27.11.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í D-deild Alþingistíðinda. (3514)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér neitt inn í þær umr., sem risið hafa hér upp á Alþ. um áfengi. En ég vildi aðeins segja örfá orð út af efni till. á þskj. 39.

Eftir því sem ég veit bezt, er það mjög nálægt því að vera alþjóðleg regla, að ríkisstj., sem situr að völdum í löndunum, hafi fengið þann rétt að fá með innkaupsverði vín og tóbak, vegna þess að talið er, að stöður þeirra útheimti verulega risnu. Líka þekkist, að fyrirsvarsmenn þessara þjóða hafi einhver slík hlunnindi, þó að mér sé það ekki eins kunnugt. Ég held, að frá upphafi hafi verið venja hér í landi, að ríkisstj. hafi haft þennan rétt í samræmi við alþjóðlega reglu, álíka og útlendir fulltrúar um allan heim nota þessi fríðindi, hvar sem þeir dvelja, og þeir þurfa alls staðar að halda uppi verulegri risnu. Hitt er annað mál, að vilji Alþ. breyta um og hafa aðra reglu hér í landi en víða tíðkast annars staðar, þá hefur það sjálfsagt vald til þess. Ég ætla þó, að ekki væri heppilegra að hækka svo risnufé hjá þeim mönnum, sem þurfa að halda uppi verulegri risnu, eins og forseta lýðveldisins og ríkisstj., að vín það, sem haft kynni að vera um hönd í sambandi við þetta, yrði keypt með útsöluverði. Ég hygg, að það þyki ekki á neinn hátt vera eðlilegra í framkvæmd. Ég vil aðeins benda á þetta atriði og undirstrika það aftur, að það er Alþ., sem sjálft á að ákvarða um, ef það vill hafa einhverja aðra háttu á þessu en tíðkast mun annars staðar, og þá hefur Alþ. fullkominn rétt til þess að ákvarða um það.