05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (3588)

64. mál, Skálholtsstaður

Flm. (Jónas Jónsson):

Það þarf ekki að skýra þetta mál mjög ýtarlega, vegna þess að öllum er kunnugt um, að síðan Skálholt lagðist niður sem biskupssetur og skólasetur fyrir hálfri annarri öld, hefur mannfélagið ekkert gert til þess að sýna þessum stað sóma. Þetta er óþolandi, vegna þess að nú með auknum samgöngum kemur fjöldi manna á þennan stað og sér þá vanrækslu, sem hann er í. Ég segi, að mannfélagið hafi vanrækt þennan stað, en ekki þeir bændur, sem hafa búið þar. Þeir hafa setið staðinn eins vel og unnt er fyrir einstaklinga að sitja hann og sérstaklega sá, sem hefur verið þar nú síðast, sem hefur gert þar miklar jarðabætur miðað við, að það er einn maður, sem gerir þær, en ef hlynna á að Skálholtsstað eins og með þarf, má það ekki miðast við, að einn maður geri það. — Till., sem kom fram um skóla í Skálholti, snertir ekki þetta, og þar að auki er hann hugsaður nokkra km frá Skálholti, svo að það rekur sig ekki á. Nú er þetta þannig, að þetta er kirkjunnar staður og menntasetur og þetta verður ekki reist við á stuttum tíma. Það hefur þurft 20 ár til þess að rétta Reykholt við, og þurfti til þess mikið fé. Ég vil taka sem dæmi um það, hvað það kostar að reisa svona staði við, að það var fyrst í sumar fyrir Snorrahátíðina, sem lögð var vatnsleiðsla til þess að tryggja staðnum nægilegt vatn. Þetta kostaði mikið fé, og það er það, sem með þarf.

Ég legg þess vegna til, að skipuð sé n. manna, sem hafi áhuga fyrir þessu máli, til þess að undirbúa nauðsynlegar umbætur á staðnum, og að í þeirri n. eigi sæti biskup landsins, búnaðarmálastjóri, húsameistari ríkisins, fornminjavörður og þjónandi prestur á staðnum. — Ég vil svo óska þess, að þessari till. verði vísað til allshn. og umr. frestað.