hefðu verið gerðar í þessu máli síðan í tíð fyrrv. ríkisstj., en ég sé nú af ræðu hæstv. menntmrh., að því er ekki svo varið. Það er misskilningur hjá honum, að bæjarráð þurfi að fara fram á það við ríkisstj. að fá leyfi til að nota lóðina í Laugarnesi, vegna þess að það, sem fyrrv. ríkisstj. fékk, var ekki lóð, heldur erfðafesturéttindi, sem þannig er ástatt um, að bærinn er landeigandi að og hefur bærinn réttinn nú, og þess vegna gat ríkið ekki byggt á lóðinni, nema bærinn vildi sleppa henni. Mér finnst því, að ríkið eigi á hættu að tapa þessum 300 þús. eða því fé, sem það hefur lagt þarna út, ef bærinn vill ekki láta lóðina undir skólann. Geri ég þó ekki ráð fyrir, að þetta sé tapað fé, en samt situr þetta nú þarna fast. Málið liggur því einhvern veginn öðruvísi fyrir heldur en hæstv. menntmrh. vildi vera láta, og bærinn er búinn að ráðstafa Laugarneslóðinni á annan veg heldur en undir menntaskóla. Sýnir það, hversu þessir skólaflutningar eru í lausu lofti byggðir, að annað eins skuli hafa komið fyrir, að keypt hafa verið lóðarréttindi, sem strangt tekið eru einskis virði. — Þá vil ég enn fremur benda hæstv. ráðh. á það, að mér finnst ekki veita af þessari þáltill., til þess að Alþ. skeri úr um það, hvort flytja eigi skólann. Í sambandi við þessar fjárveitingar til skólans, er nema um hálfri milljón króna, var ekkert sagt um það, að þeim ætti að verja til þess að flytja hann burt af þeim stað, sem hann stendur á. Finnst mér það þvt fullkomið gerræði hjá ríkisstj. að leggja út í 15 milljón króna fyrirtæki í þessu skyni, án þess að Alþ. hafi ákveðið, hvar skólinn ætti að vera. Hygg ég, að hæstv. núverandi menntmrh. geti verið glaður yfir því að fá úr því skorið með atkvgr. á Alþ., hvort þessu fé eigi að verja til menntaskólabyggingar utan bæjarins, og liggur mér við að segja, að það sé næsta óheiðarleg meðferð á þessu fé, ef engin slík atkvgr. fer hér fram, því að engin ákvörðun liggur enn fyrir frá Alþ. um þetta mál. Ég vil enn fremur beina því til hæstv. ráðh. að líta á, hvernig ástandið er í menntaskólanum nú. Það er búið að fylla húsið svo, að rektor getur ekki búið þar lengur, og er slíkt mjög óhentugt í svo stórum skóla. Í öðru lagi er skólinn svo yfirfullur, að það er tví- eða þrísett í sumum kennslustofunum og þrengslin svo mikil, að það hefur orðið að taka þetta gamla útihús til viðbótar fyrir kennslu. Þarf því ekki að fjölyrða um það, að það hlýtur að ganga út yfir kennara og nemendur, þegar svona illa er búið að skólanum.

Ég skal ekkert um það segja, hversu mikið það mundi kosta að kaupa þessar lóðir, en hitt veit ég, að það mundi vera mjög kostnaðarsamt að starfrækja skóla utanbæjar. Ég vil nefna hér eitt dæmi: Háskólinn í Winnipeg er 6 km fyrir utan bæinn. Stjórnin hafði ákveðið að hafa þarna stóran búnaðarskóla, en hann reyndist svo dýr í rekstri, að horfið var frá því að hafa þarna búnaðarskóla, en í staðinn var hafður þar háskóli. Skúli Jónsson sagði mér sjálfur, að daglega eyddi hann 3 klst. í leiðinlegar sporvagnsferðir til skólans og frá, og er það eitt af þeim mörgu óþægindum, sem af utanbæjarskóla leiðir.

Svo vildi ég gjarnan fá að vita hjá hæstv. utanrrh., hv. fyrrverandi borgarstjóra, hvort hann líti svo á, að samningurinn, sem gerður var um Laugarnes, sé enn í gildi, þó að bærinn hafi tekið þessa lóð til annars en að byggja þar skóla.