19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í D-deild Alþingistíðinda. (3774)

902. mál, fjármál flugvallanna í Keflavík og Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

. Þessi fsp. sem hér liggur fyrir, er nokkuð víðtæk, og mun það taka nokkurn tíma að svara henni, en ég vil taka það fram strax, að ég get ekki svarað öllum liðum hennar eins ýtarlega og ég vildi, því að þessi mál eru enn í deiglunni. En ég get lýst því yfir, að svarið verði tæmandi um kostnaðarhliðina á liðnum tíma og eins og það stendur nú. Ég ætla, að hægt verði að bæta úr því máli á þessu þingi, og mundi það þá heyra undir fjvn. þingsins. Ég skal nú snúa mér að einstökum liðum þessarar fsp.

Fyrsti liðurinn hljóðar svo: Hve mikið hefur ríkissjóður þurft að greiða fyrir fasteignir flugvallanna, bætur til landeigenda, hús, mannvirki og tæknileg áhöld? — Eftir því sem flugráð hefur gefið mér upplýsingar um, hefur verið lagt út fyrir þennan lið 1152000,00 kr. vegna Reykjavíkurvallar og ekkert vegna Keflavíkurvallar.

Þá er næsta spurning þessi: Hve mikið hefur ríkið lagt fram til verklegra endurbóta á hvorum flugvellinum fyrir sig, þar með talið allt viðhald, sem hvílir á íslenzka ríkinu? — Samkv. upplýsingum frá sömu aðilum hefur verið varið á öllu tímabilinu, sem flugvellirnir hafa verið í íslenzkri eign, 1090000,00 kr. Þessa upphæð hef ég ekki getað fengið sundurliðaða enn, en menn hafa verið settir til þess og vinna nú að því. Eins eru þeir að athuga aðra kostnaðarliði, sem virtust óþarflega háir. En ég geri ráð fyrir, að töluverður hluti þessarar upphæðar hljóti að vera vegna endurbóta á Winstonhóteli á Reykjavíkurflugvelli. Á Keflavíkurflugvelli hafa verið lagðar út í þessu skyni 250000,00 kr., en það eru braggar, sem hafa verið endurbættir og notaðir undir flugvallastjóra og starfslið hans.

Þá er spurt: Hvað voru miklar tekjur og útgjöld ríkisins við hótel Winston, meðan það var starfrækt á kostnað ríkisins? — Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið, en þær ná frá 1. maí 1946 til 1. júlí 1947, þá voru útgjöld 1046000,00 kr., en tekjur 890000,00 kr. Rekstrarhalli bókaður er því 155000,00 kr., en auk þess eru svo innréttingar og endurbætur taldar 255000,00 kr. Hallinn nemur því alls 401000,00 kr. Þessir reikningar eru enn ekki fyllilega krufðir til mergjar, og ég skal ekki um það segja, hvort öll kurl eru komin til grafar. Það er ekki fyllilega rannsakað enn. Nú hefur sú breyting verið gerð eftir tillögu flugvallastjóra, að rekstri á Winstonhóteli hefur verið hætt og það leigt út. Þar með er fyrirbyggt, að slíkt tap verði í rekstri þess eftirleiðis fyrir ríkið. Eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur, hef ég ekki trú á, að ríkið reki þetta hótel, nema það fengi þá úrvalsmenn til að standa fyrir því. Hótelið hefur þó ekki verið leigt út til langs tíma.

