28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3532)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. fórust orð eitthvað á þá leið, að bókfærsluhlið málsins skipti engu. Þetta er ekki rétt. Hér er um það að ræða, hvort sannleikurinn í þessum hlunnindamálum skuli hulinn, falinn fyrir kjósendum. Undanfarið hefur ríkisstj. rækilega falið þessa reikninga fyrir almenningi, svo að menn hafa ekki hugmynd um, hve þessi fríðindi nema háum upphæðum né hvað opinberar veizlur kosta ríkið mikið. Hér er því beinlínis um hálfgerða fölsun að ræða, þar sem alltaf er reynt að haga reikningsfærslu þannig, að menn fái ekki áttað sig á, hvernig þessi mál raunverulega standa. Þjóðin öll á rétt á að sjá í réttu ljósi, hver hagnaður er árlega af áfengissölunni, án þess að nokkuð sé undan dregið eða nokkrar undantekningar gerðar, og hún á heimtingu á að fá að vita, hvað laun þessara manna eru raunverulega há, reiknuð með þessum fríðindum.