03.03.1948
Sameinað þing: 49. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í D-deild Alþingistíðinda. (3681)

125. mál, rafmagnsþörf austurhluta Rangárvallasýslu og Mýrdals

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð út af ræðum þeirra hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. V-Sk. Það, sem okkur greinir á um, er aðeins meiningamunur.

Hv. 1. þm. Rang. gat þess í ræðu sinni, að hann teldi heppilegra að virkja Skógafoss og fá þaðan raforku heldur en frá Sogsvirkjuninni. Um það geta auðvitað verið deildar meiningar, en ég vil leyfa mér að lesa bréf það, sem mér hefur borizt frá raforkumálastjóra, eftir að ég hafði gert fyrirspurn til hans um virkjun Skógafoss. Í bréfi þessu lýsir hann, hvað búið væri að gera og hvað eigi að gera í þessum efnum, og af því að mér virtist, að þessir tveir hv. þm. efuðust um það, sem ég sagði áðan, þá vil ég nú lesa bréfið, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðvíkjandi fyrirspurn yðar, herra alþm., um áætlanir um virkjun Skógafoss skal eftirfarandi tekið fram: Sumarið 1946 var svæðið í kringum og upp frá Skógafossi mælt. Sort var síðan teilmað um veturinn. Jafnframt var komið á reglubundnum vatnsmælingum í Skógaá. Nú er verið að ganga frá frumáætlunum um eftirfarandi þrjár virkjunartilhaganir.“ Ég sleppi að lesa lýsinguna á þeim. Í einni þeirra er gert ráð fyrir að virkja 8 þús. hestöfl, í annarri 5800 hö. og í þeirri þriðju er gert ráð fyrir jafnmörgum hestöflum og í þeirri fyrstu. Þetta sýnir, að búið er að gera mikið í málinu, og ætla, má, að lokið verði að vinna úr þeim gögnum, sem fyrir hendi eru, fyrir næsta haust. Til þess að skera úr, hvað gera eigi, þarf vitanlega fyrst og fremst nákvæmar vatnsmælingar, en þeim hefur verið haldið áfram í 2 ár. Einnig hefur jarðfræðingur nákvæmlega athugað svæðið og verkfræðingur hefur einnig unnið að rannsóknum varðandi virkjunina. í niðurlagi bréfs síns segir raforkumálastjóri: „Að öllu samanlögðu mun mega gera ráð fyrir því, að rannsókn um virkjun Skógafoss og rafveitur út frá væntanlegri virkjun þar eða Sogsvirkjun verði komið það langt næsta haust, að leggja megi málið fyrir næsta vetrarþing Alþingis, ef ástæða þykir til.“

Bréf þetta er dagsett 9. febrúar síðast liðinn. Eins og menn heyrðu, þá lofar raforkumálastjóri að hafa lokið þessum athugunum og rannsóknum fyrir næsta haust. Raforkumálastjóri hafði beiðni frá hæstv. raforkumrh. um að láta fara fram vatnsmælingar í Skógaá, og hafa þær nú verið gerðar, eins og ég sagði áður, í 2 ár á sumri komanda. Hæstv. ráðh. var kunnugt um, hvað verið var að gera í málinu, og á s. l. sumri barst honum bréf frá sýslumanninum í Vík í Mýrdal, þar sem þess var óskað fyrir hönd sýslubúa, að verkinu væri hraðað. Núv. hæstv. raforkumrh. sá ekki ástæðu til að gefa þessa skipun, af því að hann vissi, að málið var í fullum gangi, og ætti þetta að vera hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. V-Sk. nokkur trygging, ef þeir efast um, að málið sé vakandi.

Það er misskilningur að ætla, að ég sé á móti till. þessari, sem hér liggur fyrir. Ég hygg, að hún spilli ekki fyrir, en sé hins vegar óþörf. Ég vildi aðeins skýra frá gangi málsins, svo að mönnum væri kunnugt um, hvernig það stæði nú. Ég er sannfærður um, að þessir hv. þm. hefðu ekki flutt till., ef þeir hefðu vitað, í hvaða farvegi málið var. Það er alls ekki ætlun mín, að þeir hafi flutt hana til að sýnast, og það er afsakanlegt, þó að menn viti ekki gjörla allt, sem gerist í málum á löngum tíma. Ágreiningur með okkur er því frá mínu sjónarmiði enginn, og ég hef aldrei ætlast til þess, að ég væri beðinn leyfis um að flytja þessa. till., en ég kann illa við fullyrðingar hv. 1. þm. Rang. um það, hvenær þessu verði lokið. Það minnir mig ónotalega á ýmsar fyrri fullyrðingar hans í raforkumálum, en þær hafa, sem betur fer, ekki staðizt.

Ég skal ekkert um það fullyrða, hvaðan reynist heppilegra að fá raforku, frá Skógafossi eða Soginu, en úrskurður um það liggur væntanlega fyrir á komandi hausti, og þar sem við erum allir sammála um, að leysa beri mál þetta sem fljótast og flýta fyrir framkvæmdum, þá efast ég ekki um, að samvinna okkar geti verið góð að úrskurði fengnum og við getum þá orðið sammála. um hina heppilegustu lausn á þessu nauðsynjamáli.