Þá er það næsta, sem spurt er að: Hve margir verkamenn vinna, að öllum jafnaði á hvorum flugvellinum, hve margir löggæzlumenn, tollmenn, veðurfræðingar, loftskeytamenn og aðrir kunnáttumenn, og hve mikil eru útgjöld ríkisins við hverja þessa deild? — Þetta er talsvert margþætt spurning, en ég skal reyna að svara henni á eins einfaldan máta og unnt er. Það er spurt um, hve margir verkamenn vinni á flugvöllunum. Þegar rætt er um starfsliðið, verður að gera greinarmun á lausráðnum mönnum og hinum fastráðnu starfsmönnum, og mun ég gera það í svari mínu. Ef við tökum Reykjavíkurflugvöllinn og tökum t. d. einn mánuð, í þessu sambandi getum við tekið októbermánuð 1947, eftir að sparnaðarráðstafanirnar hafa farið fram, þá eru þar fastráðnir menn 28 talsins og kostnaður við þetta fólk nærri 69000,00 kr. Aftur á móti voru lausráðnir menn þann mánuð milli 20 og 30, en sú tala, er ekki ábyggileg og segir í rauninni lítið. Ef nokkurn veginn örugg tala þessara manna ætti að fást, yrði að taka miklu lengra tímabil, en það verður ekki gert hér. Ef við tökum svo sama mánuð á Keflavíkurvelli, þá eru þar flugvallarstjóri, og starfslið hans eru 3 menn. Löggæzlumenn eru 12 og hafa 24000,00 kr. laun á mánuði og tollmenn eru 4. Ég tek þetta hér með, þótt það komi mér ekki við. Nú er rétt að upplýsa í þessu sambandi, að þessar upplýsingar, sem ég hef gefið, eru eins og málin standa í dag. Áður voru fastir starfsmenn við flugvöllinn 27 manns, og mun langmest af launum þessara manna koma fram sem hreinn sparnaður við reksturinn. — Hvort það auðnast flugráði og flugvallastjóra að fækka starfsmönnum enn meir en gert hefur verið, veit ég ekki, en þessir aðilar hafa það þó til athugunar. En það er oft erfitt að draga saman seglin í slíkum tilfellum, en ég fæ ekki betur séð en að flugráð og flugvallastjóri hafi gengið vel fram í því að lækka rekstrarkostnaðinn og fækka starfsmönnum. — Nú hefði verið æskilegast, að ég hefði getað, um leið og upplýst er, hversu margir hinir föstu starfsmenn eru, og upplýstir eru einstakir kostnaðarliðir, — þá hefði verið æskilegt, að ég hefði getað gefið upplýsingar um rekstrarkostnaðinn sjálfan í heild, hver hann hefði verið og hvað gera mætti ráð fyrir, að hann yrði. En um þetta er ekki hægt að segja neitt í dag, og það verður sent fjvn. á sínum tíma til athugunar. Þetta er ekki það lítil flækja, og er ekki hægt að stilla upp glöggum reikningum yfir þær starfsgreinar, sem hér er um að ræða, en það þarf að gera yfirlit yfir þetta og fá upplýst, hverjar till. flugráðs og flugvallastjóra ríkisins eru í þessum málum. Með tilliti til þessa hef ég beðið flugráðið um að gefa mér heildarskýrslu varðandi þetta, en hím hefur enn ekki borizt til mín. En þrátt fyrir þetta vildi ég gefa upplýsingar um starfsmannafjöldann, sem vinnur við flugvellina í Reykjavík og í Keflavík, vegna þess að fyrirspurn kom um það.

Þá er það fimmta spurningin. Hún hljóðar svo: Hve mikið hefur nú verið greitt af alþjóðafé til ríkissjóðs fyrir veðurþjónustu Íslendinga í sambandi við flugvellina, og hve mikið er nú þegar vangoldið til ríkisins af samningstryggðum endurgreiðslum? — Hér er aðeins spurt um veðurþjónustuna, en fróðlegt er í þessu sambandi að athuga, hve miklu fé er eytt í flugþjónustuna yfirleitt og hve mikill hluti þess kostnaðar kemur til með að verða endurgreiddur, og er hér ekki einungis um að ræða veðurþjónustu. Þar er skemmst að segja, að þetta mikla fé, sem veitt er til flugþjónustunnar, fer til þriggja stofnana: veðurstofunnar, sem heldur uppi veðurathugunum vegna flugs um Norður-Atlantshafið, landssímans, sem hefur samband við flugvélar, sem eru á flugleiðum um Norður-Atlantshafið, og loks Keflavíkurstöðvarinnar, sem er í sambandi við flugför á fyrr greindum leiðum. Þessi kostnaður skiptist þannig milli ára:

1946 2044 þús. kr.

