12.11.1947
Sameinað þing: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í D-deild Alþingistíðinda. (3783)

71. mál, erfitlit með verksmiðjum og vélum

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Mér er það eins ljóst og öðrum og kannske að sumu leyti ljósara, að hér er umbóta þörf, þörf á endurskoðun þessara laga og reglugerða um verksmiðjur og vélar, og ég var þess fýsandi, að hún yrði samþ., og það var gert 16. maí s. l., eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram. Mér var þá kunnugt um,. að fram fór athugun á því hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum, hvort unnt mundi í þessu máli að taka upp meiri samvinnu um þetta en. verið hefur með þessum þjóðum, en hún hefur nánast engin verið. Fulltrúar frá Danmörku. Finnlandi og Svíþjóð komu því saman á fund í Danmörku og ákváðu að hafa samstarf um undirbúning, breytingar og samræmingu á sviði þessarar löggjafar. Nokkru eftir að þessi fundur var haldinn sem fyrsta tilraun til samræmingar, var Íslendingum gefinn kostur á að vera með. Bréf þess efnis barst í júlímánuði, og ég svaraði því til, að Ísland mundi telja það ávinning fyrir sig að vera með í þessari samvinnu. Og nú hefur orðið úr, að tilnefndur hefur verið fulltrúi af Íslands hálfu í þessu efni. Þó að mér væri ljóst, að flýta þyrfti þeirri endurskoðun, sem hér um ræðir, taldi ég einnig nauðsynlegt að hafa samvinnu við okkur reyndari þjóðir á þessu sviði, úr því að færi gafst á því, og því frestaði ég nefndarskipun meðan verið var að ganga frá hinni erlendu samvinnu. En strax og því var lokið, skrifaði ég Alþýðusambandinu, Landssambandi iðnaðarmanna og Félagi íslenzkra iðnrekenda og bað þessi samtök að tilnefna fulltrúa í n. til að framkvæma þá endurskoðun, sem hér er spurt um. Alþýðusambandið hefur nú tilnefnt Kristin Ágúst Einarsson, Félag íslenzkra iðnrekenda Pál S. Pálsson lögfræðing og Landssamband iðnaðarmanna. Guðmund Helga Guðmundsson húsgagnasmíðameistara. Af hálfu ríkisstj. hafa verið tilnefndir dr. Jón Vestdal verkfræðingur og Sæmundur Ólafsson verksmiðjustjóri. N. tekur nú brátt til starfa og mun bæði hafa samvinnu við Norðurlöndin og skipaskoðunarstjóra og fleiri hér heima. Ég vona svo, að hv. fyrirspyrjandi sjái, að dráttur á þessari endurskoðun hefur einmitt stafað af góðum vilja til að ná sem beztum árangri.