28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (3520)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég er þakklátur fyrir þessa síðustu ræðu. því að það gefur mér tilefni til að upplýsa skemmtileg atriði viðvíkjandi elzta listaverki Alþingis, og einmitt forseti Nd. Alþingis hefur með þessu orðið til þess, að eitt mesta listaverkið hér í húsinu mun verða meira metið en áður, þegar menn vita, hvað ég hef orðið að liða fyrir föðurlandið til þess að eignast það. Þeir menn, sem eiga aðgang að þessum sal — sem kallaður er lestrarsalur — sem starfsmenn eða aðrir, sem eru hér staddir og geta komið á öðrum tímum, sjá 4 ágæt verk eftir Jóhannes Kjarval. Eitt þeirra keypti ég með aðstoð forseta Nd. fyrir 1500 kr., og ég þori að fullyrða, að ef mér væri fengið það nú, gæti ég selt það fyrir a. m. k. 20 þús. kr., en mundi samt ekki vilja gera það, af því að ég tel þetta svo merkan hlut, að ég vil, að landið eigi hann. — Úr því að farið er að tala um þetta, er bezt að ég segi þá sögu. Mér var kunnugt um það, að Egill Thorarensen átti þetta málverk, og hreyfði ég því eitt sinn við hann, að ég vildi, að þetta málverk hefði komizt í hendur menntamálaráðs, því að það ætti að vera í eigu landsins. Þá sagði Egill: „Ég væri til með að selja það.“ Þetta þóttu mér mikil tíðindi, því að ég hafði sagt sem svona við hann, án þess að mér dytti í hug, að hann vildi selja málverkið. Við fórum svo austur til þess að kaupa málverkið. Mátti heyra á ræðu forseta, að ég hefði verið með vínveitingar á kostnað landsins. En sannleikurinn er sá, að við sátum þarna stundarkorn og gengum frá málverkinu. Ég þorði ekki að kaupa það einn, þar sem við vorum 5 í ráðinu, og við vorum 3 og gengum allir inn á það. — Nú er ég satt að segja alveg hissa á því, — heima hjá Agli, jafnhófsömum manni. Ég hafði að vísu ekki fylgzt vel með víndrykkju hæstv. forseta, en hann hlýtur þó að hafa fengið sér drjúgan neðan í því, því að þegar við vorum komnir út í bílinn, var hann orðinn alveg ófær, hafði enda tekið með sér flösku. Hann var orðinn alveg ófær, ekki aðeins til þess, sem heitir gangur, heldur hóf hann mál sitt með sams konar orðbragði og hér í gær, og er því heppilegt að fá þessar umræður rétt á eftir, því að það fæst þá skjalfest, hvernig þessi maður er, þegar hann tapar sinni lítilfjörlegu dómgreind. — Þegar við Árni Pálsson reyndum að sefa hann, þannig að hægt væri að hafa hann þarna með, sem þó bar ekki árangur, getur vel verið — ég man það ekki —, að ég hafi sagt, að bezt væri að henda honum út úr bílnum. Hann var alls ekki hafandi, og gat ekkert réttlætt að hafa hann í bílnum annað en það að koma honum fyrir á sæmilegum stað, þar sem hann gæti ekki farið sér að voða. Ég hef alltaf verið ánægður með það að hafa farið þessa ferð og fengið þetta mikla listaverk í eigu þjóðarinnar úr eigu einstaks manns. Ég álít, að það hafi verið þjóðhappaverk.

Ég ætla ekki að fara að deila við þennan mann um það, hvernig veitt hefur verið í menntamálaráði. Ég vil aðeins benda á, að það var ég, sem stofnaði menntamálaráð, og það hefur staðið í góðu gildi síðan og verið talið uppfylla, brýnar þarfir. Vegur þess fer vaxandi, því að það er rétt skipulagt, þó að vitanlega geti slæðzt þar inn menn, sem ekki er sérstaklega varið í, eins og t. d. þessi hv. þm. Ráðið hefur réttlátlega úthlutað styrkjum fyrir hundruð manna í ýmsum listgreinum, þó að það sé gefið, að um það eru menn ekki alltaf sammála.

Ég vil taka fram, að allt það, sem hæstv. forseti Nd. sagði um úthlutun til Aðalbjargar Sigurðardóttur o. fl., eru helber ósannindi, enda gefið, að fyrir manni. sem er á þessu stigi eins og hv. þm. og forseti Nd., fyrir honum er það lítilfjörlegasta synd að ljúga svona smáum hlutum eins og um úthlutun á styrkjum.

Ég álít nú, að það hafi verið alveg óhjákvæmilegt að fá upplýst ýmislegt, sem þessar umr. hafa leitt í ljós. Hvað finnst mönnum um það, ef við setjum svo, að það sé rétt, sem hæstv. forseti Nd. sagði áðan, að hann hefði verið ódrukkinn í gær? Hugsum okkur, að hann væri búinn að víða að sér áfengi fyrir um 5 þús. kr. og búinn að drekka það til þess að æsa sig og aðra! Ég vil ekki neita því, að það er almenn trú manna, að hann sækist eftir að vera forseti af þessari ástæðu, sökum þess veikleika, sem ég hef lýst.