05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (3554)

48. mál, brýr á Álftaskálará og Vatnsdalsá

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. A-Húnv. vil ég taka þetta fram: Í fyrsta lagi sagði hv. þm., að það hefði komið til orða að brúa Vatnsdalsá í einu lagi neðar, og að ég sé að leggja til að taka af einhvern þjóðvegakafla. Og í þriðja lagi væri búið að mæla fyrir brúnni, það hefði verið gert í sumar. Það er hvorki búið að ákveða að brúa Vatnsdalsá í einu né tvennu lagi. Það er ekki búið að taka neina ákvörðun um það. Ég talaði í fyrradag við Árna Pálsson verkfræðing um þetta, og sagði hann, að ekki væri búið að ákveða neitt um það enn. Og þessi 100 þús. kr. fjárveiting í fyrra, sem hv. þm. lagði til, að veitt yrði til að brúa Vatnsdalsá, var alveg út í loftið. Þá var ekki búið að mæla fyrir henni og ekki minntist hann þar á Álftaskálará og hefur því víst ætlazt til, að brúin kæmi neðar á ána. Fyrst í sumar var mælt fyrir brúnum og nú er verið að gera áætlanir um þær. En ég held fast við þá skoðun, að það væri hægt að taka fé til þessara framkvæmda til láns úr skúffunni, sem fé er geymt í handa Blöndubrúnni, og maður getur verið viss um, að peningarnir koma í skúffuna aftur, þegar á þeim þarf að halda fyrir byggingu brúarinnar á Blöndu, því að þar sem gert er ráð fyrir, að sú brú kosti á aðra millj. kr., en nú mun vera í brúarsjóðnum um 450 þús. kr., þá þykir mér ekki líklegt, að fjvn. vilji leggja til, að hafizt verði handa í sumar um þá byggingu. Þess vegna vil ég benda á þessa leið, að fá peningana lánaða úr skúffu Blöndubrúar til byggingar hinna brúnna, ef ekki fæst fjárveiting til þeirra í ár.

Það er stundum hægt að fara Svínadalinn. Þó mun það ekki vera hægt nú. Það mun nú vera allmikill snjór á milli Sólheima og Svínavatns, eða um einn og hálfan km. Það er því ekkert leggjandi upp úr því út af fyrir sig. Það er svo misjafnt, hvernig snjóinn leggur. En ég hef bent á, að það geti haft þýðingu fyrir ferðirnar endrum og eins að geta farið þá leið.

En þegar hins vegar Svínavatnsbrautin kemur, kemst Langidalurinn úr umferð, og munu þá Langdælingar óska eftir því, að hæstv. Alþ. vilji stuðla að því, að mokað verði hjá sér, svo að þeir komi frá sér mjólkinni.

Ég hef aldrei dregið í efa nauðsyn fyrir brú á Blöndu, og er ég þar sammála hv. þm. A-Húnv. En hitt er ég ósammála honum um, að á meðan peningarnir eru ekki notaðir, heldur aðeins geymdir í skúffunni, sé ekki miklu réttara að fá þá lánaða til þessara framkvæmda, en sjá um, að það verði þó ekki til þess að tefja neitt byggingu brúar yfir Blöndu.