1947 3733 þús. kr.

að því er gert er ráð fyrir. Þetta er mikið fé, sem gert er ráð fyrir, að fáist endurgreitt, þótt það sé ekki enn borgað. Þetta hefur verið tekið upp á alþjóðaráðstefnum, sem haldnar hafa verið um þessi mál, en fast loforð hefur enn ekki fengizt um endurgreiðslurnar, en hins vegar er málið á svo góðan veg komið, að telja má öruggt, að Íslendingar fái þessar greiðslur endurgreiddar, og reikningur hefur þegar verið sendur til alþjóðasamtakanna yfir þetta. Þannig er þessu máli enn eigi lokið, og augljóst er, að ef ekki verður tekin til greina krafa okkar um endurgreiðslu þessa kostnaðar, þá verðum við að breyta um stefnu í þessum málum og bera ekki uppi víðtækari starfsemi til flugþjónustu en teljast má brýn þörf fyrir okkur Íslendinga sjálfa, en við það mundu möguleikar Íslands sem millistöðvar í alþjóðaflugi minnka mjög. Menn hafa veigrað sér við enn sem komið er að skipta um stefnu, vegna þess að gera má fastlega ráð fyrir, að krafan um endurgreiðslu verði tekin til greina. Á fundi, sem haldinn var í Dublin á Írlandi viðvíkjandi fyrirkomulagi þessara mála, þar sem ákveðin voru svæði, sem hinar einstöku þjóðir skyldu sjá um flugþjónustu á, var það greinilega tekið fram, að fluggjöld yrðu endurgreidd, og verður að treysta þessu áliti fundarins. Fyrir utan þetta eru tvær aðrar stöðvar, sem hafa flugþjónustu með höndum hér á landi, og á ég þar við Loran-stöðina í Vik í Mýrdal. Hún er líka fyrir erlendar flugvélar, og 95% af þeim kostnaði, sem hún skapar ríkissjóði, verður endurgreiddur, og þær endurgreiðslur eru þegar byrjaðar. Hefur reikningur þegar verið sendur Ameríkumönnum að upphæð 12800 $, og hafa þeir greitt sem svarar þessari hundraðstölu eða 12160 $.

Sjötta spurningin er: Hve margar borgaðar flugviðkomur hafa verið á hvorum velli, síðan ríkið eignaðist þá, og hve mikið greiða hinar einstöku og mjög misstóru flugvélar fyrir afnot flugvallanna? — Til glöggvunar er rétt að taka sjöundu spurninguna hér með, en hún er: Hve margar úthafsflugvélar hafa notað hvorn flugvöll, síðan ríkið eignaðist þá, og hvers vegna vilja fáar eða engar af þess háttar flugvélum nota völlinn hjá Reykjavík? — Samkvæmt skýrslu, sem ég hef fengið um þetta hjá flugráði, þá er viðkoma flugvéla á flugvöllunum í Reykjavík og Keflavík sem hér segir: (Er þá átt við tímabilið 6. júlí 1946 til 1. okt. 1947.) Samtals hafa lent á Reykjavíkurflugvelli:

Millilandaflugvélar

241

Flugvélar, sem fljúga innanlands

3240

Samtals

3481

Kennsluflugvélar og einkaflugvélar

10220

Samtals

13701

Á Keflavíkurflugvelli:

Gjaldskyldar lendingar innanlandsvéla

208

Gjaldskyldar millilandavélar

854

Samtals

882

Með þessu yfirliti er þá líka svarað sjöundu spurningunni, um úthafsflugvélar. En síðari liður hennar er, hvers vegna flugvélar vilji ekki nota Reykjavíkurvöllinn eins vel og Keflavíkurvöllinn. Það er dálítið erfitt fyrir mig að svara þessu, en það hefur verið talsvert um það, að millilandavélar hafi lent á flugvellinum hér við Reykjavík, en brautir eru stærri í Keflavík, og þar eru radarlendingartæki, sem ekki eru hér, og kjósa flugmenn af þessum ástæðum ef til vill frekar að lenda á Keflavíkurflugvelli. En það er nokkuð erfitt að gera grein fyrir þessu.

