17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í D-deild Alþingistíðinda. (3716)

186. mál, Skipanaust h/f í Reykjavík

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Ásamt þm. Reykv., sjö að tölu, hef ég leyft mér að flytja þessa till. um heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast lán allt að 2700000 kr. fyrir h/f Skipanaust. Þetta mál er ýtarlega skýrt með fylgiskjali í grg., og get ég því verið stuttorður. Forsaga málsins er það, að árið 1944 stofnuðu allmargir iðnaðarmenn í Reykjavík með sér félag til að koma upp dráttarbrautum og öðrum nauðsynlegum tækjum til skipaviðgerða. Hlutafjárloforð eru þegar orðin 1300000 kr., og hefur félagið tryggt sér land undir mannvirkin og samið við amerískt verkfræðingafirma um framkvæmdina. Nýbyggingarráð mælti með þessu á sínum tíma, og í bréfi frá 12. maí 1947 sagðist ráðið hafa samþykkt að taka byggingu dráttarbrautanna sem einn lið í heildaráætlun sinni um þjóðarbúskapinn árið 1947 og tilkynnti, að það hefði lagt fyrir stofnlánadeild sjávarútvegsins að lána 2400000 kr. til fyrirtækisins, og ef fyrirtækið reyndist dýrara, þá mundi ráðið athuga, hvort það sæi sér fært að mæla með hærri upphæð. Nú hefur það farið svo, að stofnlánadeildin hefur ekki reynzt þess megnug, sem nýbyggingarráð ætlaðist til. Hins vegar er nú svo um þetta fyrirtæki, að jarðframkvæmdum er að mestu lokið og fest hafa verið kaup á efni, og er timbrið komið til landsins, en annað efni ekki og hætt við að það missist, ef ekki er hægt að tryggja fyrirtækinu fjármagn. Hið ameríska firma hefur lofað að ljúka byggingunni á hálfu ári, eftir að allt efni sé komið til landsins. Til að tryggja þessar framkvæmdir er þáltill. flutt, sem er um það, að ríkissjóði sé heimilt að ábyrgjast fyrirtækinu 2700000 kr. lán. Það er vitanlega öllum hv. þm. kunnugt, hve nauðsynlegar þær dráttarbrautir eru, sem hér er áformað að reisa, einkum þegar litið er á hina miklu aukningu fiskiskipaflotans, og ég vil minna hv. þm. á að hér kom fram fyrir nokkru önnur till. svipaðs efnis eða um það að ábyrgjast lán fyrir Slippfélagið, og var hún samþ., og vænti ég þess að þessi till. verði það einnig, því að bæði þessi félög hafa brýn verkefni. Það er ekki hægt að koma upp í sambandi við Reykjavíkurhöfn öllum nauðsynlegum dráttarbrautum, og er því óhjákvæmilegt að vinna að þessu utan hafnarinnar, og það hefur félag þetta, Skipanaust valið sér að verkefni. Ég legg svo til, að till. verði vísað til fjvn., og vænti þess, að hún fái meðmæli n. og greiða afgreiðslu á þessu þingi.