27.01.1948
Sameinað þing: 37. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í D-deild Alþingistíðinda. (3602)

86. mál, réttindi Íslendinga á Grænlandi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að koma hér með nokkrar hugleiðingar í sambandi við þetta mikla mál.

Þetta mál er, eins og þegar hefur verið tekið fram, ákaflega mikilvægt og því nauðsynlegt, að við gerum okkur sem bezt grein fyrir því. Ég vil taka fram, að því fer fjarri, að ég hafi til fulls gert mér grein fyrir málinu, og þær hugleiðingar, sem ég kem með, kunna ef til vill að breytast. Ég vil enn fremur taka fram, að þessar hugleiðingar flyt ég á mína ábyrgð persónulega, án þess að minn flokkur hafi tekið þar nokkra afstöðu.

Ég held, að þegar við ræðum mál eins og framtíðarrétt okkar við Grænland, þá sé nauðsynlegt, að við gerum okkur ljóst, á hvers konar grundvelli skuli byggja rétt okkar. Ég held, að sá lögfræðilegi grundvöllur, sem sérstaklega hefur verið rætt um í sambandi við þetta mál, sé engan veginn einhlítur, hvorki frá okkar sjónarmiði sérstaklega í þessu máli né reynist vera það í heimsstjórnmálunum, þegar ákvarðanir eru teknar.

Ég verð að segja, án þess að gera á nokkurn hátt lítið úr því, sem haldið er fram frá lögfræðilegu og sögulegu sjónarmiði, að ef við athugum þá atburði, sem hafa verið að gerast og eru nú að gerast í heiminum, þá er fleira, sem taka þarf tillit til en sú lögfræðilega hlið. Ég fyrir mitt leyti vil, að við athugum. hvaða siðferðislegan rétt við höfum, áður en við ákveðum afstöðu okkar í slíku vandamáli. Ég skal til samanburðar taka þá ákvörðun, sem gerð hefur verið í heimsstjórnmálunum viðvíkjandi Gyðingum og Aröbum. Ég býst við, að hver lögfræðilegur dómstóll hefði fram til 1919 talið, að Arabar ættu rétt til Palestínu, þar sem þeir hafa nú verið þar í 2 þúsund ár. Gyðingar hafa aftur á móti sínar menningarlegu, þjóðernislegu og sínar sterku siðferðislegu og náttúrlegu röksemdir. Eftir 1919 var þeim sleppt inn í þetta land, sem önnur þjóð hafði átt upp undir 2 þúsund ár. Nú hafa sameinuðu þjóðirnar ákveðið að stofna Gyðingaríki í þessu landi, sem önnur þjóð hefur haft yfirráð yfir í 2 þúsund ár og haft til landsins skýlausan rétt. Ég get ekki séð, að þetta sé byggt á lögfræðilegum forsendum, heldur siðferðislegum, menningarlegum, þjóðernislegum og sennilega pólitískum.

Ég vil taka fram, að jafnvel þó að það kynni að vera rétt, sem hv. þm. Borgf. hefur haldið fram og dr. Jón Dúason, að Grænland sé partur af Íslandi, þá vil ég mótmæla þeirri skoðun, að Grænland geti verið nýlenda Íslands. Ég býst ekki við, að við lítum nokkurn tíma á Grænland sem nýlendu Íslands, sem sé undir Ísland gefin með minni réttindum en menn hér á landi hafa. Og þegar það kemur fram á þessum tímum að krefjast Grænlands sem nýlendu, þá álít ég það órétt og í mótsetningu við allan siðferðislegan rétt, sem við Íslendingar byggjum okkar eigin sjálfstæði á. Ég tel, að við verðum fyrst og fremst að stinga hendinni í eigin barm. Rétturinn til Grænlands hlýtur fyrst og fremst að vera Grænlendinga sjálfra.

