26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (3499)

34. mál, eignarnám lóða vegna Menntaskólans í Reykjavík

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Á seinasta þingi flutti ég till. til þál. um menntaskólann í Reykjavík, svo hljóðandi: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að menntaskólinn í Reykjavík hafi áfram aðsetur þar, sem hann er nú, og að veitt verði nægilegt fé í fjárlögum til þess að endurbæta hið gamla skólahús, þannig að það fullnægi nútíma kröfum til skólahúsa, og til þess að byggja nýtt leikfimishús og rektorsbústað við skólann. Jafnframt skorar Alþingi á ríkisstj. að tryggja skólanum nægilegt landrými milli skólalóðar og Þingholtsstrætis.“

Þessi till. fékk ekki afgreiðslu, hún var svæfð í nefnd. Ég hef verið áhugamaður um málefni Menntaskólans í Reykjavík og því fylgzt vel með, hvað gerzt hefur í húsnæðismálum hans. Það hafa komið fram raddir um, að ástæðan fyrir núverandi húsnæðisvandræðum skólans sé sú, að hann sé orðinn allt of lítill. En þetta er ekki rétt, skólinn er að vísu orðinn of lítill, en ekki allt of lítill.

Mér virðist vera um fjórar leiðir að velja til að leysa þessi húsnæðisvandræði. Þær eru ekki tvær eða þrjár, eins og komið hefur fram, heldur eru þær fjórar. Í fyrsta lagi sú, að flytja skólann allan burt og leggja hann niður á núverandi stað. Í öðru lagi er að halda gamla skólanum í notkun, en taka umræddar lóðir undir hús fyrir stærðfræðideild og önnur nauðsynleg hús. Þriðja leiðin er svo sú, sem tveir af kennurum menntaskólans hafa sett fram og er í því fólgin að halda áfram gamla skólanum þar, sem hann er, en byggja svo annan menntaskóla annars staðar. Fjórða leiðin er að halda áfram rekstri gamla skólans, en taka gagnfræðadeild neðan af og láta þá unglinga stunda nám í öðrum hvorum gagnfræðaskólanum, sem eru í bænum, og láta þannig menntaskólann vera aðeins menntadeild. (HV: Það er þegar ákveðið að leggja niður gagnfræðadeild skólans.) Nú ef svo er, þá sýnist mér sem húsnæðisvandamál skólans muni leysast, og þá er líka tilefnið til þessara miklu umræðna fallið úr gildi. Af þessum fjórum — eða nú þrem leiðum, sem ég gat um, finnst mér sú fyrsta fráleitust og koma sízt til greina. Og mér finnst kostnaðar vegna og ýmissa annarra ástæðna ekki ráðlegt að kaupa í einu allar lóðirnar bak við skólann. Skynsamlegasta leiðin er sú þriðja, hún er tvímælalaust langbezta framtíðarlausnin á málinu. Mér finnst, að Alþ. ætti að láta í ljós ákveðinn vilja sinn í þessu. Ég hef haft í hyggju að leggja fram frv. um menntaskólann, þar sem lagt yrði til, að lögfest yrði, að gamli skólinn verði kyrr þar, sem hann nú er, en annar verði svo byggður, þegar tilefni verður til.

Það er mál manna, sem vit hafa á, að kostnaður við skóla fari að langmestu leyti eftir tölu bekkjanna. Skóli, sem er helmingi stærri en annar, mun vera um helmingi dýrari í rekstri. Mér hefur skilizt, að skólafróðir menn haldi því fram, að góður skóli megi ekki vera fjölmennari en tvö til þrjú hundruð nemenda. Það er því augljóst, að betra er að hafa tvo litla menntaskóla en einn stóran. Ég vil svo að síðustu endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég mun flytja frv. um menntaskóla innan skamms, ef ekki verður fram komið annað, sem gengur í sömu átt, en ég hef nú heyrt, að svo muni e. t. v. verða gert, og mun þá vitanlega ekki vera þörf á, að ég geri það. Það er nauðsynlegt að lögbinda það, hvernig skólamálin eiga að vera í framtíðinni.