27.11.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (3507)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Ég veit ekki, hvernig á því stendur, að svo virðist sem þessi till. hafi utan þings vakið meiri eftirtekt og mótstöðu en aðrar tillögur, og hefur það ekki sízt komið fram í ýmsum blöðum, og virðist þetta því vera viðkvæmt mál fyrir aðstandendur þeirra. Og það er raunar gott, að það hefur komið fram. Með þessari till. er farið fram á, að Alþ. játi eða neiti með úrskurði sínum við afgreiðslu þessa máls, að gilda eigi tvennar venjur um íslenzka borgara, skeri úr því, hvort höfðingjarnir skuli vera hafnir yfir lög, á meðan almúginn á að hegða sér eftir þeim. Sú var tíðin, að þetta var þannig, en það hefur ekki verið fyrr, síðan frelsi óx í landinu. Ég hef fengið sannanir fyrir fyrsta liðnum, sem nefndur er í till. minni, að nokkrir valdamenn hafa fengið ákaflega mikið af víni með niðursettu verði, og hið sama gildir um tóbak. Enn fremur hafa nokkrir ráðherrar og forsetar fengið bifreiðar stöðu sinnar vegna, en þetta tvennt á að taka fyrir og banna hreinlega. Ef Alþ. fellir þessa till., játar það þar með, að tvenn lög eigi að gilda í landinu, önnur fyrir þá voldugu, hin fyrir þegnana eða almúgann.

Ég mun tala hér mest um áfengið, vegna þess að tóbakið og bifreiðarnar eru ekki jafnþýðingarmiklir liðir fyrir ríkissjóð, þó að þetta sé engu þýðingarminna fyrir réttarfarið.

Það, sem hefur verið játað með skýrslu hæstv. ráðh., er að forseti lýðveldisins, ráðherrar allir, þrír alþingisforsetar og forstöðumaður Áfengisverzlunar ríkisins hafi leyfi til að fá áfengi með meira eða minna niðursettu verði. Ég hygg, að þessir aðilar fái flöskuna fyrir 5–6 krónur, sem annars er seld almenningi á 60 krónur, svo að verðfallið er mjög verulegt.

Ég hef í grg. þessarar till. skýrt frá því, hvernig þetta er upprunalega til komið, að í tíð Jóns Magnússonar ráðh., er var forsrh., er bannið var afnumið, komst sú hefð á, að forsrh. — en á honum hvíldi þá risnuskyldan — fékk vín með niðursettu verði til risnu. Þar sem hann var mjög hófsamur í öllu, kom það ekki að sök að veita honum þessa praktisku undanþágu, sem var veitt sökum þess, að risnufé hans hrökk ekki til og ekki var sanngjarnt að bæta risnukostnaðinum á hann sjálfan. Að því er virðist, hafa allir forsætisráðherrar notað þessa undanþágu síðan nema Tryggvi Þórhallsson. Síðan komst á sú venja, að þessi fríðindi næðu til allra ráðherra, þá færðist undanþágan yfir á forseta lýðveldisins, og þau undur gerðust, að hlunnindin voru einnig látin ná til alþingisforseta. Nú er það vitað mál, að forsetar Alþ. halda ekki uppi neinni risnu, nema er þeir standa fyrir þingveizlum, en þær koma ekki til greina í þessu sambandi. Ef það þarf að halda slíkar veizlur, þá kæmu til mála sérstakar fjárveitingar í því skyni. Það vita allir, að alþingisforsetar halda ekki uppi neinni risnu. Hér eru ekki einu sinni herbergi, sem þingmenn geta notað til viðtals við menn, hvað þá að hér séu risnuherbergi eða herbergi, þar sem haldið er uppi risnu. Það er því algerlega tilefnislaust að láta þessa undanþágu ná til alþingisforseta. Og loks færðust áfengisfríðindin yfir á varaforseta þingsins. Ég hygg, að bifreiðaundanþágan hafi færzt yfir á forsetana á vissu tímabili, hvort sem þau fríðindi eru nú í gildi eða ekki.

