29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í D-deild Alþingistíðinda. (3744)

42. mál, þingmannabústaður

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Út af þessari fsp. hv. 1. þm. Eyf. vil ég taka það fram, að eftir að núverandi ríkisstj. tók við, sýndist henni, að þess væri enginn kostur enn að stofna til þess að fara að reisa þingmannabústað hér í Reykjavík. Ætla ég, að þingheimi sé vel kunnugt um það, að nú standa svo sakir bæði með erlendan gjaldeyri og byggingarefni, að látið sé sitja fyrir í þeim efnum nauðsynleg íbúðarhús og eins byggingar í sambandi við framleiðslu og atvinnurekstur landsmanna. Annars hefur ríkisstj., eins og undanfarnar stjórnir, samkvæmt þeim l., sem um það gilda, reynt að sjá þm. utan af landi, þeim sem þess óska, fyrir bústað hér í Reykjavík. Hefur það orðið niðurstaðan að þm., sem leitað hafa til ríkisstj. í þessum efnum, hafa svo að segja allir búið á Hótel Borg, og ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel, að það sé ekki annan stað hægt að fá betri eða hentugri fyrir þm., sem búsettir eru úti á landi, heldur en Hótel Borg, vegna þess að það er bezta gistihúsið hér í Reykjavík og auk þess nálægt þinghúsinu. Auk þess vil ég benda hv. þm. á, að þeir gætu fengið leigð einstök herbergi úti í bæ fyrir tilvísan forstjóra Hótel Borgar, en þeir hafa heldur tekið þann kost að búa á Hótel Borg en að leigja herbergi úti í bæ. Ég held því, að eftir atvikum hafi verið svo sómasamlega fyrir þessu séð sem kostur er.

Varðandi það atriði, sem hv. fyrirspyrjandi minntist á, sem er hús ríkisins í Tjarnargötu 32, þá tel ég, að það sé hvort tveggja, að hverri ríkisstj. sem er sé nauðsynlegt að hafa slíkt hús, annaðhvort til íbúðar fyrir utanrrh., ef hann vildi það kjósa, og þá sérstaklega til þess að halda uppi þeirri risnu, sem hver ríkisstj. verður að hafa yfirleitt. Hótelum og veitingahúsum hér í Reykjavík er þann veg háttað, að það eru ekki sérstaklega margir kostir að fá þar húsnæði til þess að halda uppi risnu, sem ríkisstj. þarf að hafa á hverjum tíma. Auk þess sem ég tel þetta hús yfirleitt æskilegt til afnota fyrir hvaða ríkisstj. sem er, þá hygg ég líka, að herbergjaskipun sé þar svo háttað, að það sé ekki hentugt fyrir bústað 10–20 þm. til að dvelja þar einhvern tíma ársins, og ég hygg, að það gæti ekki farið saman að nota þetta hús fyrir hvort tveggja í senn, þingmannabústað og til nauðsynlegra nota vegna risnu fyrir ríkið. En ef hnigið hefði verið að því ráði að hafa húsið eingöngu til afnota fyrir þingmannabústað, þá hefði þurft sð gerbreyta því. Hér er um að ræða gamalt timburhús, og slíkar stórbreytingar mundu hafa í för með sér geysimikinn kostnað, og tel ég það sízt af öllu heppilegt.

Út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. spurðist fyrir um skyldukvöð þm., sem á Hótel Borg búa, til þess að kaupa morgunkaffi með húsnæðinu og borga það dýrara fyrir hótelherbergið, þá álít ég, að það sé atriði, sem komi til úrskurðar og athugunar hjá þfkn., þegar þar að kemur, hvort þm. gætu losnað við þessa skyldu með morgunkaffið, ef þeir vilja vera lausir við hana.

Að öðru leyti sé ég ekki að fsp. gefi ástæðu til frekari svara af minni hálfu. En ég skal leyfa mér að geta þess, að í byrjun apríl s. l. skrifaði Hótel Borg forsrh. og spurðist fyrir um það, hvort þess væri óskað, að Hótel Borg útvegaði þm. herbergi úti í bæ í staðinn fyrir herbergi á Hótel Borg. Þetta bréf var afgr. til forseta þingsins á sínum tíma, og kom það svar frá forseta sameinaðs þings, að það væri mál milli einstakra þm. og forsrn., hvort þessu boði yrði tekið. En ég hygg, eftir því sem áður hafði verið yfir lýst, að þeir þm., sem á annað borð sjá sér ekki fyrir húsnæði, en það eru margir þeirra, séu sammála um það, að það sé sæmilega fyrir þessu séð með því, að þeir búi á Hótel Borg.

Ég skal ekki draga í efa það, sem hv. fyrirspyrjandi tók fram, að það hafi komið í ljós þingvilji fyrir því, að utanbæjarþm. eigi kost á að fá hér í Reykjavík yfir þingtímann gott og hæfilegt húsnæði og þá á kostnað Alþ. Mér er hins vegar kunnugt um það, að í öðrum löndum, þar sem æði margir þm. eru búsettir utan höfuðborganna, þar sem þingin eru háð, þá sjá þeir sér sjálfir fyrir húsnæði í bænum, en hafa hærra kaup fyrir þingsetu sína en aðrir þm. Sá kostur hefur verið upp tekinn hér hjá okkur, að þfkn. greiðir húsnæði utanbæjarþm., og þeir þurfa ekki að sjá fyrir því, það gerir ríkisstj., og ég vænti þess, að eftir atvikum sé sómasamlega frá þessu gengið. Þess er enginn kostur, eins og nú standa sakir, að reisa sérstakan þingmannabústað hér í Reykjavík.