Ég hef gleymt úr 6. spurningunni, hve mikið flugvélar greiði fyrir viðkomu á flugvöllunum. Ég er nú ekki alls ánægður með svar það, sem ég hef fengið varðandi þetta, þar sem ekki er getið um, hve mikið fæst fyrir hverja ferð, en hér í skýrslu, sem ég hef látið gera yfir þetta, eru lendingargjöldin sett sem þungagjöld. Teknar eru kr. 6.00 af hverju tonni að 20 tonnum, en sé þunginn yfir 20 tonn, þá eru teknar 3 kr. fyrir hvert tonn þar fram yfir. Og flugvallargjald benzíns eru 9 aurar pr. lítra. Nokkuð álitamál er það, hve hátt skuli setja þessi gjöld, og er það nokkurt afkomuatriði fyrir flugmálin, hve þessi gjöld eru há, og ég hef lagt fyrir flugvallastjóra að athuga gjaldskrána og endurskoða gjöldin með það fyrir augum, hvort ekki væri mögulegt að hækka þessi gjöld, því að rekstur flugvallanna er ríkissjóði mjög þungur.

Áttunda spurningin er: Hve mikið kaup fá flugmála- og flugvallastjóri og hver fulltrúi í flugmálanefndinni? — Flugmálastjóri er í 3ja flokki launalaganna með 13 þús. kr. laun, og flugvallastjóri ríkisins er í sama launaflokki. Ekki er enn ákveðið, hver laun meðlimir flugráðs skulu hafa, en ákveðið er, að formaður flugráðs fái sem næst launum formanns útvarpsráðs, eða 325 kr. grunnlaun á mánuði. Að öðru leyti er erfitt að ákveða laun flugráðs, því að það hefur orðið að leggja á sig alveg óhemju vinnu til þess að komast að niðurstöðu um ástand flugmálanna. Það hefur sem sagt orðið að vinna allt ofan í kjölinn.

Í 9. lið er spurt: Hve mikið fé hefur ríkið lagt á yfirstandandi ári í nýbyggingu og viðhald flugvalla utan Gullbringu- og Kjósarsýslu? — Ég skal nú gera nokkra grein fyrir þessu. Til nýbygginga flugvalla eða flugbrauta hefur verið lagt fram eftirfarandi:

Til lendingar fyrir sjóvélar á Akureyri kr.

7.000,00

Til flugbrautar á Hólmavík (sjóvélar)

8.800,00

Til flugvallarins í Hornafirði

14.100,00

Til flugvallarins í Vestmannaeyjum

51.200,00

Til flugskýlis á Ísafirði (sjóvélar) .. -

65.200,00

Til lagfæringar flugvallarins á Fagurhólsmýri

19.900,00

Til lagfæringar flugvallarins á Melgerðismelum í Eyjafirði

33.000,00

Lagfæring flugvallarins við Gufuskálamóðu hjá Sandi

22.700,00

Samtals kr.

219.700,00

Auk þessa var veitt:

Til að fullgera dráttarbraut og flugskýlið á Ísafirði kr. 20.000,00, og hefur því sú fjárveiting numið samtals kr. 85.000,00. Til bygginga í sambandi við flugvöllinn í Vestmannaeyjum kr. 203.000,00, og nemur því sú upphæð, sem greidd hefur verið til hans, kr. 255.000,00 rúmlega. Nú hafði verið ákveðið á fjárlögum að veita fyrstu greiðslu til flugskýlis á Austurlandi. Flugráð hefur tekið flugmál Austfjarða til ýtarlegrar athugunar og hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að bygging flugstefnuvita skuli sitja fyrir og sé hann byggður á Austurlandi. Að þessum till. fengnum frá flugráði hefur ráðuneytið fallizt á, að fé þetta verði notað til byggingar flugstefnuvita, og vona ég, að ekki verði tekið hart á okkur fyrir þessa breytingu. Okkur þótti það meira virði að láta þær framkvæmdir ganga fyrir, sem flugráð taldi nauðsynlegastar. Þá er það skoðun flugmanna, að nauðsynlegt sé, að byggður verði flugstefnuviti á Skagatá, og hefur verið ákveðið að leyfa byggingu þessa vita, án þess að fjárveiting væri fyrir hendi. Var ekki hægt að draga að koma vitanum upp vegna þess, hve flugmenn töldu það aðkallandi og varð flugráð sammála um það. Auk þessa hefur flugráði verið falið að athuga ástand flugvalla, úti um land, sem lagfæra mætti án mikils tilkostnaðar, sem feldist í því að merkja flugvellina og flugbrautirnar og annað því um líkt. Og þegar allt kemur til alls, þá hafa verið notaðar til endurbóta og bygginga á flugvöllum 1,1 milljón króna., og tel ég mig þá hafa svarað spurningu þeirri, sem felst í 9. lið þessarar fyrirspurnar.

Ég get getið þess hér, að flugráð hefur athugað flugvöllinn við Kópasker með það fyrir augum, að hann gæti orðið varaflugvöllur fyrir millilandaflugvélar. Það mun kosta tiltölulega lítið fé að gera hann svo úr garði, að hann geti orðið varaflugvöllur fyrir stórar vélar. Fleira er ekki nýtt, sem ástæða er til að drepa á varðandi þetta. En hvað viðkemur 10. lið fsp. um, hve miklar tekjur hafi orðið af Reykjavíkurflugvellinum og hvers konar endurbætur flugmálastjórnin vilji gera á honum, þá veit ég ekki enn, hverjar endurbætur flugráðið vill gera á honum. Ég hef beðið flugráð um till., en ekki fengið þær enn þá og get því eigi svarað hér til. En á 22. gr. fjárlaga eru veittar 1,3 millj. kr. til þessara mála„ en hvernig það sundurliðast, veit ég ekki. Þetta mál mun fjvn. taka til meðferðar á sínum tíma, og geri ég ráð fyrir, að flugráð muni skila áliti um þetta. Varðandi tekjur Reykjavíkurflugvallarins þá voru þær: 1946 296 þús. kr. Til 1/7 1947 250 þús. kr.

Ég hef ekki við höndina nú glöggan rekstrarkostnað, eins og menn gætu ætlað, en það verður ekki langt að bíða þess, að ég geti svarað þeirri hlið málsins.

Þá er spurt um það í 11. liðnum, hve dýrar þær endurbætur séu, sem Bandaríkjamenn eru nú að framkvæma á Keflavíkurflugvellinum. Ég get ekki svarað því. Það er búið að byggja bráðabirgðaflugstöð og verið að leggja grunn að varanlegri flugstöð. Sömuleiðis er verið að byrja á því að grafa fyrir öðrum húsum, eins og þvottahúsi og viðgerðarstöðvum. Frekar get ég ekki upplýst um þetta.

Í 12. liðnum er spurt um það, hve miklar tekjur megi telja sennilegt, að Íslendingar fái árlega af starfsemi flugvallarins í Keflavík í sambandi við viðkomugjöld flugvéla, kaup og laun íslenzkra manna, tolla af benzíni og öðrum vörum, andvirði greitt fyrir íslenzkar neyzluvörur og aðra tekjuliði. Því miður get ég ekki á þessu stigi málsins sagt neitt um þetta. Það er að vísu til áætlun frá flugráði um viðkomugjaldið, en hún er með það miklum fyrirvara, að ég sé ekki ástæðu til þess að draga hana inn í þessar umræður.

Ég held nú, að ég hafi svarað þessum fsp., eftir því sem hægt er. Ég mun síðar afla nánari upplýsinga og svara því, sem hægt er að ætlast til, að greið svör verði gefin við með góðu móti.