26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (3498)

34. mál, eignarnám lóða vegna Menntaskólans í Reykjavík

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég stend nú upp til þess að leita frétta. Fyrir nokkrum árum var skipuð mþn., til þess að athuga, hvernig hentugast mundi að byggja á svæðinu í grennd við gamla menntaskólann, og ég ætla, að flm. þessarar tillögu hafi bæði verið hvatamaður að nefndarskipuninni og sjálfur verið í henni. Ég hef enn ekki orðið var við, að þessi n. hafi gert nokkurn skapaðan hlut þetta varðandi, og vildi ég fá að vita, hvernig því er háttað. Hitt, sem ég vildi spyrja um, er viðkomandi því, að í fyrra mun hafa verið flutt hér á þinginu þáltill. um sama efni og þessi till., sem nú liggur fyrir. Um hana urðu nokkrar umr., en síðan var hún send til n. Nú vildi ég gjarnan fá að vita, hvað hv. n. meinar með því að svæfa svona till., því að hún kom aldrei frá n. aftur. Í fyrra lágu atvik þannig, að þá var að mörgu leyti hægara að kaupa lóðirnar í nánd við skólann, eftir að bruninn varð við Amtmannsstíg, en að því er ég bezt veit, var ekkert gert í því máli þá.

Ég vil láta það álit mitt í ljós, að það er ósiður, sem ekki á að eiga sér stað, að mál séu þannig tekin út úr umr. á Alþ. og síðan svæfð í n. og þm. á þann hátt meinað að taka afstöðu til þeirra.