08.12.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (3661)

105. mál, Faxaflóasíld

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir, er í raun og veru tvíþætt. Í fyrsta lagi, að allt, sem unnt er, verði gert til þess að ekki þurfi að koma til löndunarstöðvunar á Hvalfjarðarsíldinni, en hinn þátturinn er annars eðlis, eða um það, hver bera skuli áhættuna og kostnaðinn af þeim ráðstöfunum. Ég vil nú ræða báða þessa þætti nokkuð.

Þegar hinn óvænti uppgripaafli barst hér að landi af Hvalfjarðarsíld, þá voru landsmenn alveg óviðbúnir að flytja allan þann afla til verksmiðjanna til vinnslu. En ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að það hafi enginn beitt sér meira fyrir, að þetta mætti vel takast, heldur en sjávarútvegsmálarh., því að það má segja, að hann hafi lagt saman nótt og dag við að ráða fram úr þeim örðugleikum, sem skapazt hafa. Þetta starf hans hefur ekki heldur verið árangurslaust, því að það má telja kraftaverki næst, hvað mikið magn af síld er komið norður á svo skömmum tíma, sem hér hefur verið til stefnu. Ég skal ekki fara að rekja það í smáatriðum, en á það má benda, að það hefur verið tekinn floti frá öðrum störfum og það skip, sem alls ekki eru ætluð til slíkra flutninga, sem hér er um að ræða, enda hefur það haft sínar afleiðingar, þar sem eitt stærsta skipið varð fyrir áfalli og það fyrst og fremst vegna þess, að það er ekki útbúið fyrir þess konar flutninga sem hér um ræðir. Það er því óþarfi að bera ráðh. það á brýn, að hann hafi ekki sýnt áhuga á þessum málum, því að hann hefur í raun og veru gert allt, sem hugsanlegt hefur verið, til þess að ekki þyrfti að koma til löndunarstöðvunar. Hann hefur meira að segja látið athuga möguleikana á því að fylla skipsflak það, sem liggur hér inni á sundum, og flytja það norður eða geyma í því síld, og nefni ég það sem dæmi, hvernig hann hefur gert sér far um að athuga alla möguleika. Ég sé því ekki ástæðu til að ræða þessa hlið till. frekar, en vil næst víkja að hinu atriðinu.

Hæstv. ráðh. upplýsti, að nú væri greitt fyrir síldina 32 kr., en flutningsgjald norður væri 20 kr. pr. mál. Síldin kostar verksmiðjurnar því 52 kr. pr. mál. Nú vil ég spyrja flm. till., hvort von sé til, að þetta verð fáist aftur. Allir, sem hafa kynnt sér rekstur verksmiðjanna, komast að raun um, að á þeim er mikill rekstrarhalli, en sá rekstrarhalli stafar af ráðstöfunum, sem flm. þessarar till. gerði í sinni ráðherratíð. Hvort þær ráðstafanir voru góðar eða slæmar, skal ég ekki fara út í hér. En sé það tilfellið, að verksmiðjurnar fái ekki það fé aftur, sem þær þurfa að láta af hendi, en það er 52 kr. pr. mál að viðbættum vinnslukostnaði, sem búast má við, að verði hár nú, þá er mjög hæpið, að verksmiðjurnar geti tekið á sig meiri áhættu. Varðandi flutningskostnaðinn, þá hygg ég, að öll hin smærri skip séu ekki ofsæl af því flutningsgjaldi, sem þau fá nú, enda hef ég heyrt, að það sé 5–6 hundruð kr. halli á þeim á dag. Það styður líka þessa skoðun, að síldarskipin vilja heldur liggja hér dögum og jafnvel vikum saman en flytja síldina norður fyrir þetta gjald. Um stærri skipin skal ég ekki segja, en hins vegar er það vitað, að mjög mikill stofnkostnaður er við að hefja þessa flutninga, því að það þarf að breyta útbúnaði skipanna, og höfum við glöggt dæmi um það, hvernig fer, ef sá undirbúningur er ekki vandaður. Flutningur frá veiðiskipum til skips er reiknaður kr. 1,50 á mál. Þó má gera ráð fyrir, að það þurfi að auka þetta eitthvað, ef þarf að fara með síldina suður á flugvöll. Þá kemur til greina flutningur frá skipi og að þeim stað, þar sem síldin er geymd, og rýrnar síldin töluvert á geymslustað. Ég hygg að kr. 8,50 sé ekki nægilegt til að standast þann kostnað. Reynslan sannar þetta, þegar að því kemur. Þess utan er vitanlegt, að því lengur sem síldin er geymd, því minna verður fitumagn hennar, svo að ég hygg, að nú daglega komi ekki nema 12% í stað 16%, enda er það svo, að þær verksmiðjur, sem áður keyptu málið á 52 kr., aðrar en Síldarverksmiðjur ríkisins, mundu stöðva reksturinn nema málið yrði lækkað um 10 kr. Allt þetta sýnir, að boginn er spenntur eins og hægt er. [Frh.].