05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í D-deild Alþingistíðinda. (3651)

105. mál, Faxaflóasíld

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hæstv. fjmrh., að ég sé að reyna að gera sjómenn óánægða, það þarf hvorki mig né aðra til þess. Ég skal ekki neita því, að það eru ýmis vandamál í sambandi við þetta mál. En þetta mál verður að leysast. Og mér þykir furðulegt að heyra hæstv. ráðh. bera það fram hér, að ríkisstj. sé bundin á höndum og fótum um framkvæmd þessa máls vegna þess að Þóroddur Guðmundsson á sæti í stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Þetta eru ekki rök. Er ekki hægt að bera Þórodd Guðmundsson atkvæðum? Er ekki hægt að gera neitt í stjórn síldarverksmiðjanna vegna Þórodds Guðmundssonar? Þessu máli er hægt að bjarga þegar í stað, það er hægt að byrja á skipum, sem liggja við Ægisgarð, og leggja síldina í bing á Ægisgarðinn. Þar væri vafalaust hægt að koma fyrir 50–60 þús. málum, og það er sennilega það, sem er í öllum skipunum, sem nú bíða losunar. Þar er svo hægt að taka síldina í flutningaskip, þegar þau koma. Þetta væri hægt að gera þegar í dag, og væri þá sennilega búið að leysa málið.