05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (3555)

48. mál, brýr á Álftaskálará og Vatnsdalsá

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða löngum tíma til þess að ræða þetta mál hér, það er ákaflega þýðingarlaust. Það verður aldrei ákveðið með þáltill., hvorki þeirri, sem nú er til umr., né annarri, hvernig þessar brýr verða byggðar. Það þarf að ákveðast með fjárl. Svo er hitt aðalatriðið, að búið er að ákveða að byggja brúna yfir Blöndu og veita fé til þess. Og eftir því, sem maður frekast gerir ráð fyrir, verður byrjað á því verki í sumar, því að búast má við, að það taki fleiri en eitt sumar að byggja hana.

Eins og ég tók fram áður, var rætt um að byggja Vatnsdalsbrúna í einu lagi neðar í dalnum, en nú er búið að ákveða að byggja þær fram frá, eins og hv. þm. talar um í till. sinni. En allt þetta þvaður hans er af því, að hann veit, að flokksmenn hans í Vatnsdalnum voru ekki hrifnir af því, að flokksmenn þeirra á þingi voru á móti því að leggja nokkurn eyri í þetta mannvirki, og hv. flm. ætlar að friða huga þeirra með því að flytja þetta í þáltill. Það er eðlilegt, að Vatnsdælingar leggi kapp á að fá þessa brú. Hún er nauðsynleg, og þarf að byggja hana eins fljótt og hægt er, en ekki fyrir fé, sem ákveðið er til annarra framkvæmda, heldur með framlagi beint úr ríkissjóði.