17.12.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í D-deild Alþingistíðinda. (3810)

110. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir skýrsluna, sem hann gaf. Það er rétt hjá honum, það er vegna þess, að ég hef áhuga fyrir þessu máli, að ég hef gert þessa fsp: Þó virtist svo sem hæstv. ráðh. væri fremur óánægður eða hálfönugur yfir þessum áhuga. (Samgmrh.: Síður en svo). Það var eins og hann vildi gefa í skyn, að aðrar hvatir en áhugi lægju til grundvallar fsp., en það skal ég ekki ræða nánar. Af skýrslu hæstv. ráðh. sést, að þetta mál stendur eins ömurlega eins og það hefur staðið. Hæstv. ríkisstj. og aðrir hafa fengið erlendan mann, að vísu færan til þess að vinna að teikningum, en þannig hefur til tekizt, að þessi maður hefur orðið að gera þrjár eða fjórar tillögur um málið samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðh. Ég skal ekki leiða getur að því, hvernig á þessu stendur. Það er upplýst, að þetta er fær maður og hefur gert teikningar af tugum bygginga af þessari gerð. Það stafar því ekki af reynsluleysi, að svo margar teikningar hafa verið gerðar, heldur hlýtur málið að hafa verið illa undirbúið í hans hendur. Er fyrsta teikningin kemur, er áætlaður kostnaður miklu meiri, 27–35 millj. kr., en hæstv. stj. hafði dottið í hug. Þá verður að fela honum að teikna aðra á sama stað. Eins kemur í ljós, að ekki hentar sú niðurstaða, og þá er flutt um set og búðunum á neðstu hæð sleppt.

Ég dreg þá ályktun af þessu, að málið hafi verið illa undirbúið í hendur sérfræðingsins. Annað verður ekki séð. En það er önnur hlið á þessu máli, sem hv. þm. þekkja, og hún er sú, að hæstv. stjórn hefur með afskiptum sínum af málinu, sem efalaust voru í góðri meiningu gerð, hindrað einstaklinga, sem höfðu fé og voru reiðubúnir að leggja það fram og höfðu látið gera teikningar með viðráðanlegum kostnaði. Þeirra framkvæmdir stöðvuðust, er löggjöf var sett um málið. Að hæstv. stjórn hefur varið mörgum þúsundum dollara fyrir teikningar og stigið víxlspor, er ekki það alvarlegasta í þessu máli, heldur er hitt alvarlegast, að hæstv. stjórn hefur hindrað einstaklingsframtakið með þeim afleiðingum, að ekkert hefur verið gert. Það hefur verið óheppilega haldið á málinu, hverjir sem að því hafa staðið, en ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur haft alla forustuna, og það hefur drepið á dreif tilraunum einstaklinganna til þess að leysa þetta mál. Ég vænti, að það fáist upplýst, hvað hæstv. stjórn ætlar sér að gera, þegar teikningarnar koma.