Og að svo miklu leyti sem þeir kunna að vera afkomendur og frændur okkar Íslendinga og geyma að meira eða minna leyti hjá sér þá réttarhugmynd og sjálfstæðiskröfur, sem að einhverju leyti kunna að byggjast á því ríki, sem þar hefur verið, áður en það kom undir Noregskonung, þá ber okkur, að svo miklu leyti sem þeir eru frændur okkar, að styðja þá í því máli. Sá réttur, sem Danir hafa til Grænlands og þeim var dæmdur af alþjóðadómstólnum, er enginn siðferðislegur réttur og engu meiri en sá réttur, sem þeir höfðu til Íslands á 18. öld, og sá siðferðislegi réttur til Grænlands hlýtur að vera þeirra manna, sem þar búa og heyja þá hörðu lífsbaráttu, sem þar er háð. Og okkur Íslendingum sem þjóð, sem hefur barizt fyrir því að öðlast sjálft frelsið, og höfum öðlazt það eftir margra alda kúgun, okkur hlýtur að renna blóðið til skyldunnar, að sú þjóð, sem þetta land byggir, fengi sinn rétt. Og ég býst við, að það séu margir Danir, sem líta þannig á málið. Það er vitað, að það er ekki þjóðin sjálf, sem ræður því, hvernig stjórnað er þarna, heldur er það lítil nefnd, sem hefur þar einokun, og mér er kunnugt um það, að frá hálfu mjög margra Dana hafa komið mjög harðvítugar árásir á það stjórnarfar, sem þar er ríkjandi. — Ég vil því, að það komi greinilega fram, þegar við Íslendingar tölum um afstöðu okkar til Grænlands, að við viðurkennum fyrst og fremst rétt þeirra manna, sem þar búa, til þess að ráða málum sínum sjálfir, — þann rétt, sem öllum lögum er æðri.

Hvað snertir hins vegar það spursmál um Grænland, sem er næstum eins stórt og heil heimsálfa, — réttinn til að hagnýta þau auðæfi, sem þar eru, álít ég, að það mál eigi að athuga alveg sérstaklega. Ég skal ekki fara inn á hinar lögfræðilegu og sögulegu forsendur í þessu sambandi, en halda mig við þann siðferðislega rétt, sem þarna kemur til greina.

Að svo miklu leyti sem þjóðin, sem byggir Grænland, hefur ekki möguleika til að hagnýta sér auðlindir þess, álít ég ekki óeðlilegt, að við Íslendingar gerðum kröfu til þess að fá að hagnýta þær auðlindir, sem þar eru. Með því á ég ekki við, að við hefðum þar nein einokunarréttindi, heldur jafnrétti og jafnvel forréttindi fram yfir flestar aðrar þjóðir. Ég vil byggja þessa kröfu á því, að þjóð okkar hefur um aldaraðir haldið uppi byggð hér á norðurhjara veraldar, við erfiðustu skilyrði, sem nokkur þjóð hefur búið við. Við og Grænlendingar höfum allar þessar aldir barizt við erfiðari lífsskilyrði en nokkur önnur þjóð í Evrópu hefur þurft að berjast við á þeim tíma. Báðar þessar þjóðir, Íslendingar og Grænlendingar, hafa háð þessa baráttu þannig, að það hefur legið við, að þjóð okkar hafi farizt í þessu róti, og það er fyrst núna, sem við erum búnir að vinna upp það, sem við höfðum tapað vegna þess, að við höfðum í fyrsta lagi átt víð svo mikla erfiðleika að stríða, og í öðru lagi vegna þeirrar kúgunar, sem við höfum orðið að sætta okkur við vegna annarra þjóða. Þess vegna eigum við nokkurn rétt á því, þegar þess er gætt, hvað við höfum lagt til málanna, hve miklar mannfórnir við höfum fært, þá eigum við siðferðislega kröfu til þess, að tekið sé tillit til þessara mannfórna okkar, þegar það er gert upp, hvaða þjóðir skuli hafa aðgang að þessum auðlindum. Og ég vil taka fram, að þær fórnir, sem Grænlendingar hafa fært, gefa þeim auðvitað enn meiri rétt en okkur.

En þó byggist þessi réttur okkar ekki aðeins á siðferðislegum forsendum. Ég vil taka undir það, sem hv. frsm. réttilega tók fram, að þessar kröfur okkar, eins og allra þjóða, byggjast fyrst og fremst á möguleikanum til þess að geta lifað. Við höfum byggt tilveru okkar á fiskveiðum, en aðrar þjóðir hafa hagnýtt sér þessi fiskimið þannig, að nú er hætta á, að þau fari að ganga til þurrðar. Ef þessi fiskimið, sem við höfum byggt svo mikið tilveru okkar á, eru eyðilögð af þessum þjóðum, er sjálfsagt, að við gerum kröfu til þess, að við fáum frá öðrum þjóðum aðgang að þeim fiskimiðum, sem hér um ræðir.

Í öðru lagi, þá eru í þessu landi, eins og hv. frsm. gat um, mjög miklar náttúruauðlindir. Við Íslendingar höfum sérstaka möguleika á því að framleiða, vegna fossa okkar og hveraorku, og gætum komið hér upp stóriðju, ef ekki vantaði til þess flestöll hráefni. Ef meginið af þeim hráefnum, sem þarf til stóriðju á Íslandi, væri til á Grænlandi, þá væri mjög eðlilegt, að við Íslendingar, í samstarfi við Grænlendinga og fleiri þjóðir, gætum haft sérstakan rétt til að vinna þau hráefni og hagnýta þau. A. m. k. finnst mér sjálfsagt, að það komi fram strax í þessu máli, að Grænlendingar og Íslendingar og kannske fleiri þjóðir hafi meiri rétt til þess að hagnýta sér slík auðæfi en ýmsar stærri þjóðir heims, sem hafa nægilegt af slíkum hráefnum hjá sér. Við vitum það af sögu mannkynsins síðustu 9 aldir, að stærstu þjóðir heimsins hafa lagt undir sig meginið af hnettinum, þótt þær hefðu nægilegt heima hjá sér. Ég álít, að það væri mjög illa farið, ef hin miklu náttúruauðæfi Grænlands lentu í klóm stórþjóða, sem mikið vald hafa til þess að geta lagt undir sig auðæfi hér og hvar um alla veröld. Mér finnst, að Grænlendingar, Íslendingar og e. t. v. aðrar þjóðir á norðurhjara veraldar hefðu fyrst og fremst rétt til slíkra auðlinda. — Ég álít, að þegar við förum að ræða afstöðu okkar til þessa máls, eigi að taka fullt tillit til þess siðferðislega réttar, sem okkur ber í þessu sambandi, sem byggist á skilyrðum þjóðar okkar, fórnum þjóðar okkar á undanförnum öldum, og þann rétt getum við svo enn betur stutt, eftir því sem okkur sýnist, með sögulegum og lagalegum rökum.

Við verðum einnig að gera okkur ljóst, að meðferð okkar á þessu máli hefur ekki aðeins þýðingu fyrir augnablikið, eins og hv. frsm. tók fram, heldur fyrir framtíðina. Okkur, sem berum gæfu til þess að vera fyrsta kynslóðin, sem stjórnar hér á Íslandi eftir að við höfum öðlazt fullt sjálfstæði, okkur ber að gæta þess í hvert skipti, sem við mótum afstöðu okkar út á við, að hugsa ekki aðeins frá sjónarmiði þeirra þarfa, sem við höfum nú á þessum áratugum, heldur frá sjónarmiði þjóðar okkar í framtíðinni. Þótt við séum enn fámennir, vonum við, að hér eigi eftir að búa íslenzk milljónaþjóð og sú þjóð þurfi fyllilega að geta gert kröfu til þess, að lífsmöguleikar hennar hafi ekki verið eyðilagðir á fyrsta tímabili hins íslenzka lýðveldis. Við verðum að hugsa um þær kynslóðir, sem koma á eftir okkur, að búa svo í haginn fyrir þær, að þær hafi einhverja lífsafkomumöguleika.

En hvað sem snertir nú okkar siðferðislega rétt, þann rétt, sem við kynnum að hafa lagalega eða sögulega, þá vitum við allir, að það er einu sinni svo í veröldinni, að þótt við gætum sannað okkar siðferðislega rétt, þá þýðir það ekki venjulega um leið að fá slíkt viðurkennt. Það kostar venjulega langa og harðvítuga baráttu, alls konar pólitískt samstarf eða samninga að fá slíkan rétt viðurkenndan, og við Íslendingar þekkjum þjóða bezt, hvað það hefur kostað. Við sjáum hins vegar, að slíkur áróður fyrir góðum málstað getur áorkað mjög miklu, sbr. t. d. þá afgreiðslu, sem Palestínumálið hefur fengið hjá þingi Sameinuðu þjóðanna. Spurningin fyrir okkur er því þessi: Á hvern hátt getum við gert okkur vonir til að fá þann siðferðislega rétt viðurkenndan, sem við álítum, að við ættum þarna? Ég álít, að við ættum í þessum efnum að leita samstarfs við frændþjóðir okkar. Í fyrsta lagi er þetta land, sem allir viðurkenna, að Grænlendingar hafi tilkall til sjálfir. Í öðru lagi vitum við, að Færeyingar sem þjóð gera sérstakar kröfur til að fá þarna ítök, sökum þess að fiskimið þeirra hafa verið eyðilögð af öðrum þjóðum á undanförnum áratugum. Við vitum í þriðja lagi, að Norðmenn hafa gert sérstakar kröfur til hluta af Grænlandi og til fiskimiða við Grænland. En þó alveg sérstaklega eru það Danir, sem við vitum, að hafa hið raunverulega vald yfir Grænlandi sem stendur, hvort sem við viljum viðurkenna, að það sé byggt á lögum eða siðferðislegum rétti. Þetta eru þær þjóðir, sem fyrst og fremst hafa hér réttar að gæta. Það var einu sinni sú tíð, að danska krúnan réð yfir öllum þessum löndum. Um Norður-Atlantshafið var svo að segja hálfhringur, sem Danir höfðu sölsað undir sig. Gamla danska ríkið hefur verið að liðast í sundur á undanförnum árum. Hins vegar höfum við, þessi þjóð, sem einu sinni lutum þessu valdi, ekki beinna hagsmuna að gæta í þessu sambandi, heldur lítum við svo á, að það séu ýmis bönd, sem tengja okkur saman. Ég kem inn á þetta hér vegna þess, að mér hefur í blöðum bæjarins verið blandað nokkuð inn í þetta mál, vegna þess að danskur blaðafulltrúi, sem hér var, Ole Killerich, mun í dönsku blaði hafa skrifað nokkuð um viðtal, sem hann hefur átt við mig, og kemur hann inn á Grænlandsmálin í þessu sambandi og telur þessa kröfu standa að einhverju leyti í sambandi við hugmynd, sem ég hef sett fram við hann þar. Ég skal segja frá þessu samtali hér.

Ég talaði við þennan mann af því að hann var frjálslyndur Dani, sem þótti leitt til þess að hugsa, að við stofnuðum lýðveldi. Þetta var aðeins einkasamtal og ég kom ekki fram með neinar till., heldur setti aðeins fram mínar persónulegu hugmyndir. Ég leiddi honum fyrir sjónir, að frá hans sjónarmiði sem frjáls, ungs Dana, sem þá tæki virkan þátt í baráttunni fyrir föðurlandi sínu gegn Þjóðverjum, þyrfti það ekki að vera neitt leiðinlegt, að Íslendingar skildu að fullu við Dani og stofnuðu lýðveldi, því að það mundi ekki verða til þess að fjarlægja þessar þjóðir, heldur skapa grundvöll að betra samstarfi milli þeirra. Það væri óhugsandi frá sjónarmiði Dana og þá sérstaklega þeirra, sem stæðu fremst í frelsisbaráttunni gegn Þjóðverjum, að ætla sér að halda að einhverju leyti, þó ekki væri nema konungsnafninu yfir Íslendingum. Það hefði farið þannig með Noreg, þannig færi á næsta ári með Ísland og fleiri af þessum löndum, sem einu sinni hefðu verið undir dönsku valdi. Færeyjar mundu verða sjálfstæðar og einhvern tíma kæmi að því, að svipað yrði um Grænland. Það væri ekki hægt að standa á móti þessum kröfum þjóðanna, og það ættu Danir að geta skilið, þar sem þeir stæðu sjálfir í þjóðfrelsisbaráttu. Ég sagði því við hann, að ég áliti heppilegast, að í Danmörku kæmi fram barátta fyrir því, að tekið yrði vel í frelsiskröfur þessara þjóða, til þess að þessi skilningur gæti orðið með slíku móti, að sem bezt samstarf yrði milli þessara þjóða á eftir. Að því er t. d. Færeyjar snerti mundi það, ef Danir styddu að því, að Færeyingar öðluðust sama sjálfstæði og þeir sjálfir krefðust, verða til þess að gera sambandið og samstarfið betra milli þjóðanna. En í hvert skipti, sem mótstaða kæmi frá Dönum gegn sjálfstæðiskröfum Færeyinga, mundu útlend öfl ýta undir slíkar kröfur og um leið reyna að tengja sig þeim nánari böndum. Það væri t. d. enginn vafi á því, að í Englandi væru öfl, sem ynnu að því að ýta undir Færeyinga að skilja við Dani með það fyrir augum að láta Færeyinga komast undir ensk yfirráð. Þess vegna ættu Danir að ýta undir sjálfstæðiskennd Færeyinga og hjálpa þeim, því að þeir hefðu svo margra sameiginlegra hagsmuna að gæta.

Þetta var ég að reyna að skýra fyrir Ole Killerich frá mínu sjónarmiði. Norrænu þjóðirnar yrðu að standa saman og vernda þá hagsmuni, sem þær eiga hér að gæta, til þess að aðrar þjóðir utan þess hagsmunasvæðis geti ekki tekið þennan rétt af þeim. Ég álít það mjög þýðingarmikið, að við Íslendingar gætum átt þess kost að hagnýta auðæfi Grænlands, en ég álít hins vegar ekki neitt mæla með því, að við fengjum þessu framgengt, nema aðrar þjóðir, sem ég hef nefnt, fengju að einhverju leyti líkan rétt. Ég held, að ráðlegt væri að reyna að vinna frjálslynda menn í Danmörku og öðrum löndum til skilnings á þessu máli og fá þá til þess að standa saman um lausn þessa Grænlandsmáls, sem tryggi það, að Grænland varðveitist innan þeirrar norrænu heildar, sem það hefur verið í. Ég hef þá trú, að það mundi vera hægt að skapa slíkan skilning hjá mönnum t. d. í Danmörku. Ég hef þá trú á dönsku þjóðinni, eftir það sem hún sjálf hefur þurft að ganga í gegnum á undanförnum árum til þess að berjast fyrir frelsi sínu, að hún muni í fyrsta lagi taka þá afstöðu til Grænlands að viðurkenna sjálfstæðisréttindi þeirra manna, sem það land byggja, og í öðru lagi vilja hafa samvinnu við hin Norðurlöndin, ef þau hafa áhuga fyrir, um hagnýtingu náttúruauðæfa landsins og um eins konar sameiginlega utanríkispólitík þessara landa um að standa á verði um, að áhrif annarra stórþjóða grípi ekki þarna inn í. Við vitum, að það kemur til með að hafa mikla þýðingu hvað framtíðina snertir, hvort land eins og Grænland yrði skoðað sem land, þar sem Grænlendingar, Íslendingar, Færeyingar, Danir og Norðmenn ættu að einhverju leyti samstarf um að tryggja hagnýtingu náttúruauðæfa þess, að sjálfsögðu með forréttindum þeirrar þjóðar, sem það byggir, eða hvort það t. d. lenti í höndum einhvers stórveldis. Við vitum ekki, hvaða auðæfi kunna að vera fólgin þarna, en við vitum, að þau lönd, sem ég nefndi áðan — að Noregi undanteknum — eru fátæk af öllum málmum og öðru slíku, sem að öllum líkindum er fólgið í jörðu á Grænlandi. Og ef það land yrði rannsakað norður við heimsskautsbaug, kunna að leynast þar auðæfi, sem engan okkar grunar í upphafi atómaldarinnar, en það er álit fróðra manna í þessum efnum, að pólarlöndin muni vera rík af þeim efnum, sem notuð eru til kjarnorkuframleiðslu.

Ég held þess vegna, að okkur Íslendingum beri að athuga þetta mál mjög gaumgæfilega og um leið reyna að koma okkur niður á víðsýna utanríkispólitík í þessum efnum. Vil ég á engan hátt draga úr þeirri andstöðu, sem við Íslendingar eigum að hafa til danskrar einokunar á Grænlandi, en ég vil hafa samstarf við alla frjálslynda Dani um þetta mál.

Við höfum nú séð, hverju andleg barátta Gyðinga hefur getað áorkað undanfarið, er hefur nú leitt til bráðabirgðalausnar Palestínuvandamálsins, og ég álít, að við Íslendingar eigum að koma okkur niður á, hver sé hinn siðferðislegi réttur í þessu máli, og að reyna að finna heppilegustu leiðina til þess að fá slíku réttlæti fullnægt til handa þeirri þjóð, er Grænland byggir — og okkur hinum Norðurlandaþjóðunum.

Hitt vil ég endurtaka, að við Íslendingar gerum áreiðanlega ekki kröfu til þess að eignast nýlendur. Við höfum nógu lengi verið nýlenduþjóð til þess að geta unnað nokkurri þjóð þess hlutskiptis. Það sæti líka illa á okkur að ætla nú, þegar við erum nýsloppnir úr 7 alda erlendri kúgun, að fara að gera kröfu til yfirráða yfir annarri þjóð. Það sem hér er um að ræða, er fyrst og fremst það að reyna að koma á samstarfi milli þeirra norrænu þjóða, sem þarna hafa hagsmuna að gæta, og þeirrar þjóðar, sem Grænland byggir.

Þetta er smávægis hugleiðing, sem ég vildi, að kæmi fram á þessu stigi málsins. Ég álít það mjög gott, að þetta mál skyldi koma hér fram, og að okkur beri að taka það mjög alvarlegum tökum og að reyna að afgreiða það þannig, að við stöndum þar á grundvelli þess réttar, sem ekki verður vefengdur, og gerum kröfu til þeirra hagsmuna, sem við álítum, að sé óhjákvæmilegt annað en að gera fyrir íslenzku þjóðina í framtíðinni, en með fullu tilliti til þeirrar þjóðar er Grænland byggir.