21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (3826)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Fyrirspyrjandi (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég skal ekki deila um það, hvort rétt er að kalla það fé, sem ríkissjóði ber að útvega, framlag eða lán. En það fé, sem vantar til þess að stofnlánasjóðurinn nái tilskilinni upphæð, á ríkissjóður að leggja fram eða útvega að láni og þá vaxtalaust, og skiptir ekki máli í mínum augum, hvort það er kallað lán eða framlag. Við skulum nú líta á málið.

Þessi l. voru samþ. 1946. Síðan voru samin fjárl. fyrir 1947. Og hvað skeður? Þessir ráðh. töldu ekki þörf á að taka það upp í fjárl., því að það væri lögboðið að greiða það og það yrði gert, þó að það stæði ekki í fjárlögum, þeir hefðu nóg ráð í hendi sinni til þess að útvega ríkissjóði lán eða leggja það beint fram úr ríkissjóði, og með því að taka upphæðina ekki á fjárlög, urðu þau fallegri á pappírnum. En upphæðin var ekki greidd. Nú liggja frammi önnur fjárl., og er ekki sjáanlegt, að þörf hafi þótt að taka upphæðina upp í þau heldur. Enn virðast hæstv. ráðherrar ætla að leysa þetta utan fjárlaga. Og vitanlega hefðu þeir getað verið búnir að því fyrir löngu, ef vilji hefði verið til staðar. En viljann hefur vantað. Er ekkert sölufé til, sem kom inn fyrir hin svo kölluðu aflausnarbréf skattsvikaranna? Hvar er það? En þó að ríkisstj. hafi ekki greitt þetta, þá hefur hún greitt stærri upphæðir án lagaheimildar og án þess að þær hafi verið teknar í fjárlög. (Atvmrh.: Hvað er það?) Hafði stjórnin leyfi til að taka víxla í landsbankanum til að greiða með báta, sem keyptir voru og kaupendur gátu ekki greitt að sínum hluta? En þetta var gert, og ég spyr, hvenær var gefin heimild til þess? Ég skal nefna fleiri dæmi, ef óskað er, um það, að stjórnin hafi án heimildar greitt upphæðir, sem hún vildi greiða, þó að hún hafi vanrækt að greiða þetta, sem henni þó bar að greiða eftir lögum.