26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (3501)

34. mál, eignarnám lóða vegna Menntaskólans í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil endurtaka það, að það er alger misskilningur, að ágreiningur hafi orðið milli skipulagsnefndar ríkisins og bæjarins um Laugarnes. Ég hef fengið upplýsingar um, að bærinn hafi verið búinn að samþykkja, að skólinn yrði í Laugarnesinu.

Það hefur nú verið mikið minnzt á þetta mál, síðan ég talaði áðan. Ýmsir hv. þm. hafa mjög ákveðnar skoðanir, hvaða leiðir séu heppilegastar. Ég hygg því, að þetta mál þurfi rækilegrar athugunar, því að það er mikið vandamál. Það eru fleiri en ein till., sem komið hafa fram. Ég fyrir mitt leyti skal ekki segja neitt um, hvort heppilegra sé að hafa skólana tvo, en mér finnst skylt, að þó að menn vilji vera sjálfstæðir í skoðunum, þá sé hlustað á þá menn, sem vit hafa á málunum. Það er algerlega rangt hjá hæstv. utanrrh., að ég sé á móti því, að Alþ. láti í ljós skoðun sína um þetta mál, en ég vil, að það fái rækilega athugun í n. Ég skal ekki neita því, að vel má vera, að ekki hafi verið blandað nægilega saman staðarvali skólans og byggingarframkvæmdum. Í umræðunum hafa menn ekki gert sér það ljóst, að þetta tvennt á að fara saman. Það kemur nefnilega til álita, hvort byggja á allt í einu eða smám saman. Það er tæplega hægt að gera ráð fyrir því, að við á einu ári getum reist allar þær byggingar, sem þarf. Það gæti verið ástæða til að fara nánar út í einstök atriði, sem komið hafa fram í umræðunum, en ég hygg það sé betra að bíða, þangað til málið hefur fengið athugun í nefnd.