03.03.1948
Sameinað þing: 49. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (3679)

125. mál, rafmagnsþörf austurhluta Rangárvallasýslu og Mýrdals

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Mér kemur það einkennilega fyrir sjónir, að hv. 2. þm. Rang. skuli hafa á móti þessari þáltill., því að þótt eitthvað sé farið að undirbúa rannsóknir í þessum efnum, þá er langt í land, að þeim sé lokið, og lítið farið að gera í þessum málum, og þykir mér það ákaflega einkennilegt, ef ekki má koma fram með þessa þáltill. án þess að spyrja hv. þm. um leyfi. Er mér kunnugt um, að hann var að safna undirskriftum austur undir Eyjafjöllum s. l. haust til þess að reyna að herða á, að eitthvað yrði gert í þessum málum.

Ég tel þessa þáltill. fullkomlega tímabæra, því að hún fer ekki fram á annað en það, að þessari rannsókn verði flýtt og að henni lokinni verði lagt fram frv. um það, hvort eigi heldur að leiða rafmagn til þessara héraða frá Skógafossi eða Soginu. Margir hafa meiri trú á virkjun Skógafoss fyrir þessi héruð, og er ég þess fullviss, að það á langt í land, að rafmagn frá Soginu komist austur í Mýrdal. Við vitum það, að virkjunarmöguleikar Sogsins eru ákaflega miklir, en þó ekki óþrjótandi, og þess vegna, er það gefið mál, að við verðum að taka til athugunar aðra staði, sem virkjunarmöguleikar eru á, og álít ég vafasamt, hvort ekki sé hyggilegra að sjá þessum héruðum fyrir rafmagni frá Skógafossi, sem liggur miklu nær. Um þetta vil ég þó ekki fullyrða á þessu stigi — um það verða sérfræðingar að dæma, en þessi till. fer ekki fram á annað en það, sem gæti orðið til að flýta fyrir afgreiðslu þessa máls, og að niðurstöðum fengnum, á hvern hátt þetta mál verði sem hagkvæmast leyst fyrir þessar sveitir.