24.03.1948
Sameinað þing: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í D-deild Alþingistíðinda. (3608)

86. mál, réttindi Íslendinga á Grænlandi

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég vil svara þessari fyrirspurn, sem hér hefur verið beint til mín, nokkrum orðum.

Það er rétt, að vegna þess að formaður utanrmn. liggur veikur, ætti varaformaður að gegna störfum í forföllum hans. En það hefur þó verið venja, að ég held ófrávíkjanleg, að varaformaður hefur ekki tekið upp þessi störf, nema honum bærist tilkynning frá formanni um forföll hans, en ég hef enga slíka tilkynningu fengið, því að þess hefur ávallt verið vænzt, að formaður gæti tekið til starfa einhvern daginn. — Það hefur einnig verið venja í n., að lítt er boðað þar til funda, á meðan þing situr, nema ríkisstj. óski þess, að n. komi saman, og sízt gat ég, þótt ég væri varaformaður, krafizt funda. Það hafa verið boðaðir 2–3 fundir, á meðan formaður hefur verið veikur, og allir eftir ósk ríkisstjórnarinnar. Ég tel rétt að geta þess, að fyrir fáum dögum vakti hæstv. dómsmrh. athygli mína á þessu, og sagðist ég mundu boða fund, ef ríkisstj. óskaði þess. Út af þessari fyrirspurn get ég sagt það, að verði formaður sjúkur enn um skeið, svo að hann geti ekki gegnt störfum, þá mun ég sjá um, að málið verði tekið fyrir í n. og afgreitt.