05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í D-deild Alþingistíðinda. (3552)

48. mál, brýr á Álftaskálará og Vatnsdalsá

Flm. (Pál Zóphóníasson) :

Herra forseti. Þegar við hér fyrir nokkrum árum fórum að hugsa um það að koma brúm á þær ár, sem þá voru óbrúaðar og þá, voru nokkuð margar, — líklega einar sjö þá, sem voru það dýrar, að vonlaust var um það að fá til þeirra fjárveitingu frá Alþ. í einu lagi, — þá var komið á brúarsjóði á þann hátt, að safnað var í sjóð í fleiri ár fé af benzínskattinum. Þetta gekk nú ekki þrautalaust, en gekk þó. Því var þá haldið fram hér á þingi af sjálfstæðismönnum, að það næði engri átt að hafa ríkissjóð í „mörgum skúffum“, þetta væri og ætti að vera ein skúffa allt saman, en ekki margar skúffur, þar sem ætlað væri úr einni skúffunni til þessarar framkvæmdarinnar og annarri til hinnar. Þó hafðist þetta fram, og það var lagt nokkuð af benzínskattinum til hliðar í sjóð, sem verja átti til brúargerða á stórárnar og ákveðið, að fyrsta brúin, sem byggð yrði, skyldi vera á Jökulsá á Fjöllum. Vegna þessa brúarsjóðs hefur verið byggð ein brú. En þegar séð var, að ein brú væri þannig komin, var sjóðurinn lagður niður. Og þó að hér á Alþ. væri lagt til að halda áfram að leggja í þennan sjóð, þá hreif það ekki. En strax og búið var að leggja þennan sjóð niður, var farið að safna í margar skúffur. Fyrst í tvær, aðra til þess að brúa Blöndu fyrir og úr hinni skúffunni til þess að brúa Jökulsá í Fljótsdal.

Það er gert ráð fyrir, að brúin á Blöndu muni kosta á aðra millj. kr., eða 1,4 til 1,6 millj. Það er víst, að þegar svo margar smáár eru óbrúaðar enn í landinu sem raun ber vitni, þá verður ekki hægt að fá fjárveitingu úr ríkissjóði á einu ári, er nægir til þess að brúa þessa stóru á, heldur mun líða langur tími þangað til nógu er safnað til þess. Það mun kosta töluvert á þriðju millj. kr. að brúa þá af stóránum, sem mest kostar að brúa, og þótt hæstv. Alþ. sé þegar búið að samþykkja að byggja þá brú, er enn ekki farið til þess og ekki veitt neitt fé enn til þeirra framkvæmda, enda þótt þessi sjóður sé kominn á stað til þess að byggja brúna á Blöndu fyrir og yfir Jökulsá í Fljótsdal. Á meðan þessir peningar liggja þarna í sérstökum skúffum, eru þeir ekki til neins annars en að geyma þá þar. Það fer hins vegar eftir vilja hæstv. Alþ. á hverjum tíma, hvað það veitir til smábrúa. En þegar aðstaðan er þannig, að þessir sjóðir eru til á sérstökum stað, sem ekki verða notaðir nú þegar, en fyrir liggur knýjandi nauðsyn fyrir byggingu annarra smærri brúa í sama héraði og hér er um að ræða, í Húnaþingi, tel ég rétt að nota þennan sjóð til þess, og á það benti ég í fyrra við atkvgr. fjárl. Ég benti þá á, að nóg fé væri þarna til staðar til þess að brúa þessar tvær ár í Vatnsdalnum, og ætti slíkt ekkert að tefja fyrir byggingu Blöndubrúar, þegar þar að kæmi, því að þá mætti vera búið að láta í hennar skúffu aftur það, sem þessum brúm síðar verður ætlað. Það er áreiðanlegt, að þegar búið er að safna 1,8 millj. kr. í byggingarsjóð Blöndubrúar, þá verður búið að byggja þessar tvær brýr í Vatnsdalnum.

