12.11.1947
Sameinað þing: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í D-deild Alþingistíðinda. (3799)

904. mál, endurgreiðsla tolls af innfluttum timburhúsum

Fyrirspyrjandi (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Það er ekki búið að prenta þingtíðindin frá síðasta þingi og því ekki hægt að vitna til þeirra, en ég fullyrði, að í umr. um frv. til l. um aðstoð við byggingarframkvæmdir kom ekkert annað fram hjá fyrrv. hæstv. fjmrh. en það, að hann sagði, að tvísýnt væri, hvað happasælt væri að flytja inn hús, og þyrfti að athuga það nánar, en enginn mælti á móti tollaívilnunum við þær umr.

Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans, svo langt sem þau náðu. Hann taldi heimildina bæði óframkvæmanlega og óframbærilega, — en því í ósköpunum voru þá með till. 30 hv. þm.? Þótt ekki sé hægt að reikna upp á eyri, mundi ekki hreyft andmælum af hálfu innflytjenda. Við getum kallað það slumpareikning, en það verður farið eins nærri og hægt er. Þeir, sem flytja inn hús, sem kosta 40000 kr., greiða af því um 11000 kr. í tolla, og þeir og tollstjóri telja, að þeir eigi að fá endurgreitt af því um 7–8 þús. kr. Heimildin er skýr, en hún nær aðeins til þeirra, sem flytja inn húsin 1946. Hvort á að láta aðra fá sömu kjör, verður að athuga, og mér skildist í fyrra, að ríkisstj. væri þá að athuga, hvort ekki væri hægt að láta eitt ganga yfir alla. Það orkar ekki tvímælis, að sá grundvöllur, er var til staðar, þegar tollalögin voru sett, er ekki lengur fyrir hendi. Nál. það, sem hv. 1. þm. Reykv. gat um, hefur aldrei verið gert heyrinkunnugt, og var það ekki tilbúið fyrr en eftir að húsin voru komin og það nokkru eftir. Þá fyrst kom þetta nál., en hefur svo verið geymt hjá ríkisstj. og aldrei verið prentað né niðurstaða þess gerð almenningi kunn, og gat það engu breytt í áður gerðum ákvörðunum Alþingis.