19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í D-deild Alþingistíðinda. (3577)

63. mál, fæðingardeildin í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það, sem komið hefur fram í þessu máli varðandi forstöðuna, þá vil ég taka það fram, að mér hefur aldrei getað skilizt það á þeim mönnum, sem ég hef krafið upplýsingar, að það hafi staðið á fæðingardeildinni vegna rifrildis um forstöðuna, heldur vegna þess, að staðið hefur á gjaldeyri og yfirfærslum á efni til byggingarinnar. — Annars er rétt að athuga allar skoðanir, sem koma fram í málinu.

Hv. þm. S-Þ. var að minnast á bíla í þessu sambandi. Þessir bílar, sem nú eru að koma, eru hér af völdum fyrri gjaldeyrisyfirvalda og eru því ekki sök núverandi gjaldeyrisyfirvalda. Annars hygg ég, að full ástæða væri til að fara fyllilegar út í það mál. En það er harla einkennilegt að halda því fram hér, að það sé minnkun fyrir mig og landlækni, hvernig þannig hafi verið haldið á gjaldeyrinum. Það er engin minnkun fyrir mig, það er minnkun þeirra, sem sóuðu gjaldeyrinum þannig, og menn eiga kröfu á að fá að vita, hvernig á málunum hefur verið haldið, og það mun verða gert. Ég tók það fram áður, að það hefur engin áhrif á málið, hvort þessi till. verður samþ. Við munum gera allt, sem við getum, til þess að hrinda þessu í framkvæmd. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en óska að lokum, að málinu verði vísað til nefndar.