05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (3646)

105. mál, Faxaflóasíld

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég var nú ekki í salnum, er þm. sá, er síðast talaði, hóf mál sitt, og var það tilviljun ein, að ég fékk að vita, að vakið var máls á máli, sem mig snertir. Ég tek undir það, að þetta með síldina og hvernig eigi að koma henni í peninga er mikið vandamál og er búið að vera það síðan síldveiðar hófust í haust. Blað hv. þm., Þjóðviljinn, hefur logið því að undanförnu, að ég væri kærulaus um þessi mál. Mér er því þetta kærkomið tækifæri frá hv. þm. að hrekja þessa lygi.

Er sýnt var, að síldveiðarnar yrðu miklar, það miklar, að verksmiðjurnar á Akranesi og Patreksfirði hefðu ekki undan, var sýnt, að nauðsynlegt væri að sigla með síldina til Siglufjarðar. Formaður síldarverksmiðja ríkisins fór með þann vanda að finna úrlausn þessa máls, þann vanda að fá síldina flutta norður. En einn stjórnarmeðlimum síldarverksmiðjanna, er þm. sósíalista komu að, torveldaði mjög þetta starf með þverúð sinni og pexi út af smámunum. Þessi maður var Þóroddur Guðmundsson, flokksbróðir hv. þm. Siglf. Vegna þessa var leitað til mín sem sjútvmrh., og voru fundir haldnir upp í stjórnarráði til að leita sætta. Og er á það var minnzt í stjórn síldarverksmiðjanna, að þjóðarheill væri í voða, ef ekki væri staðið vasklega að því að koma flutningunum af stað, þá var það fulltrúi kommúnista, sem sagði: „Hvað varðar okkur um þjóðarheill?“ Ég hef sagt honum, og síldarverksmiðjustjórnin öll, að leggja önnur sjónarmið til hliðar, en leggja áherzlu á að hagnýta aflann, sem á land kæmi, en ekki að karpa um, að kostnaðurinn lenti á einum aðila eða öðrum, en binda sig við það heildarsjónarmið að vinna með þjóðarheill fyrir augum að þessum málum. Ég sagði tilknúður af því að ég vissi, að formaður stjórnar síldarverksmiðjanna var í vanda, að í þeim atriðum, þar sem um það væri að ræða að gera hlutina eða ekki og tregt væri með meiri hluta í stjórninni, yrði hann að gera þá á ábyrgð ráðuneytisins og að ég legði mig og stöðu mína að veði til þess að standa að baki honum í þessum efnum. Svona er nú gengið frá hlutunum af hálfu þess aðila, sem er fulltrúi hv. þm. Siglf. í stjórn síldarverksmiðjanna. Formaður stjórnarinnar sagði mér í gær, að ekki væri hægt að taka neina ákvörðun með fullum meiri hluta. Það er undarlegt, að menn skuli skrifa um þessi mál eins og gert er í blaði því, sem hv. þm. stendur að. Ég veit ekki betur en að hvert tækifæri hafi verið notað til þess að koma síldinni á markað eða til vinnslu. Eimskipafélagið hefur verið fengið til að sleppa tveimur af skipum sínum og þremur leiguskipum, þar á meðal True Knot. Eimskipafélagið sleppti einu þeirra þremur klukkutímum áður en það átti að fara til Ameríku og búið var að setja í það seglfestu og vörur. Það má því nærri geta, hvort ekki hefur verið nokkuð fast knúið á. Þá hafa og verið fest önnur leiguskip. Blað þm. segir, að Landssamband ísl. útvegsmanna hafi haft forustuna í þessum málum, en það hefur verið eftir fyrirmælum ríkisstj. og þeirra manna í stjórn síldarverksmiðjanna, sem hafa viljað greiða fyrir þessum málum. Vitaskuld getur sambandið ekki tekið að sér að leigja skip undir síld nema hafa ríkisstj. og verksmiðjustjórnina bak við sig. Ég kann ekki tölu á öllum þeim skipum, sem eru með í þessum flutningum, en vitað er, að um hávetur eru þessir flutningar erfiðir viðfangs, þó að skipakostur væri meiri en við höfum yfir að ráða nú. Veðrin, sem á skella, geta verið óviðráðanleg, svo að fresta verði flutningum dögum saman. Veðrið, sem skall á á dögunum, torveldaði flutningana, og enn hefur það gert trafala mikinn, svo að. True Knot hefur þurft að leita undan veðri og bjargaðist nauðulega til Patreksfjarðar.

