29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í D-deild Alþingistíðinda. (3746)

42. mál, þingmannabústaður

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að láta í ljós óánægju mína yfir aðgerðarleysi ríkisstj. í þessu máli, og ég get ekki fallizt á, að allar þær afsakanir, sem hæstv. forsrh. bar hér fram áðan í ræðu sinni, hafi við mikil rök að styðjast. Það er nú það fyrsta, að ég lít svo á, að ríkisstj. hafi borið skylda til að gera eitthvað í þessu máli. Hv. 1. þm. Eyf. gerði hér í sinni fyrri ræðu grein fyrir þeim samþykktum um málið, sem gerðar hafa verið á Alþ. undanfarin ár og nú síðast seint í febrúar í þessu ári, þá var samþ. á þinginu áskorun til ríkisstj. um að nota þær heimildir til að láta reisa eða kaupa hús fyrir þingmannabústað, sem áður höfðu verið veittar á Alþingi.

Ég lít nú svo á, að ríkisstj. sé skylt að fara eftir fyrirmælum Alþ. á hverjum tíma, ákveðnum og skýrum fyrirmælum. Ég get viðurkennt, að það kunni að vera einhverjum erfiðleikum bundið nú, en það var vitað, er þessi ríkisstj. kom til valda. Hæstv. forsrh. gat réttilega um gjaldeyriserfiðleika, en það hefur áreiðanlega verið mikið um húsabyggingar hér í Reykjavík, eftir að þeir erfiðleikar tóku að gera vart við sig, og á mörgum byggingum hefur verið byrjað hér, síðan þessi ríkisstj. tók við. Og ég efast um, að öll þau hús hafi verið svo miklu nauðsynlegri en hinn margumtalaði þingmannabústaður, að hann þyrfti að sitja á hakanum. En úr því að það hefur farið svo, vil ég taka undir með hv. 1. þm. Eyf. viðvíkjandi gamla ráðherrabústaðnum, að ríkisstj. taki hann til einhverra nota í þessu skyni, og ég vil enn fremur benda á, að hús ganga daglega kaupum og sölum hér í Reykjavík, og mér þykir mjög ótrúlegt. að ríkisstj. hefði ekki getað náð í hús. sem er nothæft til þessara hluta, á þeim tíma, sem hún hefur þegar setið. Ég held sem sé, að það hafi verið og sé enn þá hægt að bæta úr þessu á viðeigandi hátt, ef nægur vilji er fyrir hendi hjá ríkisstj., en mér skilst, að henni beri skylda til að framkvæma,vilja Alþ. í þessu efni sem öðrum.