28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (3523)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég er alveg hissa á því, hvað forseti Nd. er áfjáður í að gera veg minn sem mestan. Nú er hann búinn að leiða í ljós, að ég hafi með margvíslegum fórnum bjargað hér inn í þetta hús ágætum málverkum. Í öðru lagi hefur hann komið hér fram í gær á þann hátt, að betur hefði ekki verið hægt að sanna mál mitt, hversu óhæfilegt þetta forsetabrennivín er. En í þriðja lagi hefur hann gert mér enn meiri greiða með því að taka ályktun úr Ed. frá andstæðingum mínum, sem eins stóð á um og framkomu forseta Nd. í gær. Hann var reiður. Þessir ágætu menn í Ed. voru sárir við mig, því að þeir vissu, að ég var að innleiða nýtt tímabil í okkar réttarfari, og þeir kunnu ekki við það, þessir menn, höfðu allt annað sjónarmið, ekki miklu hærra en sjónarmið þessa forseta. Og í barnaskap sínum samþykktu þeir svo skammir um mig, ef þeir gætu með því áorkað einhverju. En niðurstaðan varð hin sama. og hjá Birni Kristjánssyni, þegar hann var í kosningaferðalagi. Hann sagði: „Ég er búinn að segja á 16 fundum, að Jónas Jónsson sé kommúnisti, og hann er það.“ Ég varð nú ekki fremur kommúnisti, þó að Björn Kristjánsson segði þetta, og er ekkert fjær skapi. Svo liðu nokkrar vikur. Þá var mál þetta lagt undir þjóðina, og þá voru það þessir menn, sem lentu í duftinu, en ég varð dómsmrh. í mörg ár.

Það er gott, að þetta hefur komið fram. Menn með vondan siðferðismóral verða gjarnan reiðir og æstir, þegar komið er við kaun þeirra. En það gagnar þeim ekki, það verða þeir að skilja.