Ég hef nú leyft mér að fara fram á, að þessu verði öllu neitað og það afnumið og að þeim tveimur mönnum, sem þurfa að hafa risnu, forseta lýðveldisins og utanrrh., verði veitt risnufé eftir því, sem með þarf, ekki lítið og naumt risnufé eins og í tíð Jóns Magnússonar, svo að þessir menn bíði stórskaða vegna risnuskyldunnar, sem þeim er lögð á herðar, því að það er til minnkunar fyrir þing og þjóð að búa þannig að þessum mönnum um risnufé, að þeir sökkvi í skuldir. Nánasarskapur í þessu efni hefur leitt til þess, að menn hafa farið inn á þær krókaleiðir, sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, svo að nú er allt komið út í öfgar. Ég álít, að sú hætta stafi af þessu fyrirkomulagi, eins og raunar hefur komið í ljós í opinberu lífi, að þessi óvani verði til að kasta skugga á þing og stjórnarvöld landsins.

Í einu stjórnmálablaði landsins var í fyrra ráðizt kröftuglega á núverandi hæstv. forseta sameinaðs Alþingis, hann var þar uppnefndur og kenndur við áfengi, og af því að minnzt er á hann í einu atriði í grg. till. minnar, þá vil ég taka það skýrt fram hér, að hann hefur aldrei sagt eitt orð, svo að ég viti, um snapsagerð hér í þinginu. Hann hefur ekkert talað um það. En ég hef átt tal við fjóra merka þingmenn, sem komið hafa úr utanferðum, og þeir hafa m. a. minnzt á það, að í erlendum þingsölum væri útdeilt snöpsum.

En nú kem ég aftur að blaðinu, sem ég nefndi áðan. Nú hefur það alveg snúið við blaðinu, ef svo mætti segja. Sama stjórnmálablaðið, sem réðst á Jón Pálmason í fyrra fyrir þá óvenju, sem ég játa, að sé, það afsakar nú þessa óvenju í vetur. Það gaf mér eitt tilefni til að víkja að því, að þingmenn virðast nú aðallega vera uppteknir af þeirri dýrð annarra landa, að þar sé útdeilt snöpsum á þingum. Og í fyrr nefndu blaði er í haust talað um, að deildaforsetar Alþ. hafi verið að ræða um snapsasölu, og segir þar m. a. með leyfi hæstv. forseta: „Brugðu forsetar deildanna á glens og sagði annar þeirra í gamni, að réttast mundi vera að svara þessu með því að koma upp staupabar í alþingishúsinu, og tók hinn létt undir það.“ Í sama blaði er vitnað í eftirfarandi úr Morgunblaðsgrein um till. mína: „Í grg. fyrir till., sem er geysilöng, segir flm., að það sé nú á almannavitorði, að til mála hafi komið að setja upp „bar“ eða snapsaútsölu í þinghúsinu, og er ekki gott að segja, nema sú „hugsjón“ hefði orðið að veruleika, ef forseti Sþ. hefði ekki beitt sér á móti þessari nýjung.“ Þegar ég bar fram mína till., hafði ég í fórum mínum þessa mikilsverðu vitneskju frá þingbræðrum mínum, sem ég nefndi áðan, um snapsaútsölu í þingum erlendis, og að þetta hafði meira en komið til orða, eins og blaðið Tíminn, sem ég átti við áðan, upplýsir með því að skýra frá samtali deildaforsetanna.. Sú frásögn virðist einna helzt vera eftir báða forsetana, svo nákvæmlega er sagt frá og kunnuglega þrætt samtal forsetanna, um staupabarinn, og að lokum segir blaðið, að forseti Sþ. hafi haldið, að ekki væri þó rétt að koma honum upp.

Nú bið ég menn að athuga þessi dæmi, hvar þetta kann að lenda. Í fyrra réðst Tíminn á Jón Pálmason, hæstv. forseta Sþ., og uppnefndi hann brennivínsforseta, en nú hefur hann snúið við blaðinu og er farinn að dekra við brennivínið, en verður nú þó að játa, að Jón Pálmason hafi kveðið staupabarinn niður. Og það er vitað mál, að þessi hæstv. forseti Sþ. hefur aldrei talað um þetta. Það hefur aldrei staðið neitt upp á hann í þessum efnum, þó að hann hafi að vísu haldið góðar þingveizlur.

