19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (3775)

902. mál, fjármál flugvallanna í Keflavík og Reykjavík

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur nú svarað allýtarlega fyrirspurnum mínum, þótt ekki hafi hann svarað þeim öllum. Við því verður ekkert sagt, því að um allmörg vafaatriði er að ræða, eins og viðskilnaður hæstv. fyrrv. flugmálarh. var. Hann er því miður ekki hér. Það vekur eftirtekt, hve gífurleg útgjöldin eru við flugvöllinn í Reykjavík. Það er um 6 millj. kr., sem við greiðum í veðurþjónustu, loftskeyti og aðra öryggisþjónustu. Ekkert af þessu hefur verið endurborgað, og það kom fram hjá hæstv. ráðh. betur en áður, að þessir peningar eru svo sem ekki í handraðanum, þar sem ekki er einu sinni fyrir hendi formlegt loforð um endurgreiðslu. En það, sem mestu varðar fyrir Alþ. og borgara landsins, er að fá að vita, hve mikill munur er á útgjöldunum og því, sem við fáum.

Þessari einu millj. kr., sem búið er að verja í lendingarbætur, mun að öllu leyti hafa verið skynsamlega varið og reynt að bæta úr annmörkum í þessum efnum, eftir því sem fjárhagur hefur leyft. En önnur útgjöld í þessu sambandi eru gífurleg, og ég þykist heyra á hæstv. ráðh., að þungir póstar muni koma til fjvn. Frá fjmrn. hef ég fengið upplýsingar, sem benda til þess, að það sé komið á tólftu millj. kr., sem búið er að greiða fyrir flugvellina, og mun það láta nærri, eftir því sem kom fram hjá hæstv. ráðh. Eftir að hæstv. stjórn hefur gefið þessa ýtarlegu skýrslu, sjá allir, að það verður að ráða flugmálunum til lykta eftir okkar hentugleikum. Við getum ekki tekið á okkur byrðar, sem okkur eru ofvaxnar, með skuldbindingum um flugþjónustu fyrir aðrar þjóðir.

Ég ætla að víkja að síðustu spurningunum, sem hæstv. ráðh. svaraði ekki, um Keflavíkurflugvöllinn. Ég skil, að hæstv. ráðh. hefur ekki til tölur um þær endurbætur, sem fyrirhugaðar eru. Mér skilst, að Keflavíkurflugvöllurinn hafi kostað um 150 millj. kr. og að enn þurfi nokkra tugi millj. til þess að gera hann starfshæfan. Hótel og skrifstofupláss er í því ólagi, að stórkostlegt fé, sem við eigum ekki til, þarf til að bæta úr því. Ef völlurinn hefur kostað 150 millj. kr., þarf kannske að bæta þar við 75 millj. kr., til þess að hann verði fullkominn millilandaflugvöllur. Það mundi því binda okkur þungar byrðar, ef við ættum að taka við vellinum, eins og sumir halda fram.

Ég vil þakka fyrir þau mörgu og greiðu svör, sem ég hef fengið, og vil bara að lokum segja frá áætlun, sem ég hef fengið hjá mönnum, sem kunnugir eru tekjumöguleikum Keflavíkurflugvallarins. Þar er áætlað, að Íslendingar geti haft um 10 millj. kr. tekjur á ári af viðkomugjöldum flugvéla, kaupi íslenzkra manna, tollum og andvirði íslenzkra neyzluvara. Mér þótti þetta gegna nokkurri furðu, og ég hef enga stjórnarheimild fyrir því, að þetta sé skynsamleg áætlun. Ég vil hins vegar skora á hæstv. stjórn að gæta þess, að þetta fé fari ekki, eins og hingað til, í eyðslu fyrir fargjöld Íslendinga út í heim.