28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (3525)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Bernharð Stefánsson:

Það er í annað skiptið, sem ég fæ að gera aths., og skal ég ekki misnota það eða fara út í ræðu hv. þm. V-Húnv. í einstökum atriðum. Ég hefði nú búizt við heiðarlegri málflutningi af þessum hv. þm. en raun ber vitni um. Mér hefur aldrei komið til hugar að kalla Halldór Kristjánsson ofstækismann vegna þess, að hann finnur að þessu fyrirkomulagi, að einstakir menn komast að öðrum kjörum um áfengiskaup en aðrir til þess að halda með því uppi risnu. Ég viðhafði þetta orð að gefnu tilefni, vegna þess að annar þm. var að deila á þennan mann fyrir það að hafa kallað forseta Sþ. brennivínsforseta. Má hver fyrir mér halda því fram, að afnema eigi þessi réttindi.

Ég lýsti yfir því í gær, að ég væri ekkert sérstaklega hrifinn af þeim. En þó að menn af tilviljun fái þessi réttindi og kannske án tillits til þess, hvort þeir nota þau eða ekki, — ef það þykir leyfilegt að ausa þá gífuryrðum fyrir það, þegar þeir eru settir í trúnaðarstöður, sem þessi réttindi fylgja, þá þykir mér skörin færast upp í bekkinn, og það kalla ég ofstæki.

Hv. þm. V-Húnv. hefur einu sinni verið ráðh. Þegar hann var ráðh., voru víst ekki þessi réttindi innan ríkisstj. nema hjá forsrh. Nú hafa allir ráðh. þessi réttindi. Segjum, að hv. þm. V-Húnv. verði aftur ráðh., sem ekki er ólíklegt. Mundi honum þykja það sanngjarnt, að hann yrði á þennan hátt ofsóttur fyrsta daginn, sem hann hefði þessi réttindi, án nokkurs tillits til þess, hvort hann mundi nota þau eða ekki? Það er þetta, sem ég kalla bindindisofstæki, þetta orðbragð, en ekki að halda fram, að þetta fyrirkomulag eigi að afnema. Ég hef ekki deilt neitt á hv. þm. S-Þ., þó að hann hafi flutt þessa till. Það eina, sem hefur valdið deilum okkar á milli, eru viss orð í grg., þar sem hann fer ekki með rétt mál, sennilega vegna misskilnings. Og ég skal taka fram, að þetta er ekki að kenna forseta sameinaðs þings, það er ekki hans sök.