28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (3517)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil víkja fyrst að því, sem kom fram í ræðu hæstv. forseta Nd. í gær. Þó að það sé ekki stórt atriði, að ég hefði haldið vínveitingaveizlu fyrir hann og þá, sem voru með mér í stjórn Þjóðvinafél. og menningarsjóðs, þá taldi hann, að það hefði verið á vítaverðan hátt. Og hann taldi það ásökunar vert, að ég hefði ekki fengið þetta niðursetta verð, heldur mundi sjóðurinn hafa orðið að borga þetta. Enn fremur átaldi hann mig fyrir, að ég hefði ekki borgað sjálfur bílreikninga, þegar við hefðum verið að fara í erindum menntamálaráðs. — Ég tek þessar ásakanir eins og part af því ástandi, sem hæstv. forseti var í í gær og ég mun telja nokkra sönnun fyrir því, að þessi þáltill. mín sé ekki ástæðulaus, því að sannarlega getur enginn, sem er starfsmaður landsins og í embættiserindum, verið vítaverður fyrir það, þó að hann kosti ekki sína ferð sjálfur. Ég vil enn fremur benda á, að mér tókst að spara á þessum tíma, meðan ég var formaður menntamálaráðs, meira en gert hefur verið síðan, þannig að þessi hv. þm., sem ég minntist á, fékk þá ekki nema 1200 kr. í árslaun fyrir starf sitt þar — og það hygg ég, að hafi verið alveg nóg. (Hlátur á áheyrendapöllum). En eftir að ég var farinn úr n., hefur honum tekizt að fá þetta hækkað, að ég hygg, í 7 þús. kr. á ári, þannig að ég get vel skilið, að hann sé langminnugur þessa sultar, sem hann þykist hafa liðið vegna míns tilverknaðar í sambandi við störf í þessari nefnd. — Ég man, að þegar við 7–8 menn borðuðum kvöldverð saman, eftir að hafa unnið fyrir miklu minna kaupi en nú er gert í menntamálaráði, þá glöddum við okkur á hóflegan hátt. Og á þeim stöðum og tímum var ekkert út á framkomu núverandi hæstv. forseta Nd. að setja. Mér hefur líka lánazt í sambandi við stærri verkefni að hafa hóf á í þessum hlut, og ég átti þátt í því, að stærsta samkoma, sem nokkru sinni hefur haldin verið á Íslandi, fór þannig fram, að mikill sómi þótti að, alveg sérstaklega fyrir það, hvaða ráðstafanir voru gerðar í sambandi við áfengismál, sem voru gerðar í anda alls ólíkum þeim, sem hér á sér stað hjá þeim, sem standa að brennivínsundanþágunni.

Ég álít, að það sé rétt, að Alþ. athugi það, að á þessu máli geta verið kannske einhverjar hliðar, sem má kalla grínhliðar, svo sem hefur verið haldið fram í ræðum hæstv. deildaforseta. Það er hægt að ræða þær hliðar sér. En alvara þessa máls er meiri. Það er játað fyrst og fremst, a. m. k. af hæstv. forseta Ed., að hann hafi hreyft því, að því er virðist þegar forsetar voru allir saman, og hinn deildarforsetinn hafi tekið undir — eða kannske forseti Nd. hafið máls á því —, að hafa vínsölu hér í þinghúsinu. Það er þegar játað, að hæstv. forseti Sþ. hafi ekki tekið undir þetta. Það er játað í blöðum, sem stutt hafa kosningu þessara beggja hæstv. deildaforseta, að þetta sé rétt, þeir hafi hreyft þessu þarna. En í því blaði, sem um þetta hefur verið skrifað í, er sagt, að þetta hafi verið bara spaug. — Nú er það einkennilegt við þessa málsmeðferð, að þetta blað, Tíminn, hefur fyrir atbeina Halldórs á Kirkjubóli ráðizt á forseta Sþ., jafnvel með uppnefnum, fyrir þessa venju, sem komin var til, áður en hann varð forseti Sþ., að forsetar hafi ríflegan