Svo kemur feikileg ádeila á mig í blaðinu fyrir, að ég skuli í grg. minni hafa sagt frá þessari hugmynd um barinn, sem það verður þó að viðurkenna sjálft, að sé rétt með farið, sbr. samtal forsetanna, sem blaðið skýrir frá. M. ö. o., sama blaðið, sem réðst í fyrra að ósekju á Jón Pálmason, hæstv. forseta Sþ., fyrir brennivínsdekur, það játar nú, að deildaforsetarnir hafi verið að orða brennivínsbar hér, og bregður skildi fyrir þá. Vinnubrögðin eru sem sé þannig, að maðurinn, sem hneykslaðist mest á forsetabrennivíninu í fyrra og hóf máls á því hneyksli, hann vill nú hins vegar draga úr því, að deildaforsetum hafi verið alvara með barinn, segir, að þeir hafi ekki meint þetta, en hver getur fullyrt eða sannað, að þeir hafi ekki meint það, úr því að um þetta var talað, a. m. k. er sagt, að öllu gamni fylgi nokkur alvara? Og enn fremur er eitt, sem sýnir vel, að ástæða er fyrir þingið að losna við þetta. Fyrrnefnt blað segir sem sé í ádeilunni á mig fyrir að ljóstra þessu upp, með leyfi hæstv. forseta: „Það hefur aldrei þótt drengilegt að ljúga sökum á þá, sem hent hefur mannorðsslys og standa því höllum fæti gagnvart almenningsálitinu.“ Hvað er átt við hér? Það er verið að tala um, að þm. hafi hent mannorðsslys. Álitið á þinginu er nú komið niður á það stig, að talað er um það í opinberu blaði, að þm. hafi hent mannorðsslys og því verði að þegja um málið. Ég vil þó ekki láta hjá líða að minnast á, að er þetta vínmál var fyrst tekið upp hér í þinginu, taldi einn þm. sig knúðan til að rísa upp og deila á hæstv. forseta Nd. fyrir það, að hann misbrúkaði vín, og forseti tók ekki til skörulegra ráðs en þess, að biðja þá þm. að rísa upp, er vildu ásaka hann. Ég held, að það hafi aldrei verið meiri erfiðleikum bundið fyrir forseta að útvega sér sakleysisvottorð, og lítill úrskurður fólst í þessari aðferð hans.

Það, sem fyrir mér vakir, er, að tekið sé hreinlega á þessu máli. Ríkisstj. hefur veitt sjálfri sér leyfi, sem hún hefur ekki leyfi til, um 20 ára skeið til sinna skemmtiþarfa, og stjórnarráðið hefur fengið þetta leyfi undir sömu kringumstæðum. Þessi undarlega tilhögun, að þeir, sem ekki hafa leyfi, veiti sjálfum sér leyfi til að lifa í óhófi fyrir almannafé og ganga til starfa sinna með þessu nautnalyfi, er óhafandi. Alþ. hefur allt annað að gera en verja einstaka forseta, sem misbrúka þessa svo kölluðu heimild. Þess eru dæmi, að einn ráðh. skuldaði áfengisverzluninni 5000 krónur fyrir vín, er hann fór frá völdum. Það sýnir ljóslega misnotkunina. Ég held, að við ættum að vera búnir að fá nóg af þeim leiðinlegu afleiðingum af því, að Alþ. kunni ekki upphaflega að sjá sóma sinn og útvega sæmilegt fé til risnu, en það olli því, að farið var inn á þá braut, sem hér um ræðir. Undanþágurnar hafa haldið áfram og vaxið, það er eins og ævinlega, þegar illu sæði er sáð. Við þurfum að ganga hér hreint til verks. Það eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum, jafnt forseti, forsrh. og alþýða manna, og við verðum að þora að veita fé til þeirra manna, sem ekki komast hjá því að inna risnuskyldu af hendi. Hugleysi þingsins hefur valdið því, að þessi óvenja komst á. Ég skal svo ekki segja, hvaða aðferð Alþ. á að hafa í þessu efni. Ég hef gert mína skyldu sem þm: Þing og stjórn og jafnvel forseti þingsins, sem fer allra manna bezt með vín, hefur orðið fyrir aðkasti vegna þessarar óvenju. Ef þingið er á annarri skoðun en ég í þessu máli, þá á það að ganga hreint til verks og fá þá bara staupabar, fá heimild til þess hjá sjálfu sér, veita vín handa okkur öllum, snapsa og svartadauða fyrir fimm krónur flöskuna t. d., svo að það verði nógu útgjaldalítið fyrir okkur að inna af hendi þessa menningarskyldu.

Ef þessi till. fer til n., þá mælist ég eindregið til, að hún verði ekki lengi þar. Ég vil, að málið verði annaðhvort hreinlega drepið eða samþykkt.