Það er þannig ástatt með þessar tvær brýr, sem ég vil í bili byggja fyrir það fé, sem ætlað er til Blöndubrúar, að í því héraði, sem þessar tvær ár liggja um, eru nú að hefjast mjólkurflutningar til Blönduóss, og er þá nauðsynlegt fyrir héraðið að fá þessar brýr, til þess að hægt sé að hringaka dalinn og koma þannig heim á hvern bæ til þess að taka mjólk, en að öðrum kosti verður að flytja hana frá bæjum austanvert í dalnum yfir ána, sem getur orðið ófær oft og einatt.

Ég ætla ekki að fara í neinn samanburð á þessum brúm. Það liggur ekki fyrir, því að ég geri ekki ráð fyrir, að þessar framkvæmdir, sem ég legg hér til, að gerðar verði, tefji neitt byggingu Blöndubrúar, því að það mun verða búið að leggja fé til þessara brúa, þegar að því kemur að byggja Blöndubrú. Það má segja, að bygging Blöndubrúar sé nauðsynleg að því leyti, að hún mundi tengja saman tvær sveitirnar, sem að henni liggja, og það mundi bæði verða betra og skemmtilegra fyrir alla þá, sem þar búa. Og síðar meir styttir hún þjóðleiðina milli Suður- og Norðurlands, en það verður ekki fyrr en vegurinn kemur um Reykjabraut og Svínadal. Það getur komið fyrir í einstaka tilfellum, að Blöndubrú sé nauðsynleg vegna flutninga að vetrinum, því að stundum leggur þannig snjó, að hægara er að aka upp Svínadalinn. En það er þó ekki nærri alltaf, að sú leið sé færari en Langadalsvegurinn, og ég er ekki viss um, að Húnvetningum þyki sér neinn greiði gerður með því, að það opinbera hætti snjómokstri á Langadalsbraut, þannig að þeir verði sjálfir að halda þeirri leið opinni að vetrinum, en það er þeim nauðsynlegt vegna mjólkurflutninga. Og þá býst ég við, að þeim þyki sér frekar hagur að því að hafa ferðirnar um Blönduós, en ekki, að áætlunarferðirnar fari þar fram hjá, eins og verður þegar brúin á Blöndu er komin og vegurinn um Reykjabraut. Þetta er ekki sagt af því, að ég telji Blöndubrú ónauðsynlega. Það er síður en svo. Og ég veit líka, að með sama framlagi til hennar áfram getum við búizt við, að hún komi eftir 6–10 ár, en löngu fyrir þann tíma verður veitt fé til þess að brúa árnar í Vatnsdalnum, þó að menn sjái sér ef til vill ekki fært að leggja það fram nú.

Þess vegna óska ég, að þessari þáltill. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn. og hún athugi, hvort hún sér sér það fært að veita til þess fé að byggja brýrnar í Vatnsdalnum í ár eða að samþykkja tillögu mína. Enn er ekki búið að áætla kostnaðinn við Vatnsdalsbrýrnar. Það er ekki búið að slá því föstu enn af vegamálastjóra, hvar þær eigi að vera eða hvort þær eigi að vera ein eða tvær. Verði ein brú aðeins, útilokar hún nokkra menn frá mjólkurflutningum og verður dýrari. Ég hef hér í þessari till. til þál. slegið föstu, hvar ég vil láta þær koma. Ég vil leggja það undir álit hv. fjvn., hvort hún vill leggja fram fé nú til þessara brúa eða taka af því fé, sem ætlað er til Blöndubrúar. Það er hægt að fara hvora leiðina sem er. Kannske treystir hv. fjvn. sér til þess að taka upp á fjárl. fé til þeirra, eða þá, að tekið verði það fé, sem ætlað er til Blöndubrúar, sem ætti ekki að þurfa að tefja neitt þær framkvæmdir, þegar þar að kemur.

Ég vil enn að endingu minna á, að með þeim breyttu framleiðsluháttum, sem nú eru að ryðja sér til rúms í Húnaþingi, þá er nauðsynlegt að fá þessar brýr nú þegar.