aðgang að vínkaupum. Nú hef ég verið saman með þessum núverandi hæstv. forseta Sþ. í 13 eða 14 ár, og ég hef aldrei séð hann undir áhrifum áfengis. Og árásir þessa manns, sem í Tímann hefur skrifað, er ég sannfærður um, að eru af flokkslegri illgirni, eins og oft kemur fyrir. En þegar þessi till. mín kemur fram, kemur þessi sami maður og ræðst á mig fyrir að koma með till., en játar jafnframt, að honum sé kunnugt um þessar umr., sem hafi orðið, og ræðst með ákaflega mikilli beiskju á þessa tvo menn, helzt báða, þessa núverandi forseta deildanna, en reynir þó í aðra röndina að afsaka þá. Hann gefur í skyn, að þetta séu fallnar persónur, sem mér hefur aldrei dottið í hug að segja, og sízt um hæstv. forseta Ed., sem staðið hefur vel og skörulega í sinni forsetastöðu. — Þetta sýnir samt þá hættu, sem kemur af því að hafa undanþáguna um áfengiskaup, þ. e. a. s. það er nokkur hætta á, að ráðizt sé á menn í forsetastöðum, enda þótt þeir séu alveg án saka í þessum efnum, eins og hæstv. forseti Sþ. En þegar farið er að athuga málið nánar, kemur í ljós, að sá maður, sem ber hæstv. forseta Sþ. sökum, hann hefur skjólstæðinga, sem hann segir um, að sé verið að níðast á vanmáttugum með því að tala um þeirra framkvæmdir í þessum efnum. Og þegar flokkshagsmunir koma til greina, reynir hann að breiða yfir þetta, sem hann þó ásakar fyrir á ókurteislegri hátt en mér hefði nokkurn tíma getað dottið í hug viðkomandi hæstv. forseta Ed. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta. En þessi ómerkilega grein sýnir samt, hvernig komið er um þetta mál. Og út frá því, sem sagt hefur verið, að í útlöndum sé það svo, að mektarmenn fái þessa hluti á sérstakan hátt, þá sé ég ekki, að okkur komi það við. Hér er þetta svo mikil alvara, að það er vitað, að einum manni, sem ég hygg, að sé sérstakur reglumaður, voru taldar til skuldar 5 þús. kr. fyrir áfengi, þegar hann fór úr sinni trúnaðarstöðu. Og þetta varð að deilumáli í útvarpsumr. nú fyrir skömmu. Það sjá þess vegna allir, hvert það horfir út af fyrir sig, ef það bætist ofan á annað álag gagnvart Alþ., að illa sé á haldið í þessum efnum, ef það er ekki nógu illt fyrir orðstír þingsins að hafa staðið í 9 mánuði eitt sinn án þess að geta leyst stærsta vandamál þess og nú nærri tvo mánuði án þess að gera neitt. Ég held, að þetta sé svo fráleitt og fjarstætt, að það muni fara svo, að forsetar og ráðherrar muni ekki til lengdar vilja halda þessum sið áfram.

Ég vil að síðustu, af því að þetta er aðeins stutt aths., aðeins benda á, hvað hefur komið hér fyrir, að maðurinn, sem á að stjórna Nd. og hefur verið valinn til þess í 2 ár, kemur hér þannig fram, að það er óhugsandi annað en honum hefði t. d. í móðurlandi þingræðisins verið vísað strax úr þinginu fyrir jafnmikið siðleysi og fram kom á fundinum hér í gær. Það er víst, að svona framkomu getur enginn maður haft, nema hann sé sterklega undir áhrifum áfengis, svona siðlausa og heimskulega framkomu. Ég hef lagt ríkt á það við skrifara, að þeir nái sem allra nákvæmast öllu orðbragði hæstv. forseta Nd., svo að bæði hv. þm. og aðrir geti fengið alveg glögga hugmynd um það, hvert þetta svo kallaða forsetabrennivín leiðir. Það er þannig, að Alþ. er með þessari framkomu komið niður fyrir það, sem maður verður að kalla fyrir neðan allar hellur.