Hv. þm. segist vera með till. um þetta mál, en til þess að koma henni á framfæri beitir hann fast að óþinglegum leiðum. Það er í athugun hjá verksmiðjustjórninni og þeim mönnum, sem hafa samvinnu um þessi mál, að leggja hér síld á land, en það er ekki hægt að fleygja henni hér og þar á opið svæði. Ég skal ekki fara út í einstakar hugmyndir, sem fram hafa komið í þessu efni, bæði hvað snertir Hvalfjörð og Reykjavík, en sannlega hef ég látið mér detta þann möguleika í hug, og í gær var unnið að athugun á allstóru húsaporti, sem komið gæti til mála að leigja í þessum tilgangi, en það er sá stóri ágalli á því, að það er ekki undir þaki. Það gerir auðvitað ekkert til í veðri eins og nú er, en veðrið getur breytzt, og er þá erfitt að hafa miklar birgðir undir berum himni, ef rigning kemur, því að það hefur í för með sér stórkostlega rýrnun.

Ég skal svo ekki á þessu stigi fjölyrða frekar um þetta, en ég hlaut af gefnu tilefni að benda á óráðvendnina í málflutningi Þjóðviljans og hina þvermóðskufullu afstöðu fulltrúa kommúnista í verksmiðjustjórninni í afskiptunum af flutningunum til Siglufjarðar. Hann hefur bara viljað segja við bátana : „Gerið þið svo vel og komið með síldina til Siglufjarðar.“

Ég vil líka geta þess, að stjórnin vinnur að því eftir megni að fá síld flutta til útlanda. Ég hef séð því haldið fram í Þjóðviljanum, að ég held af hv. þm. Siglf., að munur sé á vinnubrögðunum nú og í tíð fyrrv. ríkisstj. Það mun koma í ljós. Þegar hv. þm. hafði þessi mál með höndum, var einn farmur sendur út undir umsjá hans, og kostaði hann fiskimálasjóð 60 þús. kr. Slík vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar.

Það er enn af hálfu ríkisstj., verksmiðjustj. og sjútvmrn. unnið að því að fjölga skipunum við flutningana, eins og unnt er. En þó að við fáum hin mestu skip, er veiðigengdin svo mikil, að rúm endist ekki, og veðrið getur líka komið hindrandi á milli. Það, að enn hefur ekki verið horfið að því að leggja síld hér á land, stafar af því, að það þýðir ekki nema undir sæmilega öruggum skilyrðum, svo að hún skemmist ekki. Hitt er sjálfsagt, að hafa þetta til athugunar, og það er það nú þegar hjá mönnum, sem með þessi mál fara, kannske ekki í þeim anda, sem till. hv. þm. er orðuð, að moka síldinni upp í hauga hvar sem er, en það er unnið að því að finna möguleika, sem eru nokkurn veginn forsvaranlegir. Ég geri ráð fyrir því, að vandfundin verði stór geymslupláss. Inni í Hvalfirði er verið að athuga þetta og hefur komið til mála að leggja síld á land í Hvítanesi. Þar er töluvert pláss undir þaki, og þó enn stærra undir beru lofti.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en ég varð að gefa þessar skýringar. Þó að ég verði að hafa daglegar álygar í blöðum þeim, er þessi hv. þm. stendur að, þá vil ég ekki liggja undir þeim þegjandi á Alþ., þótt hann geti svo haldið áfram rangfærslum sínum og stórlygum í blöðunum.