28.01.1948
Sameinað þing: 38. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (3605)

86. mál, réttindi Íslendinga á Grænlandi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Af ástæðum, sem ég hef skýrt forseta frá, þurfti ég að hverfa frá um stund og get því einu svarað af ræðu hv. þm. Borgf. (PO), er ég hef heyrt. Vil ég taka það fram, að ég ber ábyrgð á því einu, sem ég hef sagt, en ekki á ályktunum annarra af orðum mínum.

Ég gerði glögga grein fyrir viðhorfi mínu í þessu máli í gær og tel mig ekki þurfa að bæta neinu þar við. Ég taldi ástæðulaust að rekja það, sem réttindum Íslendinga á Grænlandi er fært til stuðnings, vegna þess að það hafði flm. till. sjálfur gert með prýði og af hita og þunga. Hins vegar áleit ég skyldu mína að rifja upp þau atriði, sem fyrirfram er vitað, að færð verða fram þar á móti. Mér skilst að vísu, að ég hafi orðið slappur í hlutleysinu, er ég gagnrýndi rök Jóns Dúasonar í umræddri Tímagrein, og að ég hafi átt að slíta ummæli hans út úr sambandi. En því fer fjarri. Ég las upphaf greinarinnar eins og það var. Ragnar Lundborg virðist byggja aðalrökstuðning sinn á sjónhelginni í nýbirtri grein og telur Íslendinga eigendur Grænlands, af því að til Grænlands megi sjá frá Íslandi. En þá færi nú, eftir þessari kenningu, eigum hv. þm. Borgf. að verða hætt, því að margra augu sjá heim að Ytra-Hólmi frá Rvík. (PO: Eða eigur margra í Rvík frá mér). Ég kallaði þessa kenningu furðulega og held, að allir hljóti að vera mér samdóma um það. Þó að margir mætir menn, sem ég vil engan veginn gera lítið úr, hafi haldið fram rétti vorum til Grænlands, eins og t. d. Pétur Ottesen, sem ég met manna mest, þá hafa ýmsir færustu lögfræðingar Íslands verið á öðru máli, og er það engin ný bóla, frá mér, er ég tel, að kenningar Jóns Dúasonar fái ekki staðizt til hlítar. Þegar í fyrra benti ég á þetta á Alþ., er rætt var um að gefa út rit dr. Jóns Dúasonar á ensku, og lagði til, að leitað væri álits fræðimanna, áður en hafizt væri handa. Dr. Jón Dúason hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf, og vil ég engan veginn gera lítið úr því eða særa hann, en hann hefur ekki meðal fræðimanna unnið kenningum sínum samþykki, og margar staðhæfingar hans telja þeir ekki fá staðizt. Allur þorri þeirra fræðimanna, sem hafa látið álit sitt í ljós, er um þetta mál á annarri skoðun en hann, og er bezt að gera sér það ljóst. Annað mál er það, að dr. Jón Dúason hefur fórnað heilli ævi til að rannsaka, þetta mál og dregið margt merkilegt fram í dagsljósið, en hann hefur dregið af því ályktanir, er ekki fá staðizt. — Þetta kom fram hjá hv. þm. Borgf. (PO), er honum fannst ég verða slappur í hlutleysinu með því að minnast á eina af kenningum dr. Jóns Dúasonar.

Að öðru leyti vil ég ekki gera upp á milli kenninga þeirra, er fram hafa komið sem rök í þessu máli. Tel ég rétt, að það sé gert með þeim athugunum, sem hv. utanrmn. gerir á sínum tíma. En það var nauðsynlegt að benda á þau rök gegn till., sem helzt liggja í augum uppi, þar sem málstaður vor kynni annars að verða álitinn sterkari en hann er í raun og veru.