05.11.1947
Sameinað þing: 18. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (3766)

901. mál, síldarverksmiðja á Norðausturlandi

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég hef í tæka tíð falið stjórn síldarverksmiðja ríkisins að framkvæma þær rannsóknir, sem hér um ræðir, og athuga staðhætti o. s. frv. Ég skal ekki segja, hvað hefur dvalið stjórn SR fram að þessu, en ég hef nýlega átt fund með henni og ítrekað þessi tilmæli og veit ekki betur en hún áformi að gera þessa rannsókn bráðlega. Ég hef beðið um það, að stjórn síldarverksmiðjanna hraðaði ferð sinni austur, og var að reyna að fá skip til að flytja hana um daginn, því að stjórnarmeðlimirnir vildu heldur fara með skipi en bifreið eða flugvél. Ég vona því, að úr því geti orðið, sem raunar hefði átt að vera, meðan vegirnir voru góðir, að þessi athugun fari fram. Ég þóttist vera á réttum stað með því að fela stjórn SR að gera þetta. En eins og vitað er, er talsverð togstreita um stað fyrir verksmiðjuna, og svo er annar þrándur í götu, og það er tregða á lánsfé, jafnvel til síldarverksmiðja. Það er alveg satt, að það er illt til þess að vita, að mikill afli skuli missast fyrir það, hve langt er til hafna fyrir síldarskipin á þessum slóðum, og hafa nú verið og eru uppi ýmsar hugmyndir til að bæta úr því, eins og kunnugt er. En þær hugmyndir liggja að vísu ekki fyrir hér nú til umræðu, og skal ég því ekki fjölyrða um það. Ég vona sem sagt, að þær athuganir, sem hér er farið fram á, muni ekki koma til að standa málinu fyrir þrifum, en hitt er alvarlegra, hve erfitt er að fá lánsfé, og því er ekki að leyna, að við erum í talsverðum vanda staddir með að greiða byggingarkostnað nýju síldarverksmiðjanna á Skagaströnd og Siglufirði, vegna þess að tregða er á lánum, eins og sakir standa. En ég vona, að úr því rætist, og það er raunar nokkuð víst, ef vel er á haldið og heppnin er með. Og þá er líka líklegt, að sá vandi verði leystur, áður en allt of langt um líður, sem er fyrir höndum hjá síldveiðiflotanum, eins og nú standa sakir, þegar mikið berst að austan fyrir Langanes.