27.11.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (3511)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Barði Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrir nokkru var ég að blaða í ensku riti: „International who is who“, og þar rakst ég meðal annars á nafnið Jónas Jónsson. Út af fyrir sig var það ekkert merkilegt, að nafnið Jónsson stæði þarna, því að þessi maður mun vera kunnur utan landssteinana fyrir sannleiksást, góðgirni og drengskap. En það voru skrítnar upplýsingar, sem blaðið hafði fengið, því að þar var talað um „historian“ Jónas Jónsson. Flestir munu vita, hvernig slíkt verður til, en það er á þann hátt, að blaðið sendir spurnareyðublöð, sem hlutaðeigendur fylla út. Það er því enginn efi, hver hefur gefið upp sagnfræðititilinn. En því tala ég um þetta, að það er táknrænt fyrir allan málflutning Jónasar Jónssonar. Hann blandar saman lygi og sannleika á viðeigandi hátt í það og það sinnið, en eins og allir vita, þá er hann ekki sagnfræðingur, heldur lygasagnafræðingur.

Hv. þm. S-Þ. talaði um það á ný í ræðu sinni, að til mála hefði komið að stofna bar hér í Alþingi. Ég hlustaði ekki á þessa ræðu, en ég get mér til, að í henni hafi verið svipaður málflutningur og á þskj. 39. Það væri fróðlegt, ef þm. vildi gera grein fyrir í fyrsta lagi, hvaðan hann hefði þessar upplýsingar og í öðru lagi, hvernig forseti Sþ. mátti hindra þessar aðgerðir. Ég hélt, að þm. S-Þ. vissi, að þetta er alls ekki á valdi forseta, og eins og forseti Ed. sagði hér í sinni ræðu, þá heyra þessi mál undir dómsmrn., og mundi þurfa lagabreyt. til slíkra framkvæmda. Hins vegar munu allir þm. vita, að það hefur aldrei komið til mála, heldur er það sambland af lygi og sannleika frá þessum hv. þm. Það vita líka allir, ef talað hefur verið um þetta, þá hefur það verið í gamni, en svo leyfir þm. S-Þ. sér að bera þetta fram í grg. sem blákalda alvöru. Það er annars næsta undarlegt, að þm. S-Þ. skuli ætla að gerast siðameistari á því sviði, sem þál. þessi greinir, en þar segir svo, með leyfi forseta: „Ekkert er hættulegra heilbrigðu þjóðlífi í lýðfrjálsum löndum en að hafa valdastétt, sem skammtar sér hlunnindi, sem aðrir þegnar borgfélagsins geta og mega ekki njóta.“ Þessi ár, sem ég hef lifað, hef ég engan mann þekkt eins sérgóðan og Jónas Jónsson. Ég hafði þá raun að starfa með Jónasi Jónssyni 8 ár í menntamálaráði, og það var langur reynslutími. Við höfðum verið formenn þar, Sigurður Nordal ég og Kristján Albertsson, en svo kom Jónas Jónsson 1934. Við höfðum aldrei leyft okkur að senda reikninga fyrir bílanotkun, þó að við þyrftum að tala við myndhöggvara eða málara, en þegar Jónas Jónsson kemur, þá er ekki sparað að láta ríkið borga bílferðir. Við höfðum aldrei haldið veizlur, en eitt af fyrstu verkum Jónasar Jónssonar var að halda veizlu á Hótel Borg, en þar var vínið ekki keypt með innkaupsverði, heldur hótelsverði, — og ætli þm. S-Þ. hafi greitt þetta úr eigin vasa? Ónei. (JJ: Það var sjálfsagt að láta ritarann hafa væna hressingu.) Það er ekki til neins fyrir Jónas Jónsson að snúa út úr þessu, því að það er öllum kunnugt, að hann er bæði hræsnarl. rógberi og lygari, en ærulaus er hann ekki, því að hún hefur ekki enn þá verið dæmd af honum. (Forseti hringir. — JJ: Lofið honum að tala.) Nei, mér virðist sæmst fyrir Jónas Jónsson að hafa sig ekki mikið í frammi og þegja, því að það munu fáir vera í þessu þjóðfélagi, sem unnið hafa önnur eins óhæfuverk og Jónas Jónsson, og get ég rifjað